22.05.1980
Efri deild: 101. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3081 í B-deild Alþingistíðinda. (3048)

160. mál, jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar

Guðmundur Bjarnason:

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. Ed. hefur fjallað um frv. til l. um jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar og þar áður hafði n. fjallað um þetta mál á mörgum sameiginlegum fundum með fjh.- og viðskn. Nd. Hér er brýnt mál á ferðinni og allir sammála um að á þessu máli þurfi að taka.

Það urðu nokkrar umræður í n. um nauðsyn þess að greiða niður olíuna í skólahúsnæði og þar með töldu heimavistarhúsnæði og þá einkum það sem sagt er í 7. gr. um heimild til slíks og hvort réttara hefði verið að hafa það skyldu. Urðu nm. ekki sammála um að flytja brtt. varðandi þetta. Einnig var rætt um ýmsar aðrar almannastofnanir, svo sem sjúkrahús, heilsugæslustöðvar, dagvistarstofnanir og fleira slíkt svo og hvort ætti að greiða niður olíu til atvinnurekstrarhúsnæðis. En eins og ég sagði varð n. ekki sammála um að standa að sameiginlegum brtt. varðandi þetta mál. Þótt einstakir nm. teldu að nauðsynlegt hefði verið að endurskoða frv. ítarlega varð n. sammála um að leggja til að það yrði samþ., enda yrði fljótlega unnið að endurskoðun laganna með sérstöku tilliti til efnisþátta sem koma fram á þskj. 112 og 157.

Einstakir nm. áskilja sér rétt til að flytja brtt. og fylgja þeim sem fram kunna að koma.