22.05.1980
Efri deild: 101. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3086 í B-deild Alþingistíðinda. (3051)

160. mál, jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég þakka hv. fjh.- og viðskn. fyrir, hve fljótt hún hefur afgreitt þetta mál, og einnig fyrir að leggja til að það verði samþ. með þeim hætti sem greint er í grg. Hv. 2. þm. Reykn. hefur enn fremur lýst yfir stuðningi við málið.

Ég vil aðeins segja það að lokum, að ég mun beita mér fyrir því, að frv., ef að lögum verður, sem ég efast raunar ekki um, verði endurskoðað í þá veru sem segir í nál. á þskj. 619. Líklega færi best á því að slík endurskoðun væri gerð af fulltrúum allra flokka, — raunar ýjaði ég að þessu í ræðum mínum um málið við 1. umr. hér í hv. þd. í gær, — enda væri þá höfð hliðsjón af framkvæmd laganna þegar á þessu ári.

Ég vil svo enn fremur endurtaka það, sem ég hef áður sagt, að ég geri ráð fyrir að þær heimildir, sem felast í frv., verði notaðar þannig að ekki verði felldir niður olíustyrkir, sem greiddir hafa verið, nema ef innlend orka kemur í stað olíunnar og þá í samræmi við ákvæði frv.