22.05.1980
Sameinað þing: 65. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3066 í B-deild Alþingistíðinda. (3017)

138. mál, tilraunaveiðar með dragnót

Guðmundur Karlsson:

Herra forseti. Það vill svo til að ég var meðflm. með Ólafi Björnssyni að því frv. til l. um breyt. á lögum sem var lagt fyrir 1978 og er um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og má segja að hafi vakið upp vissa trúarvakningu hér við Faxaflóann, þegar mótmælalistar voru liggjandi, má segja, á hverri bensínstöð og eins í móttökum banka, eins og hv, þm. Stefán Jónsson sagði frá áðan. Ég tel að í nýtingu þess fiskstofns, sem er skarkolinn, hafi gætt ákaflega mikils tvískinnungs hjá okkur. Ekki nema lítill hluti af þessum stofni er nú nýttur, á meðan við erum að ofnýta flesta aðra fiskstofna, og ég taldi sjálfsagt að við nýttum þau verðmæti sem þarna eru í sjónum. Ég held að það sé ekki ætlun okkar að stofna neins konar neðansjávarþjóðgarð í Faxaflóa eða annars staðar við landið. Við þurfum á þessum verðmætum að halda og við skulum ná til þeirra.

En ég stóð fyrst og fremst upp til að leiðrétta misskilning sem kom fram hjá hv. þm. Garðari Sigurðssyni um stærð möskvans, að hann væri 170 mm. Hann er það alls ekki. Hann er 155 mm.

Ég vil fara fram á það við hæstv. sjútvrh., að sú tilraun, sem gerð verður í haust, verði gerð með möskvastærðinni 170 mm, þannig að í ljós komi hvað raunhæf till. okkar Ólafs Björnssonar hefur verið. Það vildi ég fyrst og fremst fara fram á, að tilraunin verði gerð eins og við lögðum til og hv. sjútvn. Ed. ætlaðist til að yrði.