22.05.1980
Sameinað þing: 66. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3075 í B-deild Alþingistíðinda. (3035)

15. mál, málefni hreyfihamlaðra

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Lengur má það ógjarnan dragast úr hömlu að þakka hv. flm. fyrir flutning þessarar þáltill. og þá umhyggju sem hann hefur gjarnan sýnt hér í þingsölunum málefnum fatlaðra. Till. þessi er til mikillar fremdar og það er ekki með annað í huga sem ég flyt við hana brtt., heldur vegna þess að ég hef einmitt fengið hliðstæða reynslu við könnun á þessu máli og hv. flm., komist að þeirri niðurstöðu að hvert tilefnið á fætur öðru, hver átyllan annarri raunverulega verri, er til þess fundin að draga úr hömlu að hefjast handa um framkvæmdir í þessum málum.

Nú lá fyrir umsögn í n. um þáltill., sem hv. þm. Alexander Stefánsson gerði hér grein fyrir, á þá lund, að það mundi taka tvö ár að gera heildarúttekt, jafnvel lengri tíma, en það þarf ekki að bíða eftir því með að hefjast handa. Í vissum tilfellum væri hægt að gera það strax. Það hefði verið hægt að gera það nú í vor. Ýmis af þessum verkefnum liggja fyrir og það er alveg ljóst mál hvernig að þeim á að standa. En hitt er rétt, að það verður að sjá fyrir fjármagni. Því er það að ég flyt á þskj. 454 brtt. á þá lund að Alþ. feli ríkisstj. að leggja fram á næsta þingi frv. til l. um fastan tekjustofn í því skyni að tryggja nægilegt fjármagn til framkvæmda, þannig að á næsta ári verði hægt að hefjast handa um breytingar á húsnæði og þáltill. sú, sem hv. alþm. Alexander Stefánsson er flm. að, komi til framkvæmda.

Ég er þeirrar skoðunar, að við eigum að láta hæstv. ríkisstj. um að merkja tekjustofninn til þess arna. Sjálfur hef ég verið með ýmsar hugmyndir þar að lútandi og ég veit að samtök öryrkja hafa látið sér koma ýmislegt til hugar. Meðal hugmynda, sem ég hef fengið í þessu sambandi, er að ætla til þess ákveðinn hundraðshluta sem tekinn yrði af sölu fasteigna, bætt við stimpilgjald eða þinglýsingargjald og látið koma í einn sjóð til þeirra hluta. Aftur á móti liggur ekki fyrir nein könnun á því, í fyrsta lagi hve hár sá hundraðshluti þyrfti að verða til þess að fá fé til framkvæmdanna, þar sem úttektin, sem ráðgerð er í þessari þáltill., hefur ekki farið fram, né heldur hvað við þurfum mikið í heild til þess arna.

En ég ítreka að mér finnst gersamlega ástæðulaust að láta það bíða í tvö ár eða lengur, á meðan verið er að gera heildarúttektina, að hefjast handa um framkvæmdir við einstakar byggingar. Ég vil því að þetta mál verði sett yfir á hendur ríkisstj. á skuldbindandi hátt af Alþ. nú þegar.