22.05.1980
Efri deild: 101. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3082 í B-deild Alþingistíðinda. (3049)

160. mál, jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Nefndin hefur skilað sameiginlegu nál., eins og þegar hefur komið fram.

Segir í þessu nál., að einstakir nm. telji að nauðsynlegt hefði verið að taka frv. til gagngerrar endurskoðunar. Í því efni vísa ég til þess sem ég sagði við 1. umr. þessa máls. Ég ræddi þá nokkuð helstu meinbugi sem á frv. þessu eru.

Ég tel að það sé fengur að því viðhorfi hv. fjh.- og viðskn., að hún er sammála um að leggja til að ef þetta frv. verður samþ. verði unnið að endurskoðun laganna með sérstöku tilliti til efnisþátta sem koma fram á þskj. 112 og 157. Í þessu felst viðurkenning í heild á þeirri gagnrýni sem ég hafði uppi við 1. umr. málsins á frv. þessu.

Hér er vísað til efnisþátta í þskj. 112. Það er hið margumtalaða frv. sem ég ásamt hæstv. viðskrh., hv. þm. Stefáni Jónssyni og Eiði Guðnasyni bar fram fyrr á þessu þingi. N. er sem sé sammála um að það beri að taka væntanlega löggjöf til endurskoðunar með hliðsjón af þessu frv. Að gefnu tilefni kom ég inn á frv. á þskj. 112 við 1. umr. þessa máls í gær. Ég skal því ekki fara að rifja það mál frekar upp nú í þessum umr. Það hafa líka ítarlegar umr. farið fram í þessari hv. d. um efni frv. við 1. umr. þessa máls.

En ég vil víkja nokkrum orðum að hinu þskj., sem nál. vitnar til, og það er þskj. 157. Það er till. til þál. um framkvæmdaáætlun í orkumálum vegna húshitunar sem ég ásamt fleiri samflokksmönnum mínum flyt. Hv. fjh.- og viðskn. er sammála um að væntanleg löggjöf, þegar frv. þetta, sem við nú ræðum, hefur verið samþ., verði tekin til sérstakrar endurskoðunar, ekki einungis með tilliti til efnis þess, sem er að finna á þskj. 112, heldur einnig á þskj. 157, sem gerir ráð fyrir framkvæmdaáætlun í orkumálum vegna húshitunar.

Það er ákaflega mikilvægt að skilningur sé á því, að niðurgreiðsla olíu er engin framtíðarlausn í þeim vanda sem við er að fást í þessu efni. Hún er, ef svo mætti segja, bráðabirgðaaðgerð. Hún er til að bæta úr mesta vandanum, lina erfiðleikana sem það fólk á við að búa sem býr á olíukyndingarsvæðunum. En framtíðarlausnin í þessu efni er að sjálfsögðu sú, að það verði komist hjá erlendum orkugjöfum, komist hjá olíunni sem orkugjafa til upphitunar húsa. Það er einmitt þetta viðfangsefni sem þáltill. á þskj. 157 fjallar um.

Í þáltill. er ekki einungis kveðið svo á að það skuli gerð áætlun um framkvæmdir í orkumálum vegna húshitunar. Það er beinlínis tekið fram á hvaða þætti orkumálanna skuli leggja sérstaka áherslu.

Það er í fyrsta lagi tekið fram að lögð verði áhersla á að í þessari framkvæmdaáætlun verði um að ræða jarðhitaleit. Það er að sjálfsögðu vegna þess hve jarðhitaleitin er þýðingarmikil í þessum efnum. Það er mikilvægt að einskis sé látið ófreistað, að allt sé gert til að hraða framkvæmdum í þeim efnum. En framkvæmdir í þessum efnum eru víðtækar og margvíslegar. Áður en boranir eru gerðar eftir heitu vatni á hverju jarðhitasvæði fyrir sig er nauðsynlegt að gera ýmsar rannsóknir. Það fer eftir aðstæðum hversu yfirgripsmiklar slíkar forrannsóknir þurfa að vera. En þó að jarðhitarannsóknirnar sjálfar séu grundvöllurinn eru vinnsluboranir eftir heitu vatni fyrirferðarmestu framkvæmdirnar í jarðhitaleitinni. Vinnsluborunum hefur fleygt fram á síðari árum. Aukin tækni og bættur tækjakostur hafa gert það mögulegt. En það er nauðsynlegt að hraða þessum framkvæmdum svo ekki verði óþarfadráttur á því að jarðvarminn verði hagnýttur hvar sem við verður komið. Ég hygg að það geti ekki nokkur ágreiningur verið um mikilvægi þessara framkvæmda sem gert er ráð fyrir að framkvæmdaáætlun sú, sem lögð er til að gerð verði, fjalli um.

Í öðru lagi er um að ræða hitaveituframkvæmdir. Það er ekki nóg að leita jarðvarmans. Það er ekkert mikilvægara en að hagnýta jarðvarma og að hann verði tekinn í notkun svo fljótt sem verða má til upphitunar húsa. Þjóðhagslega er ekkert brýnna en hitaveituframkvæmdir. Það eru núna um 20 hitaveitur sem hafa verið stofnaðar víðs vegar um landið. Þær eru nær allar í eigu sveitarfélaga. Hitaveita Suðurnesja, sem tók til starfa árið 1978, er að því leyti sérstæð, að hún er sameign ríkis og sveitarfélaga. Orkubú Vestfjarða, sem tók til starfa í ársbyrjun 1978, er einnig sameign ríkis og sveitarfélaga, en hlutverk þess er bæði að annast vinnslu og dreifingu raforku svo og að byggja og reka hitaveitur. Það þarf að koma í veg fyrir að erfiðleikar fjárhagslega veikra sveitarfélaga hamli eða seinki hitaveituframkvæmdum. Það er m. a. vegna þessa sem það er þýðingarmikið að taka þennan þátt orkuframkvæmda inn í framkvæmdaáætlun þá sem ég geri hér að umtalsefni.

En það er ekki nægilegt að snúa sér í þessu efni að framkvæmdum þar sem jarðvarmi er fyrir hendi, heldur þarf í raun og veru ekki síður að snúa sér að framkvæmdum í hitaveitumálum þar sem jarðvarmi er ekki fyrir hendi til að koma þar upp svokölluðum fjarvarmaveitum með öðrum orkugjöfum. Þessar fjarvarmaveitur mætti í mörgum tilfellum síðar hagnýta með jarðvarma sem orkugjafa, þegar betur hefur miðað í jarðhitaleit og ný tækni kann að hafa skapað möguleika á hagnýtingu jarðvarma þar sem slíkir möguleikar eru ekki fyrir hendi nú.

Þriðja atriðið í þessari framkvæmdaáætlun, sem ég geri hér að umtalsefni, varðar aðalháspennulínur í landinu. Ég ætla ekki að fara að rifja upp hvað hefur gerst á síðari árum í þeim efnum. En þar hafa orðið miklar framfarir svo sem kunnugt er. Engum blandast hugur um þýðingu Norðurlínu, Austurlinu og Vesturlínu, sem við göngum út frá að verði lokið á þessu ári, en þrátt fyrir þær eru enn stór verkefni óleyst varðandi aðalháspennulínur í landinu. Það er grundvallaratriði til þess að rafmagn verði hagnýtt til upphitunar húsa víðs vegar á landinu að unnið sé að framkvæmdum við aðalháspennulínur.

Fjórða atriðið, sem framkvæmdaáætlun sú, sem ég nú ræði um, fjallar um, er styrking rafdreifikerfis í sveitum og í strjálbýli landsins. Í mars 1979 samþykkti orkuráð að leggja til við iðnrh. að hafist yrði handa um að styrkja rafdreifikerfi í strjálbýli hér á landi til að það gæti flutt rafmagn er nægði til almennra heimilisnota í sveitum, fullrar hitunar húsa með rafmagni og búnota hvers konar svo og til margvíslegra annarra nota í strjálbýli, svo sem þjónustu og minni háttar iðnaðar. Samþykkt orkuráðs var byggð á ítarlegum athugunum sem ráðið hafði látið fara fram um þessi efni og ég ætla að hv. þm. séu kunnar. En framkvæmdir í þessum efnum eru bæði aðkallandi og svo mikilvægar vegna þess að þær skapa grundvöll fyrir því, að hægt sé að nota innlenda orkugjafa til upphitunar húsa í sveitum landsins. Ef ekki er aðhafst með markvissum og skjótum hætti verða sveitirnar langt á eftir í þessum efnum þegar búið er að leysa tilsvarandi verkefni í þéttbýlinu.

Fimmta atriðið í þessari fjárfestingaráætlun, sem ég nú ræði um, er sveitarafvæðingin, hin eiginlega sveitarafvæðing sem hefur staðið yfir í nokkra áratugi. Henni er nú svo langt komið að það eru aðeins nokkrir tugir sveitabæja í landinu sem eftir er að tengja samveitum og gert hefur verið ráð fyrir samkv. samþykkt orkuráðs að eðlilegt væri og heppilegt að tengja samveitunum. Er gert ráð fyrir að í þessari framkvæmdaáætlun, sem hér um ræðir, verði loks bundinn endir á þessar framkvæmdir og sveitarafvæðingunni verði lokið.

Ég hef hér í fáum orðum drepið á fimm þætti í framkvæmdaáætlun þeirri sem till. á þskj. 157 gerir ráð fyrir. Ég geri þetta til að vekja athygli hv. Ed. á því, um hvað hv. fjh.- og viðskn. er sammála í þessu efni. N. er sammála um að þessi mál verði tekin til gagngerrar athugunar.

Sjötta atriðið, sem er í þessari framkvæmdaáætlun, skal ég ekki ræða sérstaklega. Það er um orkusparandi aðgerðir. Það er sérstakur kafli í því frv. sem við nú ræðum og hér liggur fyrir. Hef ég áður við 1. umr. vikið að ~eim þætti málsins.

Ég skal þá ekki ræða frekar um það sem hv. fjh.- og viðskn. er sammála um að verði sérstaklega gætt við frekari meðferð þessara mála. En einstakir nm. hafa áskilið sér rétt til að flytja brtt. og fylgja þeim sem fram kunna að koma. Ég skrifa ásamt öðrum fulltrúum Sjálfstfl. í hv. fjh.- og viðskn. undir nál. með fyrirvara til að leggja áherslu á þá ætlan okkar að bera fram brtt. og freista þess að laga nokkuð þetta frv. En það getur aldrei orðið jafngott frv. — hvernig svo sem við breytum því — og frv. það sem við hæstv. viðskrh. bárum fram fyrr á þessu þingi ásamt hinum ágætu hv. þm. Stefáni Jónssyni og Eiði Guðnasyni. Það hefði þurft að bera fram algerlega nýtt frv. til þess að svo gæti orðið.

En samt sem áður viljum við ekki liggja á liði okkar, ef við gætum þokað því frv., sem hér er, nokkuð í rétta átt, og með tilliti til þess berum við fram brtt. á þskj. 620. Ég vil nú í fáum orðum víkja að þessum brtt.

1. brtt. varðar það efni, að ný grein komi til, sem verði 5. gr. frv., þar verði tiltekin fjögur tilvik þar sem skylt er að greiða niður olíu til viðbótar við ákvæði 4. gr., sem er eina grein þessa frv. sem leggur þá beinu skyldu á ríkisvaldið að olían sé greidd niður. Þessi tilvik eru:

Í fyrsta lagi verði greiddur olíustyrkur til þeirra sem nota olíu til upphitunar atvinnuhúsnæðis. Það er augljóst mál, að ákaflega þýðingarmikið er fyrir strjálbýlið í landinu að greidd sé niður olía til upphitunar atvinnuhúsnæðis þar sem sú upphitun fer fram á olíuhitunarsvæðunum. Eftir því sem upphitunarkostnaðurinn verður meiri þáttur og tilfinnanlegri í rekstrarkostnaði fyrirtækjanna, eftir því standa fyrirtæki á þessum stöðum hallari fæti gagnvart öðrum fyrirtækjum í landinu. Það er í mörgum, ef ekki flestum — og nær að segja það tilfellum svo, að fyrirtæki eru bundin sömu verðlagshömlum á framleiðslu sinni hvar sem þau eru á landinn. Meðan slík ákvæði gilda er verið að mismuna hinum einstöku byggðarlögum í þessu landi. Á þeim grundvelli er þessi till. flutt.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir samkv. till. okkar að skólum og öðrum menningarstofnunum, sjúkrahúsum og öðrum heilbrigðisstofnunum og dvalarheimilum fyrir aldraða og unga skuli greiddir olíustyrkir. Við teljum að það sé svo varðandi þessar menningar- og heilsugæslustofnanir og félagslegu stofnanir á olíuhitunarsvæðunum að það megi ekki leggja á þær meiri byrðar en gengur og gerist um hliðstæðar stofnanir annars staðar í landinu. Í mörgum tilfellum þola þær ekki þær byrðar sem nú fylgja olíukyndingunni. Það er þess vegna bæði nauðsynjamál og sanngirnismál að þetta verði lagað og það verði skylda að greiða olíustyrki til þessara aðila.

Í þriðja lagi leggjum við til að þeim, sem ekki eiga kost á raforku frá samveitu og verða að leysa raforkuþörf sína með rekstri dísilstöðva, séu greiddir olíustyrkir. Þetta eru bændurnir í landinu sem hafa beðið þolinmóðir eftir því að fá bæi sína tengda samveitum. Og þetta eru bændurnir sem jafnvel verða að ganga út frá því, að þeir fái aldrei bæi sína tengda samveitum. Það er ekki hægt að skilja við þetta mál á annan veg en að ganga frá því föstu að þetta fólk fái olíustyrki sambærilega við aðra borgara landsins.

Í fjórða lagi gerum við till. um að olíustyrkir verði greiddir hitaveitum, sem nota olíu sem orkugjafa, og rafveitum, sem nota olíu til framleiðslu rafmagns til upphitunar húsa. Við teljum að þetta sé svo mikilvægt að það sé þjóðhagslega fásinna að gera þetta ekki. Hef ég þá sérstaklega í huga þegar um er að ræða hitaveitur sem nota olíu að orkugjafa. Ég þarf ekki að fara að tíunda hér alkunn sannindi um hvað slíkar hitaveitur eru þjóðhagslega mikilvægar kostnaðarlega þegar þær eru bornar saman við olíukyndingar í einstökum húsum. Kemur þar inn atriði sem ekki verður gengið fram hjá, að með hitaveitunum eða hinum svokölluðu fjarvarmaveitum er möguleiki að hagnýta miklu ódýrari olíu, ódýrari erlendan orkugjafa með hagnýtingu svartolíunnar en með hagnýtingu gasolíu í kynditækjum í einstökum húsum.

Ég hef þá í fáum orðum stiklað á þessum fjórum tilvikum þar sem við leggjum til að það verði skylda að greiða olíuna niður. Til frekari áherslu á þessari till. leyfi ég mér að minna á að sumt af því, sem hér er verið að leggja til, er í gildandi lögum. En með þessu frv. er stigið skref aftur á bak frá gildandi lögum. Það er ekki hægt að láta slíkt viðgangast mótmælalaust. Við erum að ganga spor aftur á bak hvað snertir heimavistir í grunnskólum. Samkv. gildandi lögum er það skylda að greiða niður olíu til þeirra, en samkv. þessu frv. er slíkt sett í heimildarform. Samkv. gildandi lögum er skylda að greiða niður olíu hjá rafveitum sem nota olíu til framleiðslu rafmagns til upphitunar húsa. Það er skylda. En hér erum við að setja þetta í heimildarákvæði. Þetta er spor aftur á bak. Ég leyfi mér að segja hér: Ég trúi því ekki fyrr en ég þreifa á að það sé fylgi í hv. Ed. fyrir því að ganga spor sem þessi aftur á bak í þessum málum. — Ég skal ekki fjölyrða meira um þetta.

Ég kem þá að 2. brtt. okkar á þskj. 620. Sú brtt. er formsatriði og er einfaldlega um að fella niður 7. gr. frv., sem er heimildargrein og verður óþörf þegar búið er að samþykkja nýja grein með skyldu til niðurgreiðslu nýja grein sem verður samkv. till. okkar 5. gr. frv.

Ég kem þá að 3. og síðustu brtt. Hún er um það, að 16. gr. frv. hljóði svo, að iðnrh. setji með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga. Í 16. gr. frv. er gert ráð fyrir að því hlutverki að setja reglugerðir samkv. þessu frv. sé skipt milli iðnrh. og viðskrh. Ég hef, og gerði það við 1. umr., vikið nokkuð að þessu atriði, svo ég skal ekki vera að tefja menn með því að endurtaka núna það sem ég sagði þá. En ég held að þetta mál ætti alfarið að heyra undir iðnrn., enda er þetta orkumál. Ég hef ekki heyrt það heldur, að mótmælt væri þeirri skoðun minni. Niðurgreiðsla á orkugjöfum er orkumál. Sparnaður orkugjafa er orkumál. Nýting innlendra orkugjafa er orkumál o. s. frv.

Herra forseti. Ég hef gert grein fyrir brtt. okkar félaga á þskj. 620 og hef lokið máli mínu.