22.05.1980
Sameinað þing: 65. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3071 í B-deild Alþingistíðinda. (3025)

232. mál, störf stjórnarskrárnefndar

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Fyrsta spurning hv. þm. er þessi: Hvenær er ráðgert að störfum stjórnarskrárnefndar ljúki?

Í þeirri þál., sem samþykkt var vorið 1978 um þessa stjórnarskrárnefnd, segir að hin nýja nefnd skuli innan tveggja ára skila álitsgerð og tillögum um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Nefndin var skipuð í byrjun des. það ár og hefur verið litið svo á að sá tveggja ára starfstími nefndarinnar, sem till. fjallar um, eigi því við skipun nefndarinnar þannig að hún eigi skv. ályktuninni að hafa skilað álitsgerð og tillögum um endurskoðun stjórnarskrárinnar fyrir lok ársins 1980.

2. spurning hv. þm. er þessi: Er von á áfangaskýrslu frá nefndinni á næstunni?

Í upphafi nefndarstarfa var lögð fyrir nefndina verkefnaskrá, þ. e. taldir upp allmargir liðir, milli 25 og 30 að tölu, um þau atriði í stjórnarskránni sem alveg sérstaklega þyrfti að taka til umræðu og meðferðar. Síðan var farið rækilega á mörgum fundum yfir öll þessi atriði og þau rökrædd. Aflað hefur verið upplýsinga innanlands og utan um ýmis þessara atriða og samdar greinargerðir. Hefur verið ætlun nefndarinnar að taka saman grg. eða það sem hv. þm. nefnir áfangaskýrslu til handa þingflokkunum. Er sú grg. eða réttara sagt þær greinargerðir, sem þar er um að ræða, í vinnslu og það langt komið að þær á að mega afgreiða frá nefndinni til þingflokkanna áður en langt um líður. Það var í fyrstu rætt um hvort ætti í fyrstu aðeins að senda grg. um kjördæmamálið sjálft og þá helstu möguleika og kosti sem þar væru á döfinni, en niðurstaðan varð sú að senda samtímis greinargerðir um önnur atriði stjórnarskrárinnar sem hafa verið rædd og tekin til meðferðar. En mál standa þannig nú, að á næstu fundum nefndarinnar verður gengið frá þessari áfangaskýrslu eða grg. til þingflokka.

3. spurning hv. þm. er á þá leið: Hversu margir fundir hafa verið haldnir í nefndinni? Fyrstu fundir voru haldnir í des. 1978, strax eftir að nefndin hafði verið skipuð. Samtals hafa verið haldnir 24 fundir í nefndinni, þar af 6 á þessu ári. Eins og að líkum lætur eru störf nm. hins vegar ekki eingöngu fólgin í fundarhöldum, því að milli funda er unnin mikil vinna við gagnaöflun og samningu greinargerða sem nm. svo kynna sér og athuga milli funda. Það eru allmargvísleg gögn sem þannig hefur verið aflað fyrir nefndina.

Þá spyr hv. þm. í fjórða lagi hve margir starfsmenn starfi á vegum nefndarinnar og hve mikið þeir þiggi í laun. Nefndin réð sér í upphafi starfsmann sem ráðunaut, þ. e. prófessorinn í stjórnskipunarrétti við Háskóla Íslands, dr. Gunnar G. Schram. Verkefni hans er að semja sérfræðilegar álitsgerðir um ýmis stjórnarskrármálefni samkv. óskum nefndarinnar og afla gagna. Þá annast hann einnig skrifstofuhald fyrir nefndina. Greiðslur fyrir þessi störf hafa numið 335 þús. kr. á mánuði, þ. e. bæði þóknun og kostnaður við nefndarstörfin. Ritari stjórnarskrárnefndar er ráðuneytisstjórinn í forsrn., Guðmundur Benediktsson, og eru laun hans sömu og nm.

5. spurningin er hver séu mánaðarlaun nm. Sú nefnd á vegum fjmrn., sem fjallar um slík mál, ákvað laun stjórnarskrárnefndar og núverandi laun nm. eru samkv. ákvörðun nefndar þeirrar 65 935 kr. á mánuði og að venju um 50% hærri fyrir formann, hvort tveggja samkv. ákvörðun þessarar nefndar.

Ég vænti að ég hafi svarað fsp. hv. þm: sem eru hér prentaðar á þskj., en í ræðu sinni drap hann til viðbótar á fleiri atriði og m. a. þá samþykkt Framsfl., að endurskoðun stjórnarskrárinnar yrði ekki lokið fyrr en síðla á þessu kjörtímabili, ef ég skildi hv. þm. rétt. Nú hef ég getið um það, hvernig ákvæðin eru um störf nefndarinnar og hvenær hún á að skila sínum tillögum og grg. Síðan er ljóst að það tekur vafalaust nokkurn tíma á Alþ. að fjalla um svo stórt mál. Eins og kunnugt er er sá háttur um stjórnarskrárbreytingar að til þess þarf samþykki fyrst eins þings og síðan þingrof og samþykki annars þings eftir þingrof og kosningar. Ég hef ekki gert ráð fyrir að þing yrði sérstaklega rofið vegna endurskoðunar stjórnarskrárinnar, heldur yrði sá háttur hafður nú eins og oft áður að reynt yrði að láta endurskoðun eða samþykkt nýrrar stjórnarskrár eða stjórnarskrárbreytinga falla saman við almennar kosningar.