22.05.1980
Sameinað þing: 65. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3065 í B-deild Alþingistíðinda. (3016)

138. mál, tilraunaveiðar með dragnót

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Hv. þm. Sverrir Hermannsson tók ómakið af mér í mörgu sem ég ætlaði að segja. Ég vil leggja áherslu á það, að á þessum tímum, þegar okkur vantar verðmæti á bak við peningaseðlana, sem í umferð eru, og meiri verðmæti þarf að skapa í þjóðfélaginu, þá er skömm að því að láta mjög verðmæta og allstóra fiskstofna liggja ósnerta. Og það er raunar óskiljanlegt að menn skuli ekki vilja ná í rauðsprettuna þó að það eigi að gera það með snurvoð. Sannleikurinn er sá, að þessi úrtölutónn, eins og kom hér fram í máli hv. þm. Alexanders Stefánssonar, þjónar engum tilgangi, og þar heyrði maður gamla kaupfélagstóninn, af því að það voru kaupfélögin í kringum landið sem bönnuðu snurvoðina eins og öllum er kunnugt. (Gripið fram í: Og bændur.) Og bændur.

Auðvitað hefur friðunin á Faxaflóa, eins og hann orðaði það, orðið til mikils gagns og að sjálfsögðu efast enginn um það. En á bak við orð hans skein í það, að það hefði verið snurvoðin í Faxaflóa sem hefði drepið allt líf niður. Það er auðvitað hin mesta fjarstæða. Í Faxaflóanum toguðu allir togarar landsmanna og meira að segja útlendinga líka fram eftir öllu, og snurvoðin, eins og hún var þá, og snurvoðin, eins og hún er núna, með 170 mm möskva — (Gripið fram í: Nei, hún er 155.) Hún er orðin með 170 mm möskva og áður var möskvinn auðvitað talsvert minni og þar áður miklu minni. Veiðarfæri með 17 cm möskva, eins og mönnum ætti að vera kunnugt samkv. útreikningi, drepur alls engan smáfisk og getur ekki hirt smáan kola heldur, enda veiðist bókstaflega ekkert í þetta nema koli, eins og kom fram í tilraunum hjá Aðalsteini Sigurðssyni. Það voru yfir 90% af aflanum flatfiskur. Þess vegna er ég svolítið hissa á því, þegar jafnskynsamur maður og orðvar og hv. þm. Stefán Jónsson er er að benda mönnum á að það eigi að gera upptækan allan bolfisk sem kemur í þessi veiðarfæri. Það kemur enginn bolfiskur í þessi veiðarfæri nema stór. Á nú að fara að banna að veiða stóra fiskinn og leyfa að veiða þann smáa? Það væri svo sem eftir öðru.

En það eru fleiri tegundir af kola hér við landið, sem betur fer. Nú orðið hlýtur hann að vera í eins miklu magni og hann hefur fæðu til. Það er orðið þykkt af honum sums staðar og þar á ég við þykkvalúruna, sem er kölluð „lemmi“ í daglegu tali, enda kalla Englendingar hann „lemon sole“. Ég er einn af þeim Íslendingum sem hafa stundað lemmaveiðar og flutning til útlanda, og þar þurftu útlendingarnir ekki vélar til að flaka hann. Þeir handflökuðu þetta í Danmörku og fluttu með frystilestum um alla Evrópu á okurverði strax daginn eftir. Þetta er stofn sem enginn veit hvað er stór. Þetta er fiskur sem ekki er hægt að ná í troll með 155 mm möskva, því að hann er þannig vaxinn að hann snýr sig í gegnum slíka möskva. Og ég vil leggja áherslu á það og benda hæstv. sjútvrh. á það, að þarna er verulega stór stofn sem alls ekkert er nýttur og þyrfti endilega að ná tökum á. En það verður ekki gert með trolli því að það nær ekki þessum fiski. Það þarf að leyfa veiðar með minni möskva í trolli undir eftirliti til að reyna að ná í þennan fisk.