22.05.1980
Efri deild: 102. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3087 í B-deild Alþingistíðinda. (3054)

160. mál, jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar

Egill Jónsson:

Herra forseti. Ég gerði nokkuð rækilega grein fyrir afstöðu minni til þessa máls í umr. í gær og ég get í meginatriðum vísað til þess sem þá var sagt.

Það vekur nokkra athygli, sem kom fram hjá hæstv. viðskrh. áðan, að hann hygðist láta endurskoða þessa löggjöf strax á þessu ári. Auðvitað ber að fagna þessari yfirlýsingu, því að þessi löggjöf er að sjálfsögðu með þeim hætti að við hana verður tæpast búið. Það er mér að sjálfsögðu fagnaðarefni að þar tekur ráðh. upp það sem kom fram í þáltill. minni fyrr á þessum vetri, að um þetta mál yrði fjallað af fulltrúum allra þingflokka. Get ég í sjálfu sér fagnað yfirlýsingu ráðh. Það gefur nokkuð auga leið í þessu sambandi, að tæpast verður talað um að Alþ. hafi of rúman tíma til starfa þegar þess er gætt að hér fer nú fram í rauninni umr. um þetta mál í þriðja sinn á þessum vetri, en samt er afgreiðsla þess með þeim hætti að fylgja verða því yfirlýsingar um að endurskoðun eigi sér strax stað.

Ég get ekki látið hjá líða að minna á að það hljóta að vera mönnum vonbrigði hvað hér er um litlar úrbætur að ræða í þessu mikla vandamáli þar sem í þessu frv. felst sennilega eitthvað í kringum 40% þátttaka, en hefði þurft að vera 60% miðað við það sem almennast kostar að kynda hús í þessu landi. Hér er um að ræða sáralitlar endurbætur frá því sem áður hefur verið því að þátttaka hins opinbera hefur verið á milli 30 og 40% í kyndingarkostnaðinum.

Það er sannarlega ekki að ófyrirsynju þótt hæstv. viðskrh. vilji nú gefa yfirlýsingar um að úr þessu þurfi að bæta.

En þessu er nú öllu sleppt í þeirri tillögugerð, sem við freistum hér enn þá einu sinni að koma fram, og raunar öðru því, sem lögð hefur verið áhersla á, ekki einungis af sjálfstæðismönnum, heldur mörgum öðrum hv. alþm. Þess í stað er nú þess aðeins freistað að halda því í frv. sem áður var bundið í lögum, og þar á ég við skólana. Þau ákvæði voru reyndar áður eingöngu miðuð við grunnskóla, en hafa nú verið gerð víðtækari. Þó vil ég benda á að þátttaka í olíukostnaðinum eða kyndingarkostnaðinum samkv. þessu frv. nemur ekki nema innan við 30%, líklega í kringum 25–27% af því sem kostar að hita upp skólarými. Í þessari till. er ekki gerð nein tilraun til að lagfæra þessa upphæð, heldur aðeins að hafa hana lögboðna eins og hún hefur verið.

Í 2. brtt. er gerð tilraun til að fá heimild, lengra er nú ekki farið, til þess að olíustyrkur verði greiddur til rekstrar á heilsugæslustöðvum. Hér er um að ræða algjörar lágmarkskröfur um þessi efni. Ég held að það hefði verið gagnlegt að bera þær saman við það sem hefur komið fram, t. d. frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, frá fjórðungssamböndunum, frá Búnaðarþingi og fleiri slíkum aðilum. Það væri fróðlegt að bera öll þau erindi saman svo að menn sæju hvað hér eru ákaflega litlar kröfur gerðar. Ég trúi satt að segja ekki öðru en hv. alþm., sem sæti eiga í þessari d., sjái sér fært að greiða þessari brtt. atkvæði, svo sanngjörn sem hún er að öllu leyti.