22.05.1980
Sameinað þing: 66. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3074 í B-deild Alþingistíðinda. (3033)

15. mál, málefni hreyfihamlaðra

Frsm. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Allshn. fékk til meðferðar till. til þál. um málefni hreyfihamlaðra og skilar nál. á þskj. 443, svo hljóðandi:

N. hefur athugað till. á fundum sínum, aflað umsagna frá Húsameistara ríkisins og Ferlinefnd fatlaðra, og leggur n. til að till. verði samþ. með eftirfarandi breytingu:

Tillgr. orðist svo:

Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta gera úttekt á nauðsynlegum endurbótum á opinberu húsnæði til að auðvelda hreyfihömluðum aðgang og verði gerð kostnaðaráætlun um þau verkefni sem brýnust þykja. Skal í þessum efnum haft samráð við Ferlinefnd fatlaðra. Úttektin skal lögð fyrir Alþingi.“

Við breyttum niðurlagi till. lítillega í því skyni að taka af öll tvímæli um að þetta mál kæmi til kasta Alþingis. Undir þetta skrifuðu nm. Páll Pétursson, Jóhanna Sigurðardóttir, Salome Þorkelsdóttir, Steinþór Gestsson, Halldór Blöndal og Guðmundur G. Þórarinsson.

Ég vil taka það fram, að í umsögn, sem barst um þetta mál frá Ferlinefnd fatlaðra, taldi hún ástæðu til að í skrár Fasteignamats ríkisins væri sett táknmál sem veitti upplýsingar um aðgang fatlaðra að húsnæði.

Nú liggur fyrir, sé ég, brtt. við þessa till., viðbótartill. við okkar brtt., frá hv. þm. Stefáni Jónssyni og Helga Seljan, en ég sé ekki að það sé ástæða til að samþykkja hana á þessu stigi þar sem þessi athugun hefur ekki enn verið gerð.