22.05.1980
Sameinað þing: 65. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3060 í B-deild Alþingistíðinda. (3009)

138. mál, tilraunaveiðar með dragnót

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Í svari mínu hafði ég hugsað mér að styðjast við þá skýrslu sem Hafrannsóknastofnun hefur gefið út um þetta, en hv. fyrirspyrjandi hefur nú rakið meginniðurstöðu þeirrar skýrslu og get ég því í raun og veru stytt mál mitt, en skal þó drepa á nokkur meginatriði og geta loks þeirrar hugmyndar sem ég hef um framhald þessara tilrauna.

Á næstsíðasta þingi var lagt fram frv. um breytingu á lögum nr. 81 31. maí um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, sem gerði ráð fyrir að afnumið yrði bann við dragnótaveiðum í Faxaflóa. Frv. þessu var vísað til ríkisstj. og óskað að haldið yrði áfram tilraunum við kolaveiðar í Faxaflóa, en slíkar tilraunir fóru fram sumarið 1976 og reyndar einnig 1977 og 1978 á vegum Hafrannsóknastofnunar. Tilraunir Hafrannsóknastofnunar leiddu til þess, að hún lagði til í bréfi til ru., dags. 31. 3. 1978, að dragnótaveiðar yrðu leyfðar í Faxaflóa með sömu skilyrðum og annars staðar við landið. Hefur stofnunin síðan ítrekað þessar tillögur sínar og telur að hægt sé að veiða umtalsvert af skarkola í Faxaflóa án þess að valda skaða á öðrum fiskstofnum.

Vegna þeirra tilmæla, sem fram komu á næstsíðasta þingi, gekkst rn. fyrir því, að tveir bátar voru fengnir til veiðitilrauna á s. l. hausti og stóðu tilraunirnar frá 15. ágúst til loka október. Skýrsla Hafrannsóknastofnunar um þær tilraunir hefur verið birt og send þm. og hygg ég að hv. fyrirspyrjandi hafi einkum vísað til hennar í því sem hann fór með.

Ég vil endurtaka það, sem kom fram hjá honum, að í tilraunum á s. l. hausti kom mjög greinilega fram að lítil hætta virðist á að aðrar fisktegundir veiðist. Þetta kemur fram í töflum sem í skýrslunni er að finna og eru fyrir hina ýmsu mánuði þegar tilraunir voru gerðar. Í ágúst 1979 var skarkoli ætíð yfir 90%, lægst 90.2%, og er þá ýsa 5.1%. Sömuleiðis er skarkoli ætíð yfir 90% í sept. og er hæsta hlutfallið þá 95.6%. Í okt. verður skarkoli hins vegar lægst 63.6% og þá þorskur 34.l%. En á heildina litið er skarkoli yfirgnæfandi í þessum tilraunum og því er það meginniðurstaða Hafrannsóknastofnunar, sem einnig kemur fram í þessari skýrslu, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Framanskráð bendir til þess, að arðvænlegt sé að stunda skarkolaveiðar með dragnót í Faxaflóa og það þurfi ekki að hafa áhyggjur af öðrum tegundum vegna slíkra veiða.“

Svar við fsp. hv. fyrirspyrjanda er það, að ég hef í huga að þessum tilraunum verði haldið áfram í sumar og — eins og einnig kom fram hjá honum — fjölgað verði bátum — líklega um tvo — við þessar tilraunir. Jafnframt, að sjálfsögðu í samráði við Hafrannsóknastofnun sem hefur eftirlit með þessum tilraunum, verði athugað að þær fari fram á þeim svæðum sem ekki hafa hingað til verið opnuð í þessu skyni eða þar sem tilraunir hafa ekki verið gerðar.

Ég vil einnig geta þess, að koli sá sem fékkst við þessar tilraunir, var vélflakaður í Sjöstjörnunni hf. í Keflavík, nema hvað stærsti kolinn var handflakaður hjá Baldri hf. í Keflavík. Kom sú vinnsla mjög vel út að dómi forráðamanna þessara fyrirtækja og hafa þeir mikinn áhuga á að vinnsla geti hafist aftur nú í sumar. Einnig hefur áhugi komið fram hjá vinnslustöðvum í Reykjavík, eins og ég hef áður upplýst. Því er nú í athugun að auka þessar tilraunir nokkuð.

Út af slíkri veiði víðar um landið vil ég segja það, að mér sýnist sjálfsagt að það sé skoðað, en ekki liggja fyrir nægilegar upplýsingar eða ákveðnar tillögur frá Hafrannsóknastofnun til þess að ég geti gefið þar um ákveðin svör á þessu stigi.

Ég vil jafnframt lýsa því yfir, að ég hef í huga að leggja fram í haust frv. um opnun fyrir dragnót í Faxaflóa, enda sýni tilraunir í sumar sömu niðurstöður og fengist hafa til þessa, og þá er það að sjálfsögðu á valdi hins háa Alþingis hvort ákveðið verður að breyta fiskveiðilögum í þessa átt.