22.05.1980
Sameinað þing: 66. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3076 í B-deild Alþingistíðinda. (3037)

15. mál, málefni hreyfihamlaðra

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Jafnan skal það vera svo þegar hreyft er þörfum málum vegna fatlaðra eða öryrkja og ýmissa annarra þeirra sem miður mega sín í samfélaginu, að hv. 10. landsk. þm., Jóhanna Sigurðardóttir, þurfi að nota tækifærið til árása á hæstv. ríkisstj. Það kemur ekki fyrir að mál af þessu tagi séu nefnd hér á hv. Alþ. svo mikið sem í aukasetningum öðruvísi en hún þurfi með dylgjum og pólitískum svívirðingum að ráðast gegn ríkisstj. í tengslum við þessi mál. Hélt ég þó að hún hefði þær skyldur í þessum efnum að það væri henni skyldara að leita samstarfs og samhugar um framfarasókn í þessum efnum en efna til sundrungar.

Eins og hv. þm. er kunnugt er á þessu ári gert ráð fyrir að allmiklu meiri fjármunum sé varið til þessara efna en áður hefur verið. Í þeim efnum hafa margir góðir menn lagt góðum málum lið og náð árangri. Samt sem áður er haldið áfram að hamra á því aftur og aftur í ræðu eftir ræðu, einkum af hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, að einkum og sér í lagi sú ríkisstj., sem nú situr, megi helst ekki heyra neitt aumt nefnt áður en hún reyni a. m. k. að strá salti í sárið. Ég vísa þessum ásökunum algerlega á bug. Ég er búinn að heyra þær hér margoft og ég hef ekki talið ástæðu til þess að vera að fara upp í ræðustólinn út af þessum málum, ég hef ekki viljað gera það vegna þess, hvernig þessi mál eru vaxin, en mér ofbýður að í hvert einasta skipti, hversu lítið sem málið er og tilefnið, skuli þessi hv. þm. halda á málum með þeim hætti sem hann gerir nú. Ég fullyrði að það er þegar á heildina er litið ekki þeim málefnum til góðs sem við berum bæði væntanlega fyrir brjósti þegar allt kemur til alls.