09.01.1980
Efri deild: 16. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í B-deild Alþingistíðinda. (303)

17. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Frv. það til laga um Húsnæðismálastofnun ríkisins, sem hér er til 1. umr., er flutt sem stjfrv. núv. ríkisstj. Ég vænti þó í reynd mun víðtækari samstöðu um efni þess hér í þinginu, því frv. er samið og fellt inn í ramma, sem fyrrv. ríkisstj. samþykkti og kynnti í sept. s.l. sem stefnumótun sína í húsnæðislánamálum. Sú stefnumótun er til glöggvunar birt í heild sem fskj. I með frv. Ég vænti því stuðnings þeirra flokka, sem stóðu að þessari stefnumótun, við meginefni frv. og það eins þótt nokkuð sviptivindasamt hafi verið á þjóðmálasviðinu síðan.

Alvarleg og málefnaleg afstaða í svo þýðingarmiklu máli sem þessu er ekki og má aldrei verða nein dægurfluga. Jafnframt er þess að gæta, að fyrir nýliðnar kosningar kynnti Sjálfstfl. stefnu í húsnæðislánamálum sem mér virtist ganga í svipaða átt og frv. þetta í ýmsum veigamiklum atriðum. Ég tel því rétt að það verði athugað, hvort og þá með hvaða hætti sé unnt að ná sem viðtækastri samstöðu allra stjórnmálaflokka um þetta mál.

Lögfesting nýrrar og í ýmsum atriðum gjörbreyttrar stefnu í lánveitingum hins opinbera til húsnæðismála er stórmál, ekki síður í félagslegum skilningi en fjárhagslegum. Því er mikils um vert að sem mest eindrægni ríki meðal allra stjórnmálaflokka um efni hennar og framkvæmd.

Mér er það ljóst, að athugun þingsins á máli sem þessu hlýtur að verða ítarleg og taka af þeim sökum nokkurn tíma. Ég leyfi mér þó að lýsa þeirri von minni, að þeirri umfjöllun verði hraðað svo sem mikilvægi málsins frekast leyfir.

Í almennum athugasemdum við frv. er því lýst, hvernig staðið hefur verið að gerð þess og undirbúningi. Fer ég því fljótt yfir þá sögu, en vil þó undirstrika að sú vinna var í senn fjölþætt og ítarleg, líklega óvenjulega ítarleg. Við mótun tillagna frv. um skipulag lánamála og tilhögun lánveitinga hefur verið gerð ítarleg athugun og samanburður á skipan þeirra mála í nálægum löndum, einkum á Norðurlöndum, en þess þó jafnframt gætt að laga till. að aðstæðum hér á landi. Almenna fyrirmynd frv. þessa er því ekki að finna í húsnæðislöggjöf neinnar annarrar þjóðar, en hins vegar ýmsar einstakar hliðstæður.

Veigamikill þáttur undirbúningsvinnunnar var athugun á fjárstreymi íbúðarlánakerfisins og framreikningur þess. Mjög hefur verið til þeirra útreikninga vandað, enda augljóst að lögfesting nýrrar stefnu, í íbúðarlánamálum varðar mikla fjármuni og hlýtur því að tengjast stefnu stjórnvalda í ríkisfjármátum, félags- og atvinnumálum sem og markmiðum á sviði fjárfestingar og lánamála. Til þess ber því brýna nauðsyn, að mönnum séu sem allra ljósastar hinar fjárhagslegu afleiðingar slíkrar lagagerðar.

Athuganirnar hafa verið unnar í tölvu með flóknum reikniforritum, sem gerð voru sérstaklega vegna þessa verks, en ætla verður að geti framvegis orðið húsnæðismálastjórn og raunar einnig stjórnum ýmissa annarra fjárfestingarlánasjóða mikilsvert hjálpartæki.

Þrátt fyrir þetta hlýt ég að undirstrika það, að töflur og aðra útreikninga, sem fylgja frv., ber að meta með hæfilegri aðgát. Hér er auðvitað sjaldnast um einfaldar reikniformúlur að ræða né algildar niðurstöður. Við ákvörðun forsendna þessara útreikninga hafa risið ýmis álitamál, sem þurft hefur að vega og meta. Þessar forsendur eru víðast tilgreindar og skýrðar, en niðurstöðurnar verður að sjálfsögðu að skoða með hliðsjón af því.

Auk almennra athugana á fjárstreymi íbúðarlánakerfisins hafa jafnframt verið ítarlega könnuð áhrif lánskjaranna, þ.e. lánstíma, vaxta og verðtryggingar annars vegar, á getu byggingarsjóðanna til að mæta útlánamarkmiðum frv. og hins vegar á greiðslubyrði lántakenda. Við ákvörðun hvers einstaks þáttar lánskjaranna hefur því verið unnt að gæta í senn tveggja meginsjónarmiða: að ávöxtun sjóðanna og útlánageta væri tryggð og að greiðslugetu hins almenna lántakanda væri ekki ofboðið.

Áður en ég vík að einstökum köflum frv. þykir mér rétt að vekja athygli á niðurstöðum, sem fengust af athugun þeirra útlánakjara sem gilt hafa um opinber húsnæðislán nokkur síðustu árin. Þessar niðurstöður eru raktar á bls. 18 og 19 í almennum athugasemdum með frv. og bornar þar saman við lánskjör annarra fjárfestingarlánasjóða. Einsýnt virðist að sú hlutfallslega verðtrygging lánanna, sem tekin var upp árið 1974 og gilti fram á mitt síðasta ár, hefur skilað óvæntum niðurstöðum. Lánskjörin hafa í raun verið miklum mun þyngri en menn uggði og að var stefnt. Ástæða þessa er einkum sú, að vextir reiknast hverju sinni ofan á uppfærslu verðtryggða hluta lánsins. Hann vex stöðugt að hlutfalli, en óverðtryggði hlutinn rýrnar að sama skapi. Leiðir þetta ekki aðeins til hárrar raunávöxtunar, þegar miðað er við lánstímann í heild, heldur einnig til mjög misþungrar greiðslubyrði af lánunum og því þyngri kjara sem lánin eru lengri. Þannig sýndi það sig, að þau kjör, sem ákveðin voru fyrir nýbyggingarlán húsnæðismálstjórnar í maí 1978, jafngiltu frá um það bil 5.1% til 7% meðatraunávöxtun og vorn því við núv. verðlagsaðstæður orðin ein þau þyngstu sem þekktust hjá fjárfestingarlánasjóðum. Þetta sést glöggt á Töflu 1 á bls. 19 í frv. Þessar athuganir og hinar óvæntu niðurstöður þeirra árétta öðru fremur nauðsyn þess, að ákvarðanir í þessum efnum séu vandlega undirbúnar og reistar á ítarlegum útreikningum. Af niðurstöðum þessum leiddi að strax á síðasta ári var lánareglum húsnæðismálastjórnar breytt þannig, að tekin var upp full verðtrygging og vextir til bráðabirgða ákveðnir 2% á ári, en hafðir breytanlegir. Fela þessi nýju lánskjör í sér verulega til slökun frá eldri kjörum, húsbyggjendum í vil, andstætt því sem ýmsir munu halda, bæði betri kjör og jafnari.

Þá þykir mér ástæða til að vekja sérstaka athygli á niðurstöðum athugana á heildarfjárþörf íbúðarlánakerfisins, eins og ætla má að hún verði samkv. þeim till. sem gerðar eru í frv. Þær athuganir og forsendur þeirra eru raktar og skýrðar á bls. 31–36. Einkum er Tafla 10 athyglisverð, en þar er leitast við að sýna fram á árlega viðbótarfjárþörf alls lánakerfisins fram til ársins 1990, skiptingu hennar milli beinna framlaga og lánsfjáröflunar, sem þó er engan veginn bindandi, og áhrif þess hvernig lánveitingar skiptast milli almenna og félagslega lánakerfisins. Taflan sýnir einnig hvernig aukning beinna framlaga skiptist milli ríkis og sveitarfélaga miðað við gefnar forsendur.

Við athugun skýrir taflan sig sjálf og leiðir að mínu mati í ljós, að þótt stefnt sé með frv. að verulegri aukningu útlána, þá eru þau markmið þó engan veginn óframkvæmanleg né ofviða fjárhagsgetu sveitarfélaga eða ríkissjóðs. Þó kemur til álita að tímabundinni þörf lánakerfisins fyrir aukin framlög verði mætt með því t.d. að nýta um sinn í auknum mæli þá skattstofna sem Byggingarsjóður ríkisins hefur nú tekjur af. Taflan nær aðeins fram til ársins 1990 og sýnir því ekki, að upp frá því dregur mjög hratt úr framlagaþörfinni, en sjóðirnir rísa í vaxandi mæli undir úttánum með eigin fjármunamyndun.

Markmið frv. er að 80% lánshlutfalli verði náð fyrir almenn nýbyggingarlán á eigi lengri tíma en 10 árum. Ýmis fleiri dæmi hafa þó verið reiknuð. Þannig sýndu athuganir, að ef ná ætti þessu markmiði á 6 árum þyrfti að auka árlegt fjárstreymi til sjóðsins um 3–6 milljarða á árunum 1980–1985 til viðbótar þeirri fjáröflun sem taflan sýnir. Þó var þar reiknað með að allri þessari viðbótarþörf væri mætt með óafturkræfum framlögum og miðað við verðlag síðasta árs. Því virðist einsýnt að slíku markmiði verði ekki náð án mjög verulegrar viðbótartekjuöflunar og röskunar á heildarfjárfestingu, sem er langt umfram raunhæfnismörk.

Að þessu leyti ber að skoða frv. og markmið frv. sem málamiðlun þess, sem æskilegt er, og þess, sem raunhæft er. Mikilvægt er að gera sér ljósa grein fyrir þeim forsendum, sem byggt er á varðandi aukningu lánsfjáröflunar til byggingarsjóðanna. Er beinlínis byggt á því, að fjármagn lífeyrissjóðanna beinist í mjög auknum mæli til byggingarsjóðanna til endurlána fyrir íbúðarbyggingar. Það hlýtur að teljast eðlilegt þegar haft er í huga að lífeyrissjóðirnir hafa undanfarin ár verið önnur aðaluppspretta lánsfjár til íbúðarbygginga. En úr þörfinni fyrir lánveitingar þeirra mun draga samtímis því og að sama skapi og lánveitingar opinberu veðlánasjóðanna aukast. Að þessu leyti miðar frv. að því, að veita því fjármagni, sem nú er til ráðstöfunar til húsnæðislána, í einn heildstæðan farveg. Ætti þessi tilhögun einnig að þjóna hagsmunum lífeyrissjóðanna sjálfra með ýmsum hætti. Þannig yrði þeim tryggð leið til verðtryggðrar ávöxtunar þeirrar sjóðssöfnunar, sem er umfram lífeyrisgreiðslur þeirra. Ávöxtun þeirra verður að líkindum betri og tryggari en með einstökum lánveitingum til sjóðsfélaga, auk þess sem þessi tilhögun veitir almenningi eðlilegri aðgang að sparnaði þeirra en nú er, en slíkt samrýmist einmitt þeirri stefnu sem uppi er í málefnum lífeyrissjóðanna.

Annað mikilvægt atriði eru kjör þess lánsfjár sem Byggingarsjóðnum er aflað. Gefur auga leið að sjóðirnir geta aldrei náð að byggjast upp og rísa undir þeim markmiðum sem að er stefnt, ef verja þarf tekjum þeirra til greiðslu vaxtamunar að einhverju verulegu marki. Lánsfjár Byggingarsjóðs ríkisins er nú aflað frá skyldusparendum, Atvinnuleysistryggingasjóði og lífeyrissjóðum. Í VI. kafla frv. er stefnt að því, að ávöxtun skyldusparnaðar verði hin sama og á útlánum sjóðsins, nema hvað lánstíminn er að sjálfsögðu annar. Lán sín hjá Atvinnuleysistryggingasjóði tekur Byggingarsjóður með sömu kjörum og gilda á útlánum hans, einnig að því er lánstímann varðar. Hins vegar hafa vextir af lánsfé frá lífeyrissjóðunum verið 4% auk fullrar verðtryggingar og lánstíminn styttri eða 15 ár. Er því ljóst að stefna verður að breytingum og samræmingu þessara kjara.

Að því er varðar Byggingarsjóð verkamanna hefur þar verið vitnað sérstaklega og sýnt í Töflu 5, að nafnvextir af lánum til hans mega ekki vera þyngri en 2% auk fullrar verðtryggingar og lánstími a.m.k. 21 ár.

Það er því alveg ljóst, að framkvæmd fjárhagsákvæða þessa frv. byggist á því, að samkomulag takist við lífeyrissjóðina um sömu kjör eða áþekk og nú gilda á útlánum þeirra til sjóðsfélaga sinna. Vænti ég þess staðfastlega, að um þessi mál náist samstaða.

Ég ætla þessu næst að víkja að efni hinna einstöku kafla frv. Ég mun reyna að stikla þar á stærstu atriðunum, enda er efni frv. ítarlega skýrt í athugasemdum með því svo og með drögum að reglugerðum, sem eru fskj. II og III. Það er nokkur nýlunda að láta fylgja lagafrv. slík reglugerðardrög. Ég tel þó að slíkt sé til bóta, einkum við setningu svonefndra rammalaga, þar sem hentugra er að útfæra nánar í reglugerðum ýmis framkvæmdaatriði sem eru eðli máls samkvæmt undirorpin tíðari breytingum en meginefni lagatextans. Ég ætla að þessi drög geti þannig í ýmsum tilvikum varpað nokkru ljósi á þá hugsun, sem að baki lagaákvæðanna býr, og auðveldað umr. um þau.

Þótt reglugerðin sæti ekki þinglegri umfjöllun samkv. stjórnskipan okkar, þá fæ ég ekki séð að það geti verið til annars en góðs fyrir þann ráðh., sem setur að lokum þessar reglugerðir, ef hann hefur átt þess kost að kynnast viðhorfum hv. þm. til þessara draga og hlýða á ábendingar um efni þeirra.

Í I. kafla er fjallað um hlutverk Húsnæðismálastofnunar ríkisins og skipulag hennar. Nýmæli þessa kafla eru þau helst, að komið er á með formlegum hætti deildaskiptingu innan Húsnæðismálastofnunar og að bókhald hennar, annað en lánabókhald, er flutt til ríkisbókhaldsins. Niður fellur tilnefning veðdeildar Landsbanka Íslands á einum manni í stjórn stofnunarinnar og fækkar þeim því um einn. Þá er kjörtímabili stjórnarinnar breytt þannig, að hana skuli kjósa að afstöðnum hverjum almennum þingkosningum, en ekki á fjögurra ára fresti eins og nú er. Verkefnum stjórnar stofnunarinnar er hnikað lítillega til og hún leyst undan því að þurfa, a.m.k. að formi til, að fjalla um og árita hverja einstaka lánveitingu. Forstöðumenn einstakra deilda stofnunarinnar fá starfsstöðu framkvæmdastjóra, sem er í samræmi við sjálfstæða stöðu stofnunarinnar og verkefnaskiptingu innan hennar. Loks má geta þess nýmælis, að tæknideild er gert að vinna samkv. staðfestri gjaldskrá og er ætlað að standa undir rekstrarkostnaði með sölu á þjónustu sinni.

Í II. kafla eru ákvæði um Byggingarsjóð ríkisins og hinar almennu útlánareglur. Helstu breytingar frá gildandi lögum að því er framkvæmdaatriði varðar eru þær, að sjóðurinn verður varðveittur í Seðlabanka Íslands í stað veðdeildar Landsbankans. Þá er gert ráð fyrir því, að niður falli það flókna fyrirkomulag sem gilt hefur um afgreiðslu lána, þar sem veðdeildin hefur að formi til verið lánveitandi gagnvart húsbyggjendum, en Byggingarsjóður ríkisins síðan lánveitandi gagnvart veðdeild. Lagt er til að Byggingarsjóður veiti lánin beint til lántakenda, en veðdeildin annist afgreiðslu þeirra og innheimtu fyrir hönd sjóðsins. Þóknun til veðdeildar fyrir þá vinnu verði greidd samkv. samningi og með hliðsjón af fjölda afgreiðslna, en ekki með sérstöku álagi á þá vexti sem skuldabréfin bera, eins og nú er. Tekin er upp heimild til að fela almennum innlánsstofnunum afgreiðslu og innheimtu lánanna í því skyni að færa þjónustuna við lántakanda nær honum. Er það mál nú í athugun. Skipan þeirra ákvæða, sem fjalla um útlánaflokkana, er sú, að í lögunum eru flestar helstu meginreglur um lánshæfni, missi lánsréttar og meðferð lánsumsókna. Ákvæðin eru síðan útfærð mun ítarlegar í reglugerð og þar kveðið nánar á um framkvæmdina. Er slík skipan hentugust með tilliti til endurskoðunar þessara reglna, eins og áður segir.

Loks er þess nýmælis að geta, að sækja skal um lán til nýbyggingar áður en framkvæmdir hefjast. Er slíkt til bóta fyrir húsbyggjanda, sem þannig fær tóm til að bæta úr ágöllum á umsókn eða fyrirhugaðri framkvæmd, sem ella hefði getað svipt hann lánsrétti. Eins varðar það miklu fyrir húsnæðismálastjórn að fá sem fyrst vitneskju um framkvæmdir vegna áætlana um lánsfjárþörf.

Ég vík þá að sjálfum útlánaflokkunum sem verða níu talsins samkv. frv. Eru þeir taldir upp í 10. gr., en útfærðir í meginatriðum í næstu 19 greinum þar á eftir. Fyrsti flokkurinn og sá veigamesti eru lán til kaupa eða bygginga á nýjum íbúðum, hin svonefndu nýbyggingalán. Þetta er sá útlánaflokkurinn sem mestu fé er árlega varið til úr Byggingarsjóði ríkisins, sá þeirra sem býður upp á mest svigrúm til stefnumótunar í húsnæðismálum og hagstjórnar og því jafnframt sá flokkur útlán þar sem flest og afdrifaríkust álitamál rísa. Ég hlýt því að tileinka honum rúman tíma í framsögu minni.

Mér þykir hæfa að geta í byrjun helstu tímamóta í þróun almennra veðlána til húsbyggjenda hér á landi. Við það verður þó að sitja tímans vegna að stikla þar aðeins á hinu allra stærsta.

Húsnæðislán koma fyrst til kasta Alþingis árið 1881, er þar var lagt fram frv. um stofnun lánsfélags fyrir eigendur fasteigna á Íslandi, eins og það nefndist. Var það fellt eftir miklar deilur við 3. umr. í Ed. Á næstu árum bar þessi mál alloft á góma í Alþ., enda fann þjóðin sárt til þess, hve tilfinnanlega hana skorti fjármagn, hið nauðsynlega afl til þeirrar framfarasóknar sem þá var að hefjast á öllum sviðum þjóðmálanna.

Árið 1897 samþykkti Nd. Alþingis þál., þar sem skorað var á stjórnina að leggja fram frv. til l. um lánsstofnun eða lánsfélag fyrir jarðeignir og húseignir í landinu, sem veitt gæti veðlán um sem lengst árabil og með sem vægustum vaxtakjörum. Fól landshöfðingi Páli Briem amtmanni í Norður- og austuramtinu samningu slíks frv. og var það samþykkt á Alþ. árið 1899 sem lög um veðdeild Landsbanka Íslands.

Veðdeildin tók síðan til starfa hinn 20. júlí árið 1900 og veitti sama dag sitt fyrsta lán til byggingar hússins Bergstaðastræti 3 í Reykjavík. Lánið nam 1300 kr. og var veitt til 25 ára með 41/2% vöxtum auk 1/2% tilleggs til varasjóðs. Fasteignaveðlán koma síðan margsinnis til umfjöllunar á Alþ. næstu áratugina. Árið 1911 var flutt frv. um sérstakan fasteignaveðbanka Íslands, sem aldrei kom þó til meðferðar, og 10 árum síðar, árið 1921, voru samþykkt lög um stofnun ríkisveðbanka Íslands. Þau komu þá heldur aldrei til framkvæmda. Má því segja að stjórn og framkvæmd þessara mála hafi alfarið hvílt á herðum veðdeildar Landsbankans allt til ársins 1955, er lög nr. 55 frá 20. maí það ár voru sett og komið á fót sérstakri húsnæðismálstjórn sem heyrði undir félmrn. og fór ásamt veðdeildinni með yfirstjórn nýs almenns veðlánakerfis til íbúðabygginga.

Árið 1952 hafði raunar verið komið á sérstakri lánadeild smáíbúða, sem var reikningslega felld inn í veðdeildina árið 1956. Var veðdeildin allan þann tíma rekin sem sjálfstæð stofnun með eigið bókhald og óháð bankanum þó hún væri formlega undir yfirstjórn hans. Með lögum frá 1. júní 1957 var svo Húsnæðismálastofnun ríkisins komið á fót til að hafa með höndum yfirumsjón með lánsfjáröflun og lánveitingum til íbúðabygginga í landinu. Var þá jafnframt stofnaður sérstakur sjóður til að annast almennar lánveitingar til íbúðabygginga, Byggingarsjóður ríkisins, þó að áfram væri þannig að fjáröflun staðið að formi til að veðdeild Landsbanka Íslands annaðist útgáfu og sölu sérstakra bankavaxtabréfa sem ríkissjóður bar einfalda ábyrgð á.

Með lögum frá 1962 fékk Stofnlánadeild landbúnaðarins það hlutverk að lána til íbúðabygginga í sveitum, en á síðasta ári tóku Húsnæðismálastofnun ríkisins og Byggingarsjóður við því hlutverki. Fjölmargar breytingar hafa orðið á lögum um Húsnæðismálastofnun ríkisins síðan árið 1957, þó varla teljist þær hafa markað sérstök tímamót í sögu almennra veðlána til íbúðabygginga hér á landi.

Eitt mikilvægasta atriðið við ákvörðun nýbyggingarlána eru að sjálfsögðu þær reglur sem ákvarða lánsfjárhæðina hverju sinni. Lengst af hafa verið í lögum hér á landi ákvæði sem tengdu upphæð lánsins byggingarkostnaði eða öllu heldur matsverði þeirrar eignar sem lánið var veitt til. Þannig mátti lánsfjárhæðin skv. fyrstu veðdeildarlögunum nema allt að helmingi af virðingarverði fasteignarinnar. Ég hygg að þetta hlutfall hafi haldist óbreytt lengst af allt til stofnunar húsnæðismálastjórnar árið 1955, en þó með ýmsum afbrigðum, svo sem um hámarkslán að krónutölu, og skv. einum lánaflokknum, þeim 16. sem tók til starfa í febr. 1947, námu lánin fastri krónutölu á rúmmetra í íbúðarhúsum úr steini, víst 55 kr. á rúmmetra það ár.

Árið 1955 tóku gildi þær reglur að lána mætti allt að 2/3 hluta virðingarverðs, þó ekki hærri fjárhæð en 100 þús. kr. Það er svo loks með lögum nr. 19 frá 1965 að hámarkslánsfjárupphæð er ákveðin í krónutölu 280 þús., en tekið fram að hún mætti þó aldrei verða umfram ¾ af virðingarverði fasteignar. Gilda þau mörk raunar enn í dag.

Auðvitað hafði það þó oftlega verið svo áður, að hámark láns í krónum talið hafði verið sett svo neðarlega að viðmiðun við hlutfall matsverðs skipti ekki máli í raun. Árið 1968, með lögum nr. 8, var ráðherra heimilað að hækka lánin, sem þá voru 280 þús., árlega í samræmi við hækkun byggingarvísitölu. Með lögum nr. 30. frá 1970 var lánsfjárhæðin ákveðin 600 þús. og húsnæðismálastjórn heimilað að hækka hana í samræmi við breytingar á byggingarvísitölu á tveggja ára fresti að fengnu samþykki ráðh. Loks voru lánin hækkuð í 800 þús. með lögum nr. 58 frá 1973 og heimiluð árleg hækkun skv. breytingum á byggingarvísitölu með samþykki ráðh. Gildir sú tilhögun enn, en lánsfjárhæðin nam sem kunnugt er 5.4 millj. kr. á síðasta ári og fer sennilega á þessu ári upp í rúmar 8 millj.

Af þessu stutta yfirliti, yfir þær reglur, sem gilt hafa hér á landi til ákvörðunar á fjárhæð íbúðarlána, sést að í þessu efni verða nokkur þáttaskil árið 1965. Þá höfðu allt frá aldamótum gilt reglur sem tengdu lánsfjárhæðina við byggingarkostnað eða matsverð þeirrar eignar sem lánað var til. Síðan þá hefur lánsfjárhæðin hins vegar verið tilgreind í lögum sem ákveðin upphæð í krónum talið og því í raun hin sama fyrir allar nýbyggingar. Svo kann að virðast við fyrstu sýn að með slíkri tilhögun sé fyllsta jafnræðis gætt. Þannig er þetta þó auðvitað alls ekki í raun. Fjölskylduaðstæður fólks eru afar mismunandi og raunveruleg húsnæðisþörf þess að sama skapi breytileg. Fyrirgreiðsla hins opinbera sem hlutfall af nauðsynlegri fjárfestingu í íbúðarhúsnæði er því ákaflega mismikil og því meiri sem húsnæðisþörfin er minni. Þó er ljóst að aðstaða einstaklings og barnlausra hjóna til eigin fjármögnunar er allajafna betri en hinna, sem eiga fyrir mörgum að sjá. Það lætur því nærri, að segja megi að á fyrirgreiðslu hins opinbera við húsbyggjendur séu nú að þessu leyti öfug formerki. Þegar lítið er yfir umræður um frv. frá 1965 hér á hv. Alþ. kemur líka greinilega í ljós, að tilgangur breytingarinnar var sá einn að tryggja það að takmarkað ráðstöfunarfé Byggingarsjóðs nægði fyrir ákveðnum lágmarksfjölda lánveitinga á ári hverju, þá miðað við 750 lán. Átti breytingin hins vegar ekkert skylt við það, að sú tilhögun þætti æskileg að veita öllum jafnhátt lán. Þetta var aðeins afleiðing af skiptingu ráðstöfunarfjárins í tiltekinn fjölda lánveitinga, sem var hið eiginlega markmið breytingarinnar.

Fyrirkomulag húsnæðismálalána á öðrum Norðurlöndum er alls staðar með öðrum hætti en hér gildir nú. Í Danmörku eru veitt almenn byggingarlán til allra tegunda húsbygginga, sem nema jafnaðarlega 40% af raunvirði íbúðarinnar. Auk þess eru veitt sérstök skilyrt byggingarlán til nýbygginga og geta þau numið 80% af byggingarkostnaði.

Í Noregi veitir Húsbankinn almenn lán til húsbyggjenda í þéttbýli. Lánin eru breytileg eftir íbúðargerðum og geta numið allt að 85% af sérstökum viðmiðunargrunni, sem bankinn ákveður í samræmi við byggingarkostnað hverju sinni. Í reynd mun húsnæðislán þar nema röskum 60% af heildarbyggingarkostnaði.

Í Svíþjóð nema lánin einnig hlutfalli af sérstökum viðmiðunargrundvelli, sem stjórnvöld ákveða fyrir hverja tegund íbúða og er sem næst raunverulegum byggingarkostnaði. Sérstakir íbúðasjóðir, sem eru í eigu viðskiptabanka og sparisjóða, lána allt að 70% byggingarkostnaðar, en auk þess lánar ríkið til viðbótar lán sem eru breytileg með tilliti til tegundar íbúðar og tekna umsækjanda, en nema til einstaklinga allt að 15% byggingarkostnaðarins.

Í Finnlandi eru lánin tengd byggingarkostnaði, og geta ríkislánin þar numið 60% kostnaðarins að meðtölum sérstökum viðbótarlánum sem eru breytileg eftir tekjum, en einkum veitt láglaunafólki. Auk þess veita bankar og sparisjóðir almenn byggingarlán.

Frv. það, sem hér er til umræðu, miðar að áþekkri skipan mála, að fjárhæð nýbyggingarlána verði tiltekið og stighækkandi hlutfall af byggingarkostnaði íbúðar þar sem stærð og gerð svarar til eðlilegrar húsnæðisþarfar hvers umsækjanda. Skilgreining þess, hvað sé eðlileg húsnæðisþörf ólíkra fjölskyldustærða, er auðvitað ekki einfalt mál. Þann vanda verður þó að takast á við og leysa, því hlutfallsleg fjármögnun af hálfu hins opinbera á kostnaði alls þess, sem mönnum gæti hugkvæmst að byggja, kemur auðvitað ekki til greina. Til þess skortir í senn fjárhagslegar forsendur og skynsamlegar ástæður. Því er sú leið valin í 32. gr. frv. að fela tæknideild Húsnæðismálastofnunar gerð nokkurs konar forskriftar að fjórum gerðum íbúða, sem henti ólíkum fjölskyldustærðum, og áætla reglulega eðlilegan meðaltalsbyggingarkostnað þeirra í samráði við Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins. Lánsréttur hvers íbúðarbyggjanda er síðan hlutfall þessa áætlaða byggingarkostnaðar íbúðar af þeim stærðarflokki sem svarar til fjölskyldustærðar hans, — íbúðar sem skal vera hagkvæm, en vönduð að allri gerð.

Þótt í greininni sé talað um hönnun staðalíbúða er ekki átt við það, að með þeim eigi að setja öllu húsnæði einhver mörk að því er útlit eða skipulag varðar. Hygg ég að Íslendingseðlinu þætti sér gróflega misboðið með slíku. Mönnum verður að sjálfsögðu frjálst að ráða gerð, útliti og öðru fyrirkomulagi síns húsnæðis. Með hönnun er þarna átti við það eitt, að vissar grundvallarforsendur verður að gefa sér og setja um reglur varðandi stærð og gerð hverrar staðalíbúðar, eins og þær eru nefndar, áður en unnt er að áætla byggingarkostnað þeirra. Nánari ákvæði eru um þessa skipan í 6. og 7. gr reglugerðardraganna fyrir almennu veðláni.

Ég bið þm. að afsaka það að í fyrstu línu 3. málsgr. 32. gr. hefur misritast að staðalíbúðir skuli vera þrjár. Þarna á að standa fjórar, eins og glöggt kemur fram í reglugerðardrögunum. Þarf að leiðrétta þetta.

Ég ætla þá næst að víkja að öðru mikilvægu atriði sem nýbyggingarláni varðar. Það er afstaða til þess, með hvaða hætti stjórnvöld vilja beita útlánareglum opinberu veðlánasjóðanna til að hafa áhrif á þróun byggingarstarfseminnar í landinu. Það er auðvitað alveg ljóst, að með ströngum og ítarlegum lánshæfnisskilyrðum, svo sem um hönnun og tæknilega útfærslu, reglum sem skerða eða fella niður lánsrétt ef vikið er frá tilteknum forskriftum um lausnir sem ætla má að séu þjóðhagslega hagkvæmastar, má að einhverju leyti stýra þróun byggingariðnaðarins og beina honum inn á ákveðnar brautir. Ekki er ósennilegt að með þessum hætti mætti örva framfarir og hagkvæmni að vissu marki og stuðla að lækkun byggingarkostnaðar. Á hitt er einnig að líta, að slíku kerfi gæti hætt til að verða viðamikið og flókið, hefði jafnvel tilhneigingu til að verða ósveigjanlegt og hlyti a.m.k. að binda mjög hendur manna og takmarka ákvörðunarrétt þeirra. Í frv. er ekki farið að marki út á þessa braut. Til viðbótar því aðhaldi, sem sjálfkrafa leiðir af þeirri tilhögun að veita aðeins lán út á hóflegan og eðlilegan byggingarkostnað, en láta menn sjálfa um að fjármagna sín „flottheit“, er lánsrétturinn aðeins bundinn ákveðnum stærðarmörkum. Stærðarmörk staðalíbúðanna verða miðuð við íbúðir í sambýlishúsum, en í einbýlis-, rað- og parhúsum mega þær vera allt að 20% stærri. Frá þessum mörkum má síðan víkja þannig að byggt sé allt að 20% stærra en sem þeim nemur. Fari stærðin hins vegar fram úr þeim mörkum glatast lánsrétturinn. Svo tekið sé eitthvert dæmi til skýringar, má gefa sér þá forsendu að grunnflatarmál íbúðar í sambýlishúsi skv. 3. staðli, þ.e. fyrir 5–6 manna fjölskyldu, sé 120 m2. Sú fjölskylda heldur þá lánsrétti sínum óskertum þótt hún byggi í sambýlishúsi íbúð sem er allt að 144 m2 að stærð. Í einbýlis-, rað- og parhúsi mætti sama fjölskylda hins vegar byggja allt að 172.8 m2 áður en lánsréttur glatast. Mörkin eru höfð vel rúm, án þess þó að þjóðfélagið afsali sér rétti sínum til að taka þá afstöðu gagnvart þeim, sem vilja fjárfesta í húsnæði langt umfram allar eðlilegar þarfir venjulegs fólks, að slíkt sé honum að vísu heimilt, en það verði að vera án þátttöku samfélagsins.

Í gildandi lögum um Húsnæðismálastofnun ríkisins er almennt og mjög víðtækt ákvæði sem heimilar að setja í reglugerð ákvæði sem tryggi að við lánveitingar til einstaklinga sé farið eftir ástæðum umsækjenda, húsnæði, fjölskyldustærð, efnahag, lántökumöguleikum o.fl., enn fremur skuli þar ákveða hámarksstærðir þess húsnæðis sem veita má lán til. Í framkvæmd hafa málin hins vegar þróast svo hér, að aðeins stærðarmörkin ein skipta einhverju máli við ákvörðun lánsréttar. Fram til ársins 1977 giltu ákveðin stærðarmörk fyrir hverja fjölskyldustærð og varðaði það missi lánsréttinda ef byggt var umfram það. Það ár var þessum reglum hins vegnar breytt verulega, á þann veg að sé byggt umfram tilskilin stærðarmörk skerðist lánið að tiltölu. Þannig má 2–5 manna fjölskylda byggja 135 m2 íbúð í einbýlishúsi á einni hæð og frá því marki eru heimiluð frávik allt að 5 m2. Sé frávikið umfram 5 m2 skerðist lánið um 5% og síðan áfram um 5% fyrir hverja 5 m2 uns frávikið er orðið 25 m2 frá stærðarmörkum. Eftir það skerðist lánið um 10% fyrir hverja 5 m2 sem við bætast. Þessar reglur eru nokkuð flóknar, en munu þó hafa reynst allvel, nema hvað rými í kjöllurum húsa veldur sífelldum deilum.

Á Norðurlöndum eru þessar reglur víða enn flóknari, einkum í Noregi, þar sem frávik frá tilgreindri stærð einstakra herbergja getur varðað skerðingu eða missi lánsréttarins og aðeins má nota tilgreint byggingarefni í ákveðnum hlutum íbúða.

Í Svíþjóð eru sett mörk bæði varðandi stærð húsnæðis og byggingarkostnað og fellur réttur til ríkislánsins niður ef umframkostnaður frá viðmiðunarmörkum er verulegur.

Í Finnlandi getur lánsréttur skerst um helming við ákveðin frávik frá stærðar- og kostnaðarmörkum.

Um nauðsyn á gildi þessara reglna má sjálfsagt endalaust deila. Ég hef þó kosið að leggja þetta frv. fram með einföldum reglum að þessu leyti. Aðeins er lánað hlutfall eðlilegs og hóflegs kostnaðar. Umframkostnað ber húsbyggjandi sjálfur, en geldur hans ekki að öðru leyti. Stærðarmörkin eru sveigjanleg og rúm. Sé hins vegar farið út fyrir hæstu mörk fellur lánsrétturinn niður. Hvort hér sé höndlaður einhver stórisannleikur skal ósagt látið. Hitt er einsýnt, að það er ætíð mikill kostur að hafa slíkar reglur einfaldar og skýrar þannig að á þeim þurfi hinum almenna manni ekki að verða fótaskortur.

Áður en ég hverf alveg frá nýbyggingarlánunum þykir mér rétt að víkja að tveimur atriðum til viðbótar sem miklu varða og geta verið nokkur álitamál. Hið fyrra er spurningin um það, hversu oft einn og sami maður eða sama fjölskylda skuli eiga rétt á láni úr veðlánakerfi hins opinbera. Í frv. er gert ráð fyrir að sama regla gildi um nýbyggingarlán, sem eru veitt úr Byggingarsjóði ríkisins, og um lán til kaupa á eldra húsnæði. Frumbyggjar eða þeir, sem eignast sina fyrstu íbúð, skulu ætíð sitja fyrir um lán. Að öðru leyti skulu allir eiga rétt á að fá tvisvar lán til að eignast eigin íbúð, byggja eða kaupa tvisvar nýja íbúð, kaupa tvisvar eldri íbúð eða kaupa einu sinni eldri íbúð og byggja þá eða kaupa líka einu sinni nýja íbúð. Einu gildir hvort nýbyggingarlánið var veitt úr Byggingarsjóði ríkisins eða Byggingarsjóði verkamanna. Raunar skal ekki óheimilt að veita sama aðila oftar slík lán, ef sérstakar aðstæður hans mæla með því og fjárhagsgeta sjóðsins leyfir. En heimilt er að hafna slíkum lánsumsóknum eða skerða lánveitingar. Það skal fúslega játað, að hér koma ýmsar fleiri leiðir til álita. Vel má hugsa sér að veita lán oftar, en skerða það hlutfallslega hverju sinni. Skerðinguna þyrfti þá að byggja á einhverjum ákveðnum forsendum, svo sem athugun á meðaleignarhaldstíma fólks á íbúðum sínum, þannig að samræmi væri milli eiginfjármyndunar eiganda í íbúð sinni, sem einkum ræðst af eignartímanum, og þeirrar skerðingar sem honum væri gert að þola á lánsréttindum. Ég hygg þó að slíkar reglur væru býsna vandmeðfarnar og gætu reynst afar misgóðar.

Önnur aðferð, sem gæti virst nærtæk, er að takmarka lánveitingar alfarið við þá sem ekki eiga íbúð fyrir. En einnig það er vandkvæðum bundið þegar betur er að gáð. Íslendingar eignast afar oft sitt íbúðarhúsnæði í tveimur áföngum, fyrst litla íbúð, gjarnan í fjölbýlishúsi, en síðan, þegar fjölskyldan stækkar og ásmegin vex, frambúðarhúsnæði af hentugri stærð. Þá er það síður en svo neinn einhlítur mælikvarði á efni fólks að eiga eigið húsnæði. Raungildi slíkrar eignar getur verið næstum hvað sem er, en er auk þess iðulega vanmetið. Það ræðst af því m.a. hver eignin er og hvar hún er, hvort ráðstöfun hennar er háð einhverjum takmörkunum, en ekki síst af því, hve mikil lán hvíla á henni og með hvaða kjörum. Ýmis fleiri álitamál rísa.

Þegar allt þetta er virt og metið má ljóst vera, að bæði formlega og efnislega orkar það mjög tvímælis að tengja lánsrétt því, hvort umsækjandi á fyrir eða hefur átt eigið húsnæði eða aðrar tilsvarandi eignir, eða láta það atriði eitt sér valda skerðingu á lánsréttinum. Mér er það raunar ljóst að vissir annmarkar eru einnig á þeirri tilhögun sem frv. byggir á. Sá ótvíræði kostur er þó við hana að framkvæmd hennar er einföld og getur tæpast orkað tvímælis. Afstaða til eldri lánveitinga væri ekki vandamál samkvæmt ákvæði 1 til bráðabirgða, sem veitir einfaldlega öllum eldri lántakendum rétt til eins láns samkvæmt hinum nýju reglum. Þá er það kostur, að skerðingarákvæði frv. veitir svigrúm til að meta einstök tilvik og sérstakar aðstæður fólks. Mestu mun þó skipta, að þegar öllum er orðið ljóst að endurgreiða verður raungildi lánanna, að þau skapa mönnum ekki verðbólgugróða, hljóta þeir að takmarka sjálfir í vaxandi mæli umsóknir sínar við raunverulega lánsfjárþörf í stað þess að sækja sjálfkrafa um hæsta mögulegt lán, svo sem löngum hefur tíðkast.

Ég vík þá loks að útborgunarreglum lánanna, þó eðli máls samkvæmt séu þær fremur reglugerðar- en löggjafaratriði. En mikilvægi þeirra er óumdeilanlegt. Löngum hefur nokkuð verið deilt á þessar reglur. Lánin hafa, sem kunnugt er, komið til greiðslu í þremur jöfnum hlutum síðan á árinu 1975, en áður í tveimur hlutum. Að því hefur verið stefnt, einkum síðustu árin, að fyrsti hluti þeirra kæmi til greiðslu um þremur mánuðum eftir að húsnæðið var fokhelt, sem er þó aðeins starfsregla, annar hlutinn 6 mánuðum síðar og þriðji hlutinn svo um 6 mánuðum þar á eftir, en þau tímamörk voru sett inn sem viðmiðun í reglugerð árið 1975. Ekki hefur þó nærri alltaf tekist að haga útborgun samkvæmt þessu og því oft verið mun lengra á milli greiðsludaga.

Það er augljóst, að þessi tilhögun við útborgun lánanna hefur valdið húsbyggjendum margvíslegum erfiðleikum, tafið framkvæmdir og tekið upp tíma og fé við öflun skammtímafyrirgreiðslu. Einkum hafa þessar reglur þó oft verið þungar í skauti hinum stærri byggingarfyrirtækjum, sem búa yfir tækni til að byggja tiltölulega hratt, svo og framleiðendum staðlaðra hús eða húshluta, sem sumir hverjir ná að afhenda húsin fullbúin eða því sem næst löngu áður en fyrsti hluti húsnæðislánsins kemur til greiðslu. Þessum reglum er nú ráðgert að breyta verulega og eru um það efni ítarleg fyrirmæli í drögum að reglugerð fyrir almenn veðlán Byggingarsjóðs ríkisins. Vísa ég þar til fskj. II með frv.

Samkv. 4. gr. reglugerðarinnar er að því stefnt, að fyrsti hluti nýbyggingarlánsins nemi allt að 10% af byggingarkostnaði þeirrar staðalóúðar, sem markar lánsrétt viðkomandi húsbyggjanda, og komi til greiðslu eigi síðar en þremur mánuðum eftir úttekt jarðvegsgrunns, enda hafi botnplata þá verið steypt. Annar hlutinn er 30% byggingarkostnaðar og kemur til greiðslu eigi síðar en 6 mánuðum eftir úttekt á ystu klæðningu þaks og klæðningu veggja, ef um timburhús er að ræða. Síðasti hlutinn er 40% byggingarkostnaðarins og kemur til greiðslu 6 mánuðum eftir að húsnæðið er tilbúið undir tréverk og málningu að innan. Þessar reglur taka mið af þeim byggingarstigum sem eru úttektarskyld samkv. hinni nýju byggingarreglugerð, nr. 292 og 298 frá síðasta ári. Meðan lánin hafa enn ekki náð því hlutfalli kostnaðarverðs, sem að er stefnt, verður hver einstök lánsútborgun að sama skapi lægri. Með þessum reglum er útborgun lánsfjárins tengd mun betur raunverulegri verkframvindu en nú er. Þá ætti sú tilhögun að veita formlegt lánsloforð fyrir fyrsta hluta lánsins, sem er framseljanlegt, t.d. til banka eða sparisjóðs, að auðvelda öllum bráðabirgðafyrirgreiðslu frá þeim stofnunum. Jafnframt er þó fyrir því séð, að ætíð sé nægileg trygging fyrir hendi og hagsmunum sjóðsins sé ekki teflt í tvísýnu.

Önnur afleiðing þessa fyrirkomulags og ekki síður afdrifarík er sú, að hver einstök lánveiting ræðst af kostnaðarverði staðalíbúðar á þeim tíma er útborgun lánsins fer fram. Þetta kostnaðarverð er endurskoðað til samræmis við breytingu byggingarkostnaðar á þriggja mánaða fresti. Af þessu leiðir að verðbólgan vinnur ekki gegn hagsmunum húsbyggjandans og rýrir lánsfé hans með þeim hætti sem nú er. Samkvæmt gildandi reglum fær húsbyggjandinn lán af þeirri fjárhæð sem gildir þegar umsókn hans barst Húsnæðismálastofnun. Það hefur síðan engin áhrif á lánsfjárhæðina þó hlutar hennar komi ekki til greiðslu fyrr en t.d. hálfu öðru eða tveimur árum síðar, þegar verðlag er gjörbreytt orðið. Þetta kemur einnig til móts við þarfir byggingarfyrirtækja og húseiningaverksmiðja. Auk þess verður að ætla að framkvæmdalán samkvæmt 9. tölul. 10. gr., sem nánar eru skýrð í 29. gr. frv. og enn ítarlegar í 16. og 17. gr. reglugerðarinnar, muni geta létt þessum fyrirtækjum róðurinn.

Þarna er að vísu gert ráð fyrir veigamikilli aðild innlánsstofnana sem veiti skammtímafyrirgreiðslu út á ákveðin tiltekin lánsloforð. slík skammtímafyrirgreiðsla við einstök fyrirtæki er eðlilegra viðfangsefni banka og annarra innlánsstofnana en veðlánakerfis hins opinbera til íbúðarbyggjenda. — Þess má geta til fróðleiks, að í Noregi greiðir Húsbankinn ekki eyri út af sínum lánum fyrr en byggingu er alveg lokið. Í Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi tíðkast einnig slíkt samspil bankakerfisins og hins opinbera íbúðarlánasjóðs. Á byggingartímanum veita bankar skammtímalán, sem íbúðalánasjóðirnir breyta síðan í langtímalán að hluta eða öllu leyti þegar framkvæmdum er lokið.

Það er ekki úr vegi að víkja nú að því hlutverki sem innlánsstofnanirnar, þ.e. bankar og sparisjóðir, mundu einkum gegna samkv. frv. í fjármögnun íbúðabygginga og íbúðakaupa. Hlutdeild þessara stofnana í fjármálamyndun í íbúðarhúsnæði hefur löngum verið ærin og afar mikilvæg. Lætur nærri að um eða yfir helmingur af útlánum sparisjóða renni beint til íbúðabygginga, mest í formi meðallangra lána, nú síðast einkum vaxtaaukalána. Bein lán bankanna til íbúðarhúsabygginga hafa hins vegar lengst af verið meira í formi skammtímafyrirgreiðslu, einkum stuttra víxillána, sem þó hafa oft verið framlengd eða jafnvel breytt í föst lán. Auk þess keyptu þessir aðilar áður fyrr vaxtabréf veðdeildarinnar fyrir verulegar fjárhæðir. Samkv. opinberum hagskýrslum mun hlutdeild innlánsstofnana í heildarfjármunamyndun í íbúðarhúsnæði hafa numið um 12% árið 1977 og nær 15% árið 1978. Svarar það til rúmlega 5 milljarða kr. á verðlagi þess árs, þ.e.a.s. 1978 og er þá miðað við útlánaaukningu þessara stofnana á árinu, þannig að heildarfjárhæð veittra lána er töluvert hærri.

Þótt nauðsynlegt sé að gera vissa fyrirvara við þá lánaflokkun sem hér er byggt á, er þó ljóst að um mikla fjármuni er hér að tefla. Samkv. frv. yrðu meginviðfangsefni innlánsstofnana á sviði íbúðarlánamála væntanlega þessi:

1. Að veita einstaklingum bráðabirgðalán til nýbygginga út á lánsloforð Húsnæðismálastofnunar.

2. Að fjármagna einnig til skamms tíma framkvæmdir á vegum byggingarfyrirtækja og framleiðenda staðlaðra húsa eða húshluta, einnig gegn framvísun fyrrgreindra lánsloforða frá veðlánakerfinu.

3. Að veita lán til kaupa á eldra húsnæði þeim aðilum sem eiga fyrir íbúðir eða aðrar tilsvarandi eignir.

4. Að fjármagna á framkvæmdatímanum endurbætur og endurnýjun eldra húsnæðis og meiri háttar viðbygginga við það, svo og þann endurbótakostnað sem sérstaklega er lánað til vegna orkusparandi áhrifa hans.

Hér er að sjálfsögðu gengið út frá þeim aðstæðum sem eru langtímamarkmið þessa frv., þeim mörkum milli verkefna veðlánakerfisins og almennra innlánsstofnana sem mundu þróast og skýrast á nokkru árabili.

Sé lítið yfir byggingarstarfsemina hér á landi frá aldamótum blasa við sjónum okkar nokkrar staðreyndir.

Byggingartími hefur hér jafnan verið lengri í samanburði við nálægar þjóðir, íbúðir fremur stórar og fjárfesting í íbúðum tiltölulega hátt hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu og af brúttófjárfestingu í fastafjármunum.

Þá er það einkennandi fyrir þetta tímabil, að tiltölulega miklar sveiflur hafa verið á því, hve mikið hefur verið byggt af íbúðarhúsnæði. Hafa þær sveiflur lengst af haldist í hendur við ýmsar ytri aðstæður og afkomu þjóðarbúsins á hverjum tíma. Byggingarstarfsemin hefur því síður en svo stuðlað að jafnvægi í verðlags- og atvinnumálum. Þvert á móti, hún virðist fremur hafa ýtt undir og aukið á slíkar sveiflur.

Auðvitað er gott eitt um það að segja, að þjóðin eignist rúmgóðan og vandaðan húsakost. Það er eðlileg afleiðing af okkar stríðu og umhleypingasömu veðráttu og tiltölulega löngu inniveru. Húsnæðið er mikilvægur og verðmætur þáttur í almennri menningu okkar og verður, er til lengdar lætur, mikilvægt þjóðarverðmæti. Þá er það viðurkennt, að hin mikla og almenna eign fólks í eigin húsnæði hefur öðru fremur orðið brjóstvörn þess gegn ágangi óðaverðbólgu síðustu áratuga. En einmitt vegna þessa mikilvægis er þeim mun brýnna að stjórnvöld móti skynsamlega húsnæðislánastefnu til langs tíma, — stefnu sem vinnur gegn þeim agnúum sem enn eru á byggingarstarfseminni: löngum byggingartíma, kostnaðarsömum framkvæmdum og sveiflum í framkvæmdamagni. Allt á þetta að einhverju leyti rætur að rekja til þess að fjármögnun opinbera veðlánakerfisins hefur verið handahófskennd og ómarkviss, útlánakjörin lengst af óraunhæf og fyrirgreiðsla við íbúðabyggjendur bæði seinvirk og ónóg í senn.

Það væri sannarlega verðugt verkefni og eftirminnilegt, ef núverandi löggjafarþing minntist átta áratuga afmælis opinberra veðlána til íbúðabygginga, sem er 12. jan. 1980, og þess stórhug, sem Alþ. þá sýndi, er þjóðin var rétt að vakna af aldalangri fátækt og umkomuleysi, með því að leggja nú hornstein að nýrri og djarfbuga stefnu í húsnæðislánamálum, — stefnu sem gerði okkur mögulegt að byggja upp á tiltölulega fáum árum öfluga og sjálfbjarga íbúðarlánasjóði sem veitt gætu húsbyggjendum á viðráðanlegum kjörum fullnægjandi fyrirgreiðslu og sambærilega við það sem tíðkast í nágrannalöndum okkar, — stefnu sem gerði ungu fólki kleift að láta rætast hinn íslenska draum um eigið húsnæði án þess að bestu árum ævinnar sé kastað á glæ í þrotlausu striti og fjárhagslegum áhyggjum, sem oft hafa bitnað óbætanlega bæði á börnum húsbyggjenda og heimilislífi þeirra. Slíka stefnu tel ég frv. þetta marka hvað varðar lán til byggingar eða til kaupa á nýju húsnæði.

Mér hefur orðið tíðrætt um nýbyggingarlánin, enda eru þau langmikilvægust allra útlánaflokkanna, eins og áður segir. Til þeirra runnu á síðasta ári um 6.2 milljarðar kr. eða sem næst 43% af heildarútlánum Byggingarsjóðs ríkisins, og eru framkvæmdalán og lán til leigu- og söluíbúða á vegum sveitarfélaga þá ekki meðtalin. Auk þess eru breytingar samkv. frv. þessu líklega mestar og róttækastar innan þessa flokks.

Ég vík þá að næsta lánaflokki, þ.e. lánum til kaupa á eldra húsnæði. Hann á sér ekki langa hefð í sögu húsnæðismála hér á landi. Til hans var stofnað með lögum nr. 30 frá 1970 og heimilað að verja til þessara lána ákveðinni fjárhæð árlega, upphaflega 50 millj. kr., en nánari reglur um úthlutun, lánstíma o.fl. skyldu settar í reglugerð. Það var síðan gert með reglugerð nr. 204 frá 1970 og þar ákveðið að lánin mættu nema allt að hálfri fjárhæð hámarksláns til nýbygginga. Með lögum nr. 72 frá 1972 var heildarlánsheimildin hækkuð í 80 millj. kr. og í 160 millj. kr. með lögum nr. 23 frá 1975. Þetta hámark var síðan afnumið með lögum nr. 38 frá 1976, en ákveðið að húsnæðismálastjórn skyldi árlega gera tillögur til ráðh. um heildarlánsfjárhæðina.

Þessi lánaflokkur er nú orðinn annar stærsti útlánaflokkur Byggingarsjóðs ríkisins. Til hans var á síðasta ári varið um fjórðungi alls ráðstöfunarfjár sjóðsins. Mér býður í grun, að fæsta hafi órað fyrir þeirri þróun þegar lánsheimildin var upphaflega lögfest. Hún virðist nánast hafa dottið inn í lögin eins og af himnum ofan, var tæpast á hana minnst í umr. um frv. hér á hv. Alþ. Frsm. gat hennar sem nýmælis án frekari aths. Mér hefur virst, að næst því að taka til hennar efnislega afstöðu hafi sá þm. komist, sem sagði að þetta væri út af fyrir sig nauðsynjamál, en fann hins vegar að því að fjármagn til útlána í nýtt húsnæði skertist að sama skapi. Svo virðist að þróun þessara mála síðan beri nokkurt svipmót hinnar losaralegu tilurðar, boltinn hafi nánast oltið undan hallanum og hlaðið utan á sig án þess að honum væri nema að litlu leyti mörkuð fastmótuð stefna eða tilgangurinn með ferð hans tilgreindur: hver væru hin þjóðfélagslegu markmið með þessum lánum, hvernig þeim væri best fyrir komið, hvaða áhrif þau hafi í raun haft á nýtingu eldra húsnæðis, á verð fasteigna og kröfur um útborgun í fasteignaviðskiptum. Þó varðar það mestu, að til þessara lánveitinga hefur aldrei verið aflað sérstakra tekna. Þær hafa því haft víðtæk og afdrifarík áhrif á útlánagetu Byggingarsjóðs til annarra verkefna, — áhrif sem nauðsynlegt er að íhuga og bera saman við þann ávinning sem af þeim kann að hafa orðið.

Áður en lengra er haldið ætla ég að gera nánari grein fyrir því, hvernig þessi lán hafa þróast og vaxið. Árið 1971, fyrsta heila árið sem lán þessi voru veitt, var fjöldi þeirra 450. Árið 1974 voru lánveitingar enn aðeins ríflega 400 talsins. Árið 1976 voru þær hins vegar orðnar 783, árið 1978 1897 og í fyrra urðu þær 2363. Heildarfjárhæð lánveitinganna hefur verið sem hér segir á verðlagi hvers árs:

Árið 1971 75.5 millj. kr.

— 1974 84.4 — —

— 1976 261.6 — —

— 1978 1532.0 — —

— 1979 3800.0 — —

Árið 1971 voru lán þessi 9.2% af heildarlánveitingum Byggingarsjóðs ríkisins, en á síðasta ári um fjórðungur, eins og áður segir.

Um fjárhæð lánanna gilda að formi til enn þau ákvæði í reglugerðinni frá 1970, að þau megi nema allt að helmingi nýbyggingarláns. Sú heimild var notuð að fullu árið 1972, en síðan ekki aftur fyrr en árið 1978, en náði þá til þeirra einna, sem ekki áttu íbúð fyrir. Á síðasta ári giltu sömu reglur. Sá, sem var að eignast íbúð í fyrsta skipti, fékk allt að 2.7 millj. kr. að láni, en aðrir mest 1.5 millj. Í raun var meðalfjárhæð lánanna þó rúmar 1600 þús. kr. Þó hefur meðalfjárhæð þessara lána líklega aldrei verið hærri sem hlutfall af nýbyggingarlánum, eða 29.6%. Árið 1971 var þetta hlutfall reyndar 28%, en hefur lengst af verið mun lægra, t.d. aðeins 15.8% áríð 1977.

Um markmiðið með þessum lánum þarf ekki að fara mörgum orðum. Þeim er ætlað að stuðla að bættri og aukinni nýtingu þess húsnæðis, sem þegar er til í landinu. Þjóðfélagslegt mikilvægi þess er óumdeilanlegt ekki síst þegar inn í þá mynd kemur jafnframt nýting allrar þeirrar gífurlegu fjárfestingar, sem lagt hefur verið í, einkum af hálfu ríkis og sveitarfélaga, til aðstöðusköpunar í eldri íbúðahverfum og uppbyggingar á hinni margþættu opinberu þjónustu. Álitamál geta hins vegar risið þegar kemur að því að meta hve miklum árangri gildandi útlánareglur hafa skilað okkur. Það er skoðun mín, að sá árangur sé minni en efni standa til og því valdi rangar útlánareglur. Að vísu eru ekki handbærar neinar öruggar upplýsingar um bein áhrif þessara lánveitinga á nýtingu eldra húsnæðis. Ákveðnar og að mínum dómi marktækar vísbendingar má þó fá úr Árbók Reykjavíkurborgar, sem hefur að geyma tiltölulega vönduð yfirlit um þróun byggingarstarfseminnar í borginni. Þannig bjuggu að meðaltali aðeins um 2.3 íbúar í hverri íbúð í eldri hverfum borgarinnar í árslok 1977, en um 3.3 íbúar að meðaltali í .nýrri hverfunum. Þó er hlutfallslega mun meira af íbúum í eldri hverfunum í einbýlis- og tvíbýlishúsum, eða tæp 30% í Vesturbæ, en aðeins 16.4% í Breiðholti. Sambærilegar tölur um íbúafjölda á íbúð eru viða miklum mun hærri í nágrannabyggðarlögunum eða um 3.6 á Seltjarnarnesi, 4.1 í Garðabæ og 5.5 í Mosfellssveit. Tilsvarandi samanburður við árslok 1978 sýnir að þetta ástand fer enn versnandi. Þannig minnkaði nýting íbúðarhúsnæðis á árunum 1978 úr 2.42 íbúum á íbúð í Vesturbæ í 2.36, úr 2.33 í 2.27 í Austurbæ. Tilsvarandi meðaltalstölur fyrir borgina alla eru 2.84 í árslok 1977, en 2.75 í árslok 1978. Þetta hlutfall var fyrir 10 árum 3.5 íbúar á íbúð. Forðast ber að draga af þessum tölum of almennar ályktanir um einstaka af mörgum áhrifaþáttum, sem þarna verka vafalaust saman. Þó hljóta þær að veita líkur fyrir því, að lánveitingar opinbera veðlánakerfisins til kaupa á eldra húsnæði hafi ekki náð tilgangi sinum þrátt fyrir stórfellda aukningu heildarlánsfjárhæðarinnar. Ég held að skýringin sé sú, að lánsfénu sé dreift í of marga staði. Fjárhæð einstakra lána er að vísu nægilega há til að íbúðarkaupendur telji ómaksins vert að sækja um þau hafi þeir á annað borð áhuga að kaupa eldra húsnæði. Hún er hins vegar ekki nægilega há til þess að hafa úrslitaáhrif á þá ákvörðun. Á síðasta ári var meðallánsfjárhæðin aðeins rúmlega 1600 þús. kr., eins og áður segir. Svarar það til um 8.5% af meðalútborgun í fjögurra herbergja íbúð í Reykjavík á þriðja ársfjórðungi síðasta árs.

Af þeim ástæðum, sem ég hef nú skýrt, er í frv. mörkuð sú stefna að áskilja þeim forgangsrétt til lána sem eru að eignast íbúð í fyrsta skipti, en veita þeim jafnframt fyrirgreiðslu sem er sambærileg við þá sem íbúðabyggjendur njóta. Markmiðið er sem sagt að gefa þeim, sem eru að eignast sína fyrstu íbúð, raunhæft val á milli þess að gera það með nýbyggingu eða kaupum á eldri íbúð, að því er opinbera lánafyrirgreiðslu varðar. Á það er hins vegar að líta, að til þessa útlánaflokks eru ætlaðir takmarkaðir fjármunir, sama fjárhæð að raungildi og á síðasta ári að viðbættri aukningu sem svarar til vaxtar á þjóðartekjum. Hækkandi lán í hlutfalli af umframfjárþörf til samræmis við hækkun lánahlutfalls til nýbyggingar mun því með tímanum valda því, að draga verður úr útlánum til kaupenda á eldra húsnæði sem eiga eða áttu íbúðir fyrir. Gagnvart þeim verður að treysta á banka og sparisjóði, eins og áður er vikið að, enda dregur þá samtímis og að sama skapi úr þörfinni fyrir lán þessara stofnana til nýbygginga, svo og þeirra sem eignast sinar fyrstu íbúðir í eldra húsnæði. Í því sambandi vil ég minna á það, að raungildi innlána hjá bönkum og sparisjóðum virðist nú fara vaxandi. Reglur þessar eru þó oft ekki hafðar fortakslausar, heldur svigrúm til mats á sérstökum aðstæðum. Ekki eru tök á að binda lánsréttinn hér við ákveðnar stærðir þess húsnæðis sem keypt er, því að fyrirkomulag og nýting eldra húsnæðis er víða með allt öðrum hætti en nú tíðkast. Hins vegar er sá varnagli settur í reglugerð, að ekki skal miða lánveitingu við hærra kaupgjald en svarar byggingarkostnaði þeirrar staðalíbúðar sem gildir til viðmiðunar fyrir hlutaðeigandi fjölskyldu. Þá eru í reglugerð sett nánari ákvæði um það, með hvaða hætti skuli beitt heimild laganna til skerðingar á lánsréttindum. Til að mæta sveiflum, sem geta orðið á fjölda nýbyggingar- og íbúðakaupalána milli ára, er í 31. gr. sett heimild til flutnings ráðstöfunarfjár milli útlánaflokka, ef sérstakar ástæður mæla með því.

Þess skal að lokum getið, að Finnar munu einir hinna Norðurlandaþjóðanna veita lán sem þessi úr opinbera veðlánakerfinu. Gilda um þau flóknar reglur, svo sem um forgangsröðun af hálfu sveitarfélaga og tillit til félagslegra sjónarmiða.

Ég hef nú lokið við að gera grein fyrir tveimur fyrstu útlánaflokkum almennu veðlánanna samkv. 10. gr. frv., en jafnframt þeim langmikilvægustu. Fer ég því fljótt yfir sögu varðandi þá sjö flokka sem enn eru ótaldir.

Þriðji útlánaflokkurinn fjallar um lán til dvalarheimila fyrir aldraða og til dagvistunarstofnana fyrir börn. Helstu meginreglur um þennan lánaflokk eru síðan í 16., 17. og 18. gr. frv. og frekari útfærsla í 12. gr. reglugerðar. Takmarkaðar heimildir til lánveitinga af þessu tagi hafa um nokkurt skeið verið í lögum um Húsnæðismálastofnun. Þannig er í lögum nr. 30 frá 1970 heimild til að veita lán til byggingar leiguhúsnæðis í kaupstöðum og skipulagsskyldum kauptúnum. Á grundvelli þeirra hafa verið veitt lán til byggingar leiguíbúða fyrir aldraða og öryrkja, einkum þó eftir árið 1974.

Árið 1976 var tekin upp heimild til að veita lán til endurbóta á húsnæði aldraðra. Hafa þau lán lotið sömu reglum og lán til kaupa á eldra húsnæði, en verið takmörkuð við ellilífeyrisþega, þ.e. þá sem náð hafa 67 ára aldri. Í lögunum frá því í fyrravetur var síðan heimilað að veita lán til byggingar vistheimila aldraðra og dagvistunarstofnana fyrir börn. Ég held, að útlánareglur frv. skýri sig að mestu sjálfar, og fjalla því ekki nánar um þær að sinni.

Í 4. lið 10. gr. eru heimilaðar lánveitingar til meiri háttar viðbygginga svo og til endurbóta og endurnýjunar á eldra húsnæði. Tilgangur þeirra er að sjálfsögðu einkum sá að stuðla að bættu viðhaldi og betri nýtingu þess húsnæðis sem til er í landinu. Eru þar höfð í huga jöfnum höndum fjárhagssjónarmið og það, að mörg eldri hús hafa sögulegt og menningarlegt gildi sem skylt er að varðveita þegar kostur er. Lán til viðbygginga hafa verið veitt úr Byggingarsjóði ríkisins frá stofnun hans, en hins vegar ekki almenn lán til viðhalds eða endurbóta. Slík lán hafa ekki verið veitt fyrr en húsnæðið var hreinlega orðið heilsuspillandi og þá til að útrýma því. Veðdeildin mun hins vegar hafa veitt slík viðhaldslán að einhverju marki á sínum tíma. Ég hygg að þessi lánaflokkur þarfnist ekki sérstakrar skýringar.

Fimmti útlánaflokkurinn eru lán til útrýmingar á heilsuspillandi húsnæði. Fyrstu heimildir til slíkra lána munu hafa verið í II. kafla laga um húsnæðismálastjórn, nr. 55 frá 1955. Fjallað er um þessi lán í sérstökum kafla gildandi laga um Húsnæðismálastofnun ríkisins, en þau eru sem kunnugt er að stofni til frá árinu 1970. Slíkt verður þó að teljast ofrausn því að mikilvægi þessa lánaflokks gefur naumast tilefni til slíks. Þær reglur hafa gilt um þessi lán, að veitt hefur verið til þeirra sérstök fjárveiting á fjárlögum, sem sífellt hefur rýrnað eins og slíkar fjárveitingar gjarnan gera. Féð hefur verið lánað gegn jafnháu framlagi eða láni hlutaðeigandi sveitarfélags.

Frv. gerir ráð fyrir gerbreyttri skipan þessara mála, svo sem nánar er lýst í 21. og 22. gr. Lárún verði tvenns konar: Annars vegar venjuleg nýbyggingarlán, sem hlutaðeigandi sveitarstjórn tekur til byggingar íbúða sem síðan eru seldar því fólki sem áður bjó í hinu heilsuspillandi húsnæði. Einnig á sveitarstjórn völ á láni samkv. III. kafla frv., en það nemur 90% af byggingarkostnaði íbúðar sem síðan skal leigð fyrri íbúum hins heilsuspillandi húsnæðis. Ætla verður að þýðing þessa lánaflokks aukist nokkuð á nýjan leik, þar sem almenna veðlánakerfið hefur nú tekið við því hlutverki að lána til íbúðabygginga í sveitum, en þar er áreiðanlega víða þörf mikilla endurbóta íbúðarhúsnæðis.

Sjötti flokkurinn er sérstök viðbótarlán til einstaklinga með sérþarfir. Koma þau í staðinn fyrir, en eru jafnframt mun rýmri en þau ákvæði í gildandi lögum sem hafa heimilað sérstök lán til endurbóta á eigin húsnæði öryrkja. Til þeirra lána var stofnað árið 1972 og hafa gilt um þau sambærilegar reglur og um lán til kaupa á eldra húsnæði. Um þau lán hefur þó skort ákvæði í reglugerð. Ég held að þetta sé þarft mál og gott.

Sjöundi útlánaflokkurinn eru lán til orkusparandi breytinga á húsnæði. Eru þau nýmæli hér á landi, en hafa hins vegar tíðkast um nokkurt skeið á hinum Norðurlöndunum. Þessi lán ættu að geta orðið mikilsvert framlag að því marki að koma við jöfnun á upphitunarkostnaði íbúðarhúsnæðis, sem er nauðsynja- og réttlætismál. Ætla verður að framan af færu þessi lán einkum til að bæta einangrun húsa utan hitaveitusvæða. Má í því sambandi tilfæra þær niðurstöður úr áliti orkusparnaðarnefndar, sem starfaði á vegum iðnrn. s.l. haust, að kostnaður við að einangra 120 m2 þak með 20 sm glerull sé um 700 þús. kr., en beinn olíusparnaður af slíkri breytingu geti á ári munið um 350 þús. kr. miðað við núv. olíuverð. Áætlar nefndin að a.m.k. 2000 þök séu nú óeinangruð í húsum á olíukyntum svæðum. Gert er ráð fyrir að árlega verði varið ákveðinni fjárhæð til þessara lána á fjárlögum. Er þar vissulega til mikils að vinna, ef 1400 millj. kr. fjárfesting gæti skilað þjóðarbúinu aftur árlega um 700 millj. kr. í hreinum gjaldeyrissparnaði. Ég held að útlánareglurnar, sem eru í 25. og 26. gr. frv., skýri sig að mestu sjálfar, svo og ákvæði 11. gr. reglugerðardraganna.

Áttundi lánaflokkurinn fjallar um lán til tækninýjunga í byggingariðnaði. Svo sjálfsagt sem það nú er að styrkja öfluglega rannsóknir á og tilraunir með tækninýjungar, sem leitt geta til lækkunar á byggingarkostnaði, hafa aldrei verið í lögum um Húsnæðismálastofnun heimildir til að veita lán til þeirra mála. Hins vegar hefur það frá byrjun verið talið til verkefna Húsnæðismálastofnunar að gangast fyrir tæknirannsóknum og kynningu nýjunga í byggingariðnaði, og á grundvelli svo hæpinna heimilda hefur stofnunin stundum veitt lán eða styrki í þessu skyni. Ákvæðin um þessi lán eru af skiljanlegum ástæðum höfð mjög rúm og lagt í vald stjórnar stofnunarinnar að ákveða lánsfjárhæð og lánstíma hverju sinni. Framkvæmd þessara lánveitinga er ítarlega skýrð í 15. gr. reglugerðardraganna.

Níundi og síðasti útlánaflokkurinn eru svo lán til framkvæmdaaðila í byggingariðnaði. Ég hef áður vikið að því, hvernig ætlað er að tilhögun þeirra lána verði. Ég vil aðeins ítreka það, að eðlilegast er að lánastofnanir sjái fyrirtækjum í byggingariðnaði fyrir rekstrarfé, eins og almennt gerist í öðrum atvinnugreinum, þó hitt sé til bóta og sjálfsagt að almenna veðlánakerfið greiði fyrir því að slík fyrirgreiðsla fáist með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í frv.

Ég hef áður gert ítarlega grein fyrir útlánareglum sjóðsins, sem eru settar í einu lagi fyrir alla lánaflokka í 30. gr., svo og þeim fjárstreymisathugunum sem þar er byggt á. Ákvæði 32. gr. hef ég einnig skýrt ítarlega áður. Læt ég því að sinni lokið umfjöllun um II. kafla frv.

Vík ég þá næst að III. kafla þess, sem fjallar um Byggingarsjóð verkamanna og félagslegar íbúðabyggingar. Mun ég fara þar mun fljótar yfir sögu, því að ákvæði hans eru flest ítarleg og skýr og ekki um slíkar grundvallarbreytingar að ræða þar sem í almennum veðlánum. Bygging íbúða á félagslegum grundvelli á sér alllangan aldur hér á landi. Að baki slíkum framkvæmdum býr það sjónarmið, sem hlotið hefur almenna viðurkenningu, að það sé þjóðfélagsleg nauðsyn og sjálfsagt réttlætismál, að samfélagið veiti þeim þegnum sínum, sem lakasta aðstöðu hafa, aðstoð til að eignast eða fá til afnota húsnæði sem standist lágmarkskröfur um stærð, búnað og hollustuhætti. Það er því mjög að vonum, að verkalýðssamtökin hafa látið húsnæðismál meira til sín taka en nokkurn annan þátt þjóðmála, ef bein kaup- og kjaraatriði eru ein undanskilin. Framan af voru það einkum hinir pólitísku fulltrúar verkalýðsflokkanna sem sóttu þessi mál á Alþ., en í seinni tíð hafa þau dregist sífellt meir og meir inn í gerð almennra kjarasamninga í landinu.

Löggjöf um byggingu verkamannabústaða hér á landi átti hálfrar aldar afmæli á síðasta ári. Saga þeirra er vissulega heillandi og fróðleg. Hún er saga baráttu fyrir umbótum í húsnæðismálum, en jafnframt er hún í hnotskurn saga þess ótrúlega árangurs sem þjóðin öll hefur náð í sókn sinni til betra mannlífs og bættra lífskjara á örfáum síðustu áratugum. Hér er hvorki staður né stund til að rekja hana, en helstu tímamóta vil ég þó geta.

Fyrstu lög um verkamannabústaði voru afgreidd frá Alþ. 18. maí 1929. Fróðlegt er að sjá að á þessum tíma voru enn á landinu fleiri torfbæir en steinsteypuhús, eða 3665 á móti 3294 steinsteypuhúsum. Timburhús voru þó flest eða 6595. Strax á næsta ári eftir setningu verkamannabústaðalaganna voru stofnuð byggingarfélög verkamanna á Akureyri, Siglufirði, Patreksfirði, Flateyri og í Reykjavík. Fyrst var hafist handa um byggingarframkvæmdir á Akureyri og í Reykjavík. Samkv. þessum lögum voru stofnaðir byggingarsjóðir verkamanna í öllum þeim byggðarlögum, þar sem byggingarfélög verkamanna voru stofnuð. Höfðu þeir eigin stjórnir og fengu tekjur frá ríki og sveitarfélögum. Eftirtektarvert er, að samkv. lögunum skyldu byggingarsjóðirnir veita lán sem næmu allt að 85% af byggingarkostnaði hverrar íbúðar. Var það gert í reynd í fyrsta byggingarflokki í Reykjavík, en eftir það námu lánin hæst 80% af byggingarkostnaði. Árið 1935 var sú breyting gerð, að stofnaður var einn heildarsjóður, Byggingarsjóður verkamanna, og til hans lagðir byggingarsjóðir verkamanna í hinum einstöku byggðarlögum sem jafnframt hættu störfum sem slíkir. Í maí 1939 voru gefin út brbl. og ákveðið að stjórn hvers byggingarfélags verkamanna skyldi skipuð fimm mönnum, þar sem formaður er skipaður af ráðh., og aðeins eitt byggingarfélag verkamanna í hverju byggðarlagi gæti notið lána úr Byggingarsjóði verkamanna. Varð það til þess, að Byggingarfélag alþýðu í Reykjavík hætti framkvæmdum við byggingu verkamannabústaða, en í þess stað var stofnað Byggingarfélag verkamanna í Reykjavík sem hafði þær framkvæmdir með höndum allt þar til núgildandi lög voru sett í maí 1970. Á grundvelli þessarar lagasetningar voru byggðar samtals 1748 íbúðir víðs vegar í landinu. Er gildi þeirra byggingarframkvæmda ómetanlegt.

Þegar kom fram á sjöunda áratuginn varð ljóst, að verkaefni Byggingarsjóðs verkamanna voru orðin honum ofvaxin. Fékk hann ekki einn við ráðið að veita hin háu lán til íbúðabygginga á vegum verkamannabústaðakerfisins. Af því leiddi að framkvæmdir gengu hægt og sífellt dró úr verkamannabústaðabyggingum. Hefur þetta ástand vafalaust átt sinn þátt í þeirri breytingu sem varð á þróun mála með júní- og júlíyfirlýsingunum 1964 og 1965. Með þeim er brotið blað í sögu íbúðabygginga fyrir launafólk, auk þess sem þær höfðu mjög mikla þýðingu fyrir þróun fjármögnunar og lánamála hins atmenna lánakerfis á þessum árum og síðar. Skal nú að þeim vikið.

Fyrri hluta árs 1964 fóru fram umfangsmiklar viðræður um kjaramál innan Alþýðusambands Íslands, Vinnuveitendasambands Íslands og þáv. ríkisstj. Í þeim var af hálfu ASÍ lögð mikil áhersla á úrbætur í húsnæðismálum. Lauk þeim með samkomulagi þessara aðila í fjórum liðum og fjallaði einn þeirra um húsnæðismál. Samkv. honum skuldbatt ríkisstj. sig til að afla stóraukins fjár til aukningar á lánveitingum Húsnæðismálastofnunar til íbúðabygginga, sem dregist höfðu mjög á langinn. Ákveðið var að koma á kerfisbreytingu íbúðalána frá og með 1965 á þann veg, að tryggt væri fjármagn til að veita lán til ákveðins fjölda íbúða á ári. Skyldi við það miðað, að tryggð væri bygging 1500 íbúða á ári, en síðan færi talan smáhækkandi í samræmi við áætlanir um þörf fyrir nýjar íbúðir. Þá var jafnframt ákveðið, að Húsnæðismálastofnun skyldi veita efnalitlum félagsmönnum verkalýðsfélaganna sérstök aukalán. Í samkomulagi þessu var bundið fastmælum, að ríkisstj. beitti sér fyrir öflun lánsfjár til byggingar verkamannabústaða. Forsendur fyrir því, að þetta gæti gerst, voru m.a. þær, að lagður var á launagreiðendur almennur t% launaskattur, er rann til Byggingarsjóðs ríkisins, og að ríkisframlag til Atvinnuleysistryggingasjóðs gengi árlega til kaupa á íbúðalánabréfum hins almenna veðlánakerfis. Komið skyldi á nýju kerfi íbúðalána fyrir lífeyrissjóði til samræmis við þær reglur sem gilda um lán húsnæðismálastjórnar, eins og það var orðað.

Óhætt er að fullyrða að útbætur þær, sem fengust með samkomulagi þessu, voru mjög mikilvægar. Þó var nú skammt stórra högga á milli. Vorið 1965 voru kjaramál enn til meðferðar. Verkalýðssamtökin lögðu þá aftur mikla áherslu á úrbætur í húsnæðismálum. Lögðu þau fram tillögur í húsnæðismálum, um lagfæringu á lánakjörum Húsnæðismálastofnunar ríkisins, skipulegt átak í byggingarmálum með fjöldaframleiðslu hagkvæmra íbúða fyrir láglaunafólk árin 1966–1970 og endurskoðun laga um verkamannabústaði og útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis. Leiddu viðræður um tillögurnar til þess, að í júlíbyrjun 1965 gaf ríkisstj. út yfirlýsingu sem nefnd hefur verið júlíyfirlýsingin 1965. Í fyrsta lagi var ákveðið að hækka fjárhæðir byggingarlána hjá Húsnæðismálastofnun ríkisins, og náði sú ákvörðun yfir tímabilið 1964–1970. Í öðru lagi var ákveðið, að ríkisstj. og Reykjavíkurborg skyldu í samvinnu við verkalýðssamtökin hefjast handa um byggingu hagkvæmra og ódýrra íbúða í fjölbýlishúsum. Stefnt var að því að nota fjöldaframleiðsluaðferðir og að byggðar væru ekki færri en 250 íbúðir á ári frá og með árinu 1966 og fram til ársins 1970. Af þessum 250 íbúðum voru 200 ætlaðar til sölu til láglaunafólks í verkalýðsfélögunum, en 50 skyldi ráðstafað af Reykjavíkurborg, m.a. til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis. Íbúðirnar voru seldar með áhvílandi láni frá Byggingarsjóði ríkisins, er nam 80% af byggingarkostnaði þeirra, til 33 ára. Yfirumsjón með framkvæmdum þessum var í höndum nefndar, sem kölluð var Framkvæmdanefnd byggingaráætlunar.

Loks fjallar yfirlýsingin um það, að unnið skyldi að því af hálfu ríkis og sveitarfélaga að tryggja láglaunafólki húsnæði sem ekki kosti það meira en hóflegan hluta árstekna. Í þessu skyni var hafin endurskoðun laga um verkamannabústaði og gildandi lagaákvæða um opinbera aðstoð til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis. Meginmarkmið þeirrar endurskoðunar var endurreisn verkamannabústaðakerfisins, og verður ekki annað sagt en hún hafi náðst með setningu hinna nýju laga í maí 1970. Með þeim lögum, sem gilda enn, voru ýmsar breytingar gerðar. Í fyrsta lagi voru nú verkamannabústaðalögin felld inn í hina almennu húsnæðismálalöggjöf, en höfðu áður verið sérstök lög. Í öðru lagi var ákveðið að Byggingarsjóður ríkisins skyldi veita venjuleg byggingarlán til allra íbúða í verkamannabústöðum, hafði ekki verið svo áður. Jafnframt skyldi Byggingarsjóður verkamanna veita til viðbótar lán út á hverja íbúð, þannig að samtals næmu lán beggja sjóðanna 80% af byggingarkostnaði hverrar íbúðar. Þá var einnig ákveðið að leggja niður starfsemi byggingarfélaga verkamanna sem framkvæmdaaðila, en í stað þeirra myndaðar framkvæmdanefndir sem bera heitið stjórnir verkamannabústaða. Hafa þær síðan haft með höndum alla stjórn á framkvæmdum við byggingu verkamannabústaða hver í sínu byggðarlagi.

Hallað hefur undan fæti fyrir verkamannabústaðakerfinu frá því að lögin um byggingu 1000 leiguíbúða á vegum sveitarfélaga voru sett í apríl 1973. Samkv. þeim voru veitt lán úr Byggingarsjóði ríkisins sem nema 80% byggingarkostnaðar við gerð hverrar þessara íbúða. Þetta fyrirkomulag hefur leitt til þess, að áhugi bæjar- og sveitarstjórna hefur víðast beinst að byggingu leiguíbúða. Samkv. verkamannabústaðalögunum ber bæjar- og sveitarstjórnum að leggja fram umtalsvert fjármagn í Byggingarsjóð verkamanna óski þær eftir byggingu verkamannabústaða. Þetta hefur leitt til þess, að flestar sveitarstjórnir hafa kippt að sér höndinni um slíkar byggingarframkvæmdir á síðustu árum.

Er þá komið að þeim þætti sem nefna mætti undanfara III. kafla þessa frv., en það er yfirlýsing þáv. ríkisstj. um húsnæðismál frá 26. febr. 1974. Er sú saga rakin og skýrð í aths. með frv. og verður því ekki endurtekin hér.

Þó allur texti verkamannabústaðalaganna sé endursaminn í þessu frv. og skipan hans með ýmsum hætti breytt, má segja að í megindráttum sé þó byggt á sömu grundvallarhugmyndum og í gildandi lögum. Sérstakur veðlánasjóður, Byggingarsjóður verkamanna, sem lýtur stjórn húsnæðismálastjórnar, fjármagnar framkvæmdirnar. Aðilar eru áfram hinir sömu: ríki, sveitarfélög og stéttarfélög, þótt hlutur hinna síðast töldu sé aukinn til muna. Sömu reglur eða áþekkar eru um framkvæmdaganginn, réttindi og skuldbindingar íbúðakaupenda, og markmiðið er að sjálfsögðu enn hið sama. En þótt meginstefnan sé þannig óbreytt er þó fjölmörgu vikið til, ekki síst þegar nálgast það markmið endurskoðunarinnar að efna fyrirheit sem stjórnvöld hafa ítrekað gefið samtökum launafólks um aðgerðir og úrbætur í þessum málum.

Ég gerði í upphafi framsögu minnar ítarlega grein fyrir fjárstreymi innan veðlánakerfisins alls og ræði það því ekki nánar hér. Þó verð ég að árétta mikilvægi þeirrar samstöðu og samvinnu stjórnvalda og samtaka launafólks um framkvæmd frv. sem fjárhagsákvæði þessa kafla byggjast á. Öflug aðild þeirra lífeyrissjóða, sem launþegasamtökin hafa komið sér upp, er beinlínis forsenda þess, að markmiðum frv. verði náð.

Vík ég þá að einstökum ákvæðum frv. Í 33. gr. er það skilgreint hvað séu félagslegar íbúðabyggingar. Þar er nýmæli að ætla leiguíbúðum svo mikinn hlut í lausn á húsnæðismálum láglaunafólks og annarra þeirra sem þarfnast af félagslegum ástæðum sérstakrar fyrirgreiðslu og aðstoðar af opinberri hálfu. Verkamannabústaðir hafa ætíð verið byggðir sem eignaríbúðir, skilyrtar að vísu. Þeim framkvæmdum, sem nú eru í gangi um byggingu 1000 leigu- og söluíbúða á vegum sveitarfélaga samkv. lögum nr. 58 frá 1973, er ekki markaður slíkur félagslegur tilgangur.

Á fjáröflun til Byggingarsjóðsins eru gerðar fjórar breytingar sem skýrðar eru í aths. við 34. gr. Heldur er dregið úr kostnaðaraðild sveitarfélaganna, enda gefur fjárhagsafkoma þeirra flestra tilefni til slíks. Þá er það nýmæli, svo undarlegt sem það má nú virðast, að kveða skýrt á um ráðstöfun eiginfjármyndunar sjóðsins. Í gildandi lögum eru engin slík ákvæði og hafa afborganir og vextir af eigin fé hans því safnast upp á sérstökum reikningi í Seðlabanka Íslands, og nema þær nú líklega um eða yfir 700 millj. kr. Í 34. gr. er svo lögfest það meginatriði yfirlýsinga fyrrv, ríkisstj. frá 1974 og 1976, að miða skuli fjáröflun til Byggingarsjóðsins við það, að hann geti fjármagnað a.m.k. 1/3 hluta af árlegri íbúðarþörf landsmanna.

Um áhrif þess, hvernig framkvæmdir og lánveitingar skiptast á almenna og félagslega veðmálakerfið, vísa ég til þeirrar töflu, sem er á bls. 35 í frv., svo og þeirra ályktana sem raktar eru og skýrðar á bls. 36.

Samkv. 36. gr. skal Byggingarsjóður verkamanna starfa innan Húsnæðismálastofnunar ríkisins og lúta stjórn húsnæðismálastjórnar, eins og er samkv. gildandi lögum. Sú tilhögun gilti raunar einnig fyrir 1970, á meðan sjóðurinn hafði sérstaka stjórn, að hún var kosin af Alþingi. Þó skipaði ráðh. einn stjórnarmann samkv. lögum nr. 3 frá 1935 og þar til brbl. voru sett í maí 1939. Á árabilinu 1929–1935, meðan sérstakir sjóðir störfuðu í hverju byggðarlagi, var skipan stjórnanna hins vegar með öðrum hætti. Til álita hefur komið og mikið verið um það rætt við undirbúning þessa frv., að samtökum launafólks væri tryggð bein aðild að sjóðsstjórninni, einkum þó fulltrúum Alþýðusambands Íslands. Að mínum dómi standa til þess ýmis rök, bæði sögulegs eðlis, en ekki þó síður hin veigamikla aðild þessara samtaka og lífeyrissjóða þeirra að fjármögnun veðlánakerfisins og framkvæmdum innan þess. Hins vegar náðist ekki samstaða um þessa breytingu í þeirri nefnd sem vann að undirbúningi sameiginlegrar stefnumótunar fyrrv. ríkisstj. í húsnæðislánamálum, og sá ágreiningur var ekki heldur leystur í ríkisstj. Fyrir breytingunni er því sennilega ekki meirihlutavilji hér á Alþ. og hef ég því kosið að leggja frv. fram með þeirri skipan sem lýst er í 36. gr., og ber að líta á það sem málamiðlun.

Í samræmi við þau markmið um framkvæmdamagn innan félagslega íbúðabyggingakerfisins, sem áður er lýst, eru í 37. og 38. gr. mun ákveðnari fyrirmæli um skipan framkvæmdastjórna og hlutverk þeirra en áður hefur verið í lögum um verkamannabústaði. Skylt er að skipa framkvæmdastjórnir í öllum kaupstöðum og kauptúnahreppum, og á þeim stjórnum hvílir afdráttarlaus frumkvæðisskylda í húsnæðismálum.

Samkv. 41. gr. eru stærðarmörk íbúða í verkamannabústöðum rýmkuð nokkuð, eða úr 100 í 110 m2 samkv. mælingarreglum húsnæðismálastjórnar.

Ítarleg fyrirmæli um undirbúning framkvæmda og tilhögun þeirra eru í 40.–44. gr.

Í 45. gr. eru svo veigamikil ákvæði um það, hvaða skilyrði menn þurfi að uppfylla til að eiga rétt á íbúðum í verkamannabústöðum, eins og nú háttar með ákvörðun viðmiðunartekna eftir 14. gr. reglugerðar nr. 272 frá 1970. Samkv. reglugerðinni er hámarksfjárhæð meðalárstekna þrjú síðustu árin áður en íbúð er keypt 220 þús. kr. fyrir hjón og 20 þús. kr. fyrir barn. Þessar tölur eru miðaðar við árin 1967, 1968 og 1969 og þær á að reikna fram með vísitölu samkv. 5. mgr. 5. gr laga nr. 30 frá 1970. Á árinu 1979 eru þessar fjárhæðir 1 millj. 783 þús. kr. fyrir hjón og 163 þús. kr. fyrir hvert barn. Framreikningur viðmiðunartekna hefur undanfarin ár nánast fylgt vísitölu Dagsbrúnarkaups, án þess þó að áhrif vinnutímastyttingar og ýmissa annarra sérstakra þátta á taxta og tekjur hafi verið meðtalin. Vísitala viðmiðunartekna hefur af þessum ástæðum hækkað tæplega fimmtungi minna en kauptaxtar Dagsbrúnar. Jafnframt hafa tekjur vaxið töluvert örar en taxtar á þessu árabili.

Ein möguleg viðmiðun fyrir ákvörðun nýrra fjárhæða nú er að færa fjárhæðirnar í reglugerðinni upp með tekjum til að leiðrétta þá skekkju sem mismunandi breytingar tekna og taxta hafa valdið. Niðurstöður slíkra reikninga ern fjárhæðirnar 2 millj. 321 þús. kr. fyrir hjón og 211 þús. kr. fyrir hvert barn, og er þá miðað við breytingar á atvinnutekjum kvæntra verkamanna — tekjur eiginkonu og barna eru þá ekki meðtaldar — frá meðaltali áranna 1967–1969 til meðaltals áranna 1976–1978. Sé um hjón með tvö börn að ræða verður heildarfjárhæðin 2 millj. 743 þús. kr. Er það 10% hærri tala en meðalatvinnutekjur kvæntra verkamanna árin 1976–1978, en það hlutfall er hið sama og var í upphafi. Þessar fjárhæðir má einnig bera saman við tölur um meðaltekjur og tekjudreifingu á árinu 1977, sem sýna heildarfjölskyldutekjur kvæntra karla á kauplagi ársins 1977, og miðað við að meðalbarnafjöldi á framteljanda sé um það bil 1.5 yrði talan 2 millj. 430 þús. kr. Það er um 18–21% lægri fjárhæð en meðalbrúttótekjur ófaglærðra samkv. athugun Hagstofu Íslands og Þjóðhagsstofnunar á tekjum ársins 1977. Samkv. tekjudreifingartölum þess árs má ætla, að tæplega 30% ófaglærðra kvæntra karla sé neðan þessara tekjumarka og tæpur fjórðungur allra kvæntra karla.

Þessi aðferð nær ekki því marki sem að er stefnt í frv., að Byggingarsjóður verkamanna eigi að fjármagna þriðjunginn af íbúðaþörf landsmanna. Með hliðsjón af tekjudreifingartölum ársins 1977 má ætlast á um, hvaða tekjur tryggðu að þriðjungur allra kvæntra karla ætti kost á láni úr sjóðnum. Sú tala er á bilinu 2.5–3 millj. kr. á árinu 1977, sennilega um 2 millj. 750 þús. kr. Samkv. tekjudreifingartölunum má ætla að 40% allra ófaglærðra séu undir þessu marki árið 1977 og um þriðjungur allra ófaglærðra og iðnaðarmanna, ef saman eru taldir. Sé þessi tala færð til meðaltals áranna 1976–1978 yrði fjárhæðin 2 millj. 970 þús. kr. Meðalbarnafjöldi á framteljanda er um 1.5, þannig að væri miðað við fjárhæðir á hjón og barn og gildandi hlutföll, ættu fjárhæðirnar e.t.v. að vera 2.6 millj, kr. fyrir hjón og 230 þús. kr. fyrir barn. Er þessi kostur valinn í frv.

Í 45. gr. eru auk þess reistar skorður við því, að þeir, sem hærri tekjur hafa, öðlist rétt til íbúða vegna þess eins að þeir hafa ekki stundað vinnu eitt eða fleiri af viðmiðunarárunum. Hefur skort tilfinnanlega ákvæði um þetta í gildandi lögum.

Ég vík þá næst að útlánakjörunum, en um þau er fjallað í 50. gr. Mjög hefur verið um það rætt að setja í lögin fastar reglur sem tryggðu að árleg greiðslubyrði af lánunum væri aldrei umfram ákveðið hlutfall af dagvinnutekjum verkafólks. Nefnd sú, sem fyrrv. félmrh. skipaði 14. sept. 1977 til að endurskoða lögin um byggingu verkamannabústaða, gerði till. um að miða endurgreiðsluhámarkið við 20% af ársmeðaltali dagvinnutekna samkv. almennum töxtum verkamanna, iðnverkafólks, verslunar- og skrifstofufólks hinn 1. jan. það ár sem endurgreiðslan fer fram. Þar var einnig lagt til að aðild að félagslega lánakerfinu væri bundin við þá sem hafa dagvinnutekjur sem eru innan við 30% umfram þessar meðaltekjur viðmiðunarhópanna. Þó að hliðstæðar reglur sé að finna í löggjöf um félagsleg íbúðarlán á Norðurlöndum, varð þó niðurstaðan sú, að hér á landi væri slík viðmiðun ýmsum vandkvæðum bundin. Kemur þar margt til. Það er t.d. óljóst, hve stór hluti þjóðarinnar fellur innan þessara marka og hvernig hann skiptist milli einstakra hópa launafólks. Slíkir útreikningar eru sennilega óframkvæmanlegir, vegna þess að hvergi er í launastatistik greint á milli dagvinnutekna og annarra tekna. Þá er það engan veginn einsýnt, hvað telja skuli yfirvinnutekjur, hvort til þeirra skuli t.d. telja ýmsar álagsgreiðslur, uppmælingagreiðslur, bónusgreiðslur, staðar- eða fjarlægðaruppbætur o.s.frv. Viðmiðun við dagvinnutekjur útilokar sjálfkrafa ýmsa starfshópa sem geta átt allan sama rétt til aðildar og hinir sem taka laun eftir föstum töxtum. Þar má nefna alla sjómenn, sem hafa kauptryggingu og afláhlut, vaktavinnufólk, þá sem hafa tekjur af atvinnustarfsemi, skáld og listamenn o.s.frv. Laun eru nú orðið greidd á svo mörgum sviðum samkv. annarri viðmiðun en töxtum dagvinnu, eftirvinnu og næturvinnu að slík viðmiðun dugar ekki lengur.

Loks er það með öllu óljóst, hver áhrif ýmsum öðrum tekjum væri ætlað að hafa, svo sem makatekjum, arði, leigutekjum og þess háttar. Fleiri vandkvæði eru tengd slíkri viðmiðun, en ég rek það þó ekki frekar. Þó vil ég að lokum minna á þá reynslu sem fengist hefur af viðmiðun við vísitölu kauptaxta í gildandi lögum. Þessar viðmiðunartekjur höfðu, eins og áður segir, hækkað um 20% minna um s.l. áramót en raunverulegt kaup samkv. Dagsbrúnartöxtum. Það, sem hér skiptir meginmáli, er auðvitað að útlánakjörin séu ákveðin þannig og fram á það sýnt með öruggum útreikningum, að þau ofbjóði ekki greiðslugetu þess fólks sem lánin eiga að þjóna. Þetta er ítarlega skýrt í útreikningum í Töflu 6 á bls. 29 í frv. Sést þar að árleg greiðslubyrði þessara lána er aðeins 12.16%, af meðaltalslaunum kvæntra verkamanna. Er þá miðað við lán til byggingar miðlungsstórrar íbúðar og raunverulegar fjölskyldutekjur, en ekki taxtakaup, en beinir skattar hafa áður verið dregnir frá þessum tekjum. Svarar þetta til 36 þús. kr. meðalhúsaleigu á mánuði á árinu 1978.

Ég fer nú að ljúka umfjöllun minni um III. kafla frv. 54.–62. gr. fjalla um byggingu og ráðstöfun þeirra leiguíbúða sem sveitarfélög kjósa að byggja innan félagslega íbúðalánakerfisins. Ég held að þessi ákvæði þarfnist ekki sérstakrar skýringar umfram það sem er að finna í aths. með frv. og fylgigögnum þess. Þó vil ég vekja athygli á því, að samkv. 25. gr. reglugerðardraganna á fskj. III er til þess ætlast, að einn þeirra hópa, sem njóta forleiguréttar að þessum íbúðum, sé ungt fólk fyrstu hjúskaparárin. Mun það rúm og nýstárleg skýring félagslegra aðstæðna.

Ég ítreka að lokum það sem ég áður sagði um efni þessa kafla, en hann miðar að efndum þeirra fyrirheita, sem áður hafa verið gefin af tveimur fyrrv. ríkisstj., og svarar í meginatriðum til þeirra tillagna sem voru einróma samþykktar á kjaramálaráðstefnu ASÍ í ársbyrjun 1977.

Í IV. kafla frv. eru ákvæði um kaupskyldu og forkaupsrétt sveitarfélaga að þeim íbúðum sem byggðar kunna að verða á félagslegum grunni samkv. frv. þessu. Er með þeim reynt að tryggja að íbúðirnar haldi áfram að þjóna því fétagslega hlutverki sem þeim var markað í upphafi, þótt eigendaskipti verði að þeim síðar. Ákvæði hafa lengst af verið í lögum um forkaupsrétt sveitarfélaga að íbúðum í verkamannabústöðum. Hafa þau notast misjafnlega. Skylda til að beita þessum heimildum er hins vegar nýmæli, en framkvæmanlegt þar sem sveitarstjórnum er jafnframt tryggt nauðsynlegt fjármagn.

Í V. kafla er fjallað um verkefni tæknideildar Húsnæðismálastofnunar, en áður var frá því greint hvernig henni er ætlað að starfa rekstrarlega. Í raun er hér ekki um að ræða stórfelldar breytingar á verkefnum deildarinnar frá því sem nú er. Afmörkun þeirra er þó mun gleggri og ákvæðin um skiptingu hennar í tækni- og þjónustuskor eru nýmæli. Rök til þeirrar tilhögunar eru rakin og skýrð í aths. með frv.

Loks er í VI. kafla fjallað um skyldusparnað ungs fólks til íbúðabyggingar. Veigamesta nýmælið þar eru þær reglur sem lúta að ávöxtun skyldusparnaðarins. Gildandi reglur eru samdar við allt aðrar verðlagsforsendur en við nú búum við og eru fjarri því að skila eigendum þessa fjár sanngjarnri ávöxtun þess. Er því brýnt að úr því sé bætt. Þá eru og í kaflanum opnaðar heimildir til breytinga á innheimtukerfi skyldusparnaðarins sem nú er í senn bæði seinvirkt og flókið.

Ekki er þörf sérstakrar umfjöllunar um ýmis ákvæði í VII. kafla eða ákvæði til bráðabirgða. Þó vek ég athygli á því bráðabirgðaákvæði, sem er tölusett nr. 2, en þar er húsnæðismálastjórn falið að hlutast til um það í samráði við veðdeild Landsbanka Íslands, að þeim aðilum, sem fengið hafa lán með hlutfallslegri verðtryggingu á árunum 1974–1978, verði gefinn kostur á skuldabréfaskiptum. Er það bæði til þess hugsað, að fyrri lántakendur geti notið góðs af þeirri jöfnun greiðslubyrðarinnar sem leiðir af hinum nýju lánareglum, en einnig að létt verði lánskjör þeirra, sem greiða 9.75% ársvexti auk 60% verðtryggingar, en þessi kjör jafngilda, eins og áður segir, frá ríflega 5% til um það bil 7% raunvaxta og hljóta því að reynast hinum almenna húsbyggjanda um of þungbær.

Herra forseti. Ég fer nú að ljúka máli mínu. Þessi framsaga mín hefur orðið nokkuð löng, enda eru slíkar breytingar á húsnæðislöggjöf okkar sem felast í þessu frv. ákaflega mikilvægt mál og vandmeðfarið. Ég hef sleppt ýmsu í ræðu minni, sem æskilegt hefði verið að fjalla nánar um, og farið lauslegar yfir annað, en efni kunna að standa til. Úr því verður þó væntanlega unnt að bæta við síðari umr. hér í þessari hv. deild.

Ég legg til að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og félmn. þessarar hv. deildar.