22.05.1980
Efri deild: 102. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3091 í B-deild Alþingistíðinda. (3058)

160. mál, jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég fjallaði ítarlega um þetta mál við 1. umr. hér og ætla ekki að gera það frekar. En í samráði við hv. þm. Pétur Sigurðsson vildi ég freista þess að flytja hér skriflega brtt. sem er of seint fram komin. Ég óska eftir því við hæstv. forseta, að hann fari fram á afbrigði um tillöguna.

Eins og hv. deildarmönnum er kunnugt var felld brtt. frá okkur hv. þm. Þorv. Garðari Kristjánssyni og Eyjólfi Konráð við 2. umr., en 2. liður þeirrar till. var um að olíustyrkur skyldi greiddur skólum og öðrum menningarstofnunum, sjúkrahúsum og öðrum heilbrigðisstofnunum, dvalarheimilum fyrir aldraða og unga. Aðeins örlítill hluti af þessari till., sem er þó í öðru formi, er till. mín við 3. umr. Hún kemur fram skrifleg og er þannig: „Við 7. gr. bætist stafliður d:

Heimilt er einnig að greiða dvalarheimilum aldraðra og ungra olíustyrki, sbr. reglur um skólahúsnæði samkv. a-lið þessarar greinar.“

Ég legg þessa till. fram í samráði við hv. þm. Pétur Sigurðsson sem ég vænti að allir hv. deildarmenn viti að hefur á þessum málum, sem hér er tekið á, mjög mikinn áhuga.

Það þarf ekki að rökstyðja þetta með mörgum orðum. Þannig er, að úti um land er farið að reka á vegum sveitarfélaga mörg dvalarheimili og þau, sem búa við það að hafa hitaveitu eða innlenda orkugjafa hafa náttúrulega miklu betri rekstrarskilyrði. Þetta er erfitt fyrir hin sveitarfélögin, sem reka þessar stofnanir oftast, eða aðra aðila, ef um sjálfseignarstofnanir er að ræða, og þess vegna óska ég eftir því, að menn hugleiði í hv. Ed. að heimila ráðh. að greiða slíka styrki þessum stofnunum á hliðstæðan hátt og skólastofnunum.