22.05.1980
Sameinað þing: 66. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3077 í B-deild Alþingistíðinda. (3038)

15. mál, málefni hreyfihamlaðra

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Það er dálítið broslegt stundum að vera hér í þingsölum, einkum þegar farið er að tala um öryrkja og fatlað fólk. Það er nokkurs konar sparimál fyrir ákveðna þm. að breiða hér úr góðvild sinni þegar málefni öryrkja ber á góma. — Og einkum verkar dálítið broslega á okkur, sem höfum unnið í þessum málum um árabil, að heyra málflutning af þessu tagi.

Ég er satt að segja furðu lostin og hef verið það áður hér í þinginu að hlusta á hv. 10. landsk. þm. tala um þessi mál. Það kann kannske að vera þekkingarskortur hv. þm., sem hefur ekki verið hér á þingi nema í eitt ár eða svo, rúmt þó, að vita ekki hver þróun hefur orðið í þessum málum, einkum frá árinu 1971, þegar Magnús Kjartansson, fyrrv. hæstv. heilbr.- og trmrh., tók við málum. Þetta er saga sem ég held að sé bæði dálítið vandræðalegt að segja hér í þinginu á þann máta sem þm. leyfir sér að gera og einkum held ég að þetta sé broslegt í röðum öryrkja. Það vill svo til, að við höfum séð með eigin augum, sem að þessum málum störfuðum, það merkilega gerast, að frá því að þetta fólk var eins og hverjir aðrir hreppsómagar, varð að leita til félagsmálastofnana í sínum byggðarlögum til að hafa fyrir brýnustu lífsnauðsynjum, sáum við það gerast, einkum fyrir tilstilli þm. Alþb. og ekki síst fyrir tilstilli þáv. hæstv. trmrh., Magnúsar Kjartanssonar, að þetta fólk varð skyndilega a. m. k. það sem við getum leyft okkur að kalla bjargálna, og þarf ekki að rekja það hér. Menn geta lesið löggjöf landsins og þróun hennar, ef þeir kæra sig um, eftir að tryggingalöggjöfinni var breytt árið 1971, lög nr. 67 frá 1971, ef hv. þm. vilja gera svo vel af fletta þeim upp.

Öryrkjar eru nefnilega ekkert sparifólk hér í Alþ. og það er andstyggilegt, svo að ég leyfi mér að taka mér stór orð í munn, að hlusta á þetta. Öryrkjar eru á engan hátt frábrugðnir öðru fólki, ef hv. þm. vita það ekki, að öðru leyti en því, að þeir hafa orðið fyrir einhverjum þeim uppákomum sem gera það að verkum að þeir eru fatlaðir eða sjúkir. En að öðru leyti eru þeir fólk nákvæmlega eins og við, þurfa að lifa sams konar lífi, og það er engin góðmennska að standa hér og sjá um að þeir geti það. Það er beinlínis skylda hvers einasta þm., og ég leyfi mér að fullyrða, þó að mér sýnist sitthvað um ýmsa hv. þm. hér, að ég ætla engum svo illt, ekki einum einasta þeirra, að þeir vilji ekki raunverulega vinna að því.

Það vill svo til, að fatlaðir þurfa alls konar aðstöðu sem við hin þurfum ekki, og það ætti ekki að vera efni í eina einustu ræðu að sjá svo um að hún verði til. Og í öllum bænum ætla ég að biðja ykkur um að hlífa mér við því í framtíðinni, sem hef unnið meðal þessa fólks í 7 ár og þekki mætavel bæði hugsanagang þess og kjör þess, — í drottins bænum hlífið þið mér við að setja hér upp einhvern jólasvip í hvert skipti sem þessi mál ber á góma.

Ég vil leyfa mér að segja líka, að þetta er vanvirða við hv. þm. Alexander Stefánsson sem mér hefur sýnst bera hér fram skynsamleg mál. Ég er ekkert að halda því fram að hann sé betri maður en aðrir hv. þm., kannske ofurlítið skynsamari, eins og þessi málaflokkur ber vitni um af hans hálfu, og ég sé enga ástæðu til þess að menn fari úr sambandi í hvert einasta skipti sem rætt er um þessi mál.

Hér liggja fyrir tvær till. og það er hægt að afgreiða þær með tiltölulega lítilli fyrirhöfn. Ég held að það sé hárrétt athugað hjá hv. þm. Stefáni Jónssyni og hv. þm. Helga Seljan, sem — við skulum ekki gleyma því — hefur hér um árabil, án allrar tilfinningasemi, hefur mér sýnst, barist fyrir kjörum þessa fólks og leiðrétt þau á margan máta með aðstoð annarra hv. þm. sem enginn, eins og ég hef margsagt, hefur hið minnsta á móti. Það kann að hafa strandað stundum á fjárveitingu eins og svo margt annað, en viljann held ég að hafi aldrei skort. Þessir tveir hv. þm. hafa lagt hér fram till. sem ég er tilbúin til að styðja.

Ég held að það sé kannske rétt að nauðsynlegt sé að bera fram frv. hér í haust um að tryggja tekjustofn til að fjármagna breytingar á opinberu húsnæði. Ég held að það sé gríðarlega mikið mál. Hér hafa verið byggð hús frá elstu manna minnum sem ekki eru á þann veg að unnt sé fyrir öryrkja að komast inn í þau. Ég held að það sé alveg ljóst að slíkar breytingar kosta mikið fé, og ég held að það sé sjálfsagt að tryggja þennan tekjustofn.

Ég tel að það megi athuga, hvort ekki sé sjálfsagt eða öllu heldur eðlilegra að sameina þessa sjóði. Ég held að sjóðir okkar séu að verða ærið margir og það mætti skoða það í rólegheitum í sumar, hvort ekki er ráðlegt að slá þessum sjóðum að einhverju leyti saman. En ég held að það sé bara framkvæmdaatriði sem þarf að leysa og er ástæðulaust að halda einhverjar hjartnæmar ræður um það.

Brtt. frá hv. allshn. getur svo sem verið góð og gild og ég get svo sem ekki haft neitt á móti henni. Ég hygg að við getum öll sameinast um að afgreiða hana eins og hún kemur frá n. án allra fyrirvara, og þetta mál held ég að sé hægt að afgreiða.

Ég vil taka undir það, sem hv. þm. Stefán Jónsson sagði hér áðan, núv. formaður tryggingaráðs. Ég hygg ekki að hann hafi neitt á móti því að vinna að þessum málum.

Það er afskaplega virðingarvert þegar skynsamlegar tillögur um þessi mál koma hér fram, en fyrir hönd öryrkja í landinu frábið ég þingheimi að þurfa að hlusta á þá keppni í hjartagæsku sem hér fer fram í hvert skipti sem þessi mál ber á góma.