22.05.1980
Sameinað þing: 65. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3064 í B-deild Alþingistíðinda. (3014)

138. mál, tilraunaveiðar með dragnót

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Mér skilst á því, sem kom fram hjá hv. þm., að ekki hafi verið fullkomlega staðið að þessari tilraun eins og sjútvn. ætlaðist til.

Það kom fram hjá hv. þm. Kjartani Jóhannssyni að skila hefði átt skýrslu um vinnsluna. Ég vil segja það, að þetta var mér ekki ljóst, en ég mun ganga eftir því og þá láta athuga, hvort öðrum atriðum frá n. er ekki fullnægt, og láta gera það.

Ég vil taka undir það, sem hér hefur komið fram, að hér er um ákaflega viðkvæmt mál að ræða, og það var ekki síst með það í huga að mér sýndist, þrátt fyrir mjög afgerandi niðurstöðu Hafrannsóknastofnunar, rétt að halda tilraunum áfram í sumar og undir ströngu eftirliti Hafrannsóknastofnunar og e. t. v. á nokkuð útvíkkuðu svæði.

Ég vil einnig upplýsa, að eins og í fyrra munu leyfi verða bundin við vinnslustöð. Það sýnist mér rétt á meðan veitt er svo takmarkað. Og það er að sjálfsögðu bundið því, að slíkar stöðvar séu undir það búnar að vinna aflann. Ég geri því ráð fyrir sama framgangsmáta nú og í fyrra.