09.01.1980
Neðri deild: 15. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í B-deild Alþingistíðinda. (306)

23. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Dómsmrh. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Frv. til l. um Sinfóníuhljómsveit Íslands var lagt fram á 99. og 100. löggjafarþingi og er enn lagt fram á þessu þingi. Frv. það, sem lagt var fram á 99. löggjafarþingi, hafði mætt mikilli mótspyrnu Starfsmannafélags Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Aðallega voru það þrjú atriði, sem starfsmannafélagið taldi þurfa breytinga við, sem sé ákvæði 6. gr., þar sem sagði að ráða mætti allt að 65 hljóðfæraleikara til fastra starfa við hljómsveitina, og enn fremur ákvæði 3. gr., 4. gr. og 10. gr. En þar var gert ráð fyrir að Þjóðleikhúsið skyldi verða rekstrar- og stjórnunaraðili. Þá var fundið að því að tengsl yfirstjórnar og verkefnavalsnefndar; sem gert var ráð fyrir í frv., voru nánast eins og verið hafði undanfarna tvo áratugi, en sú tilhögun þótti ekki hafa gefið góða raun.

Skipuð var nefnd 31. ágúst 1978 til að endurskoða frv. og skilaði hún nýju frv. 3. apríl 1979. Frv. það sem nú liggur fyrir, er að mestu óbreytt eins og nefndin skilaði því.

Stefnt er að því, að Sinfóníuhljómsveit Íslands verði sjálfstæð stofnun sem njóti fjárstuðnings ríkissjóðs og sveitarfélaga í nágrenni Reykjavíkur svo og Reykjavíkurborgar. Þá er gert ráð fyrir að Sinfóníuhljómsveit Íslands geri viðskiptasamning við Ríkisútvarp, Þjóðleikhús og fleiri aðila um viðskipti, t.d. vegna flutnings söngleikja, við listdanssýningar o.fl. Rekstrarform hljómsveitarinnar þarf að miða við sjálfstæðan og skipulegan rekstur til þess að best verði þjónað því hlutverki sem sinfóníuhljómsveitum er ætlað að gegna.

Rétt er að taka fram, að eftirfarandi breytingar voru gerðar á frv. eftir að nefndin skilaði því:

Gert er ráð fyrir að formaður stjórnar hljómsveitarinnar hafi tónlistarmenntun, sbr. 4. gr., einnig að heimilt sé að ráða tónskáld til starfa fyrir hljómsveitina, sbr. 4 mgr. 6 gr. Benda má á að hliðstæðu er að finna í lögum um Þjóðleikhús, þ.e. að ráða leikritahöfund í takmarkaðan tíma.

Frv. gerir ráð fyrir að stofn- og rekstrarkostnaður Sinfóníuhljómsveitarinnar skiptist með nokkuð öðrum hætti en nú er. Þó er munurinn ekki verulegur. Hlutdeild ríkissjóðs er nú 50.6%, en verður 50%. Hlutdeild Ríkisútvarpsins er nú 28%, en verður 25%. Borgarsjóður Reykjavíkur leggur nú fram 21.4%, en samkv. frv. 25%, og bætast þá nágrannasveitarfélög Reykjavíkur við þá aðila sem að rekstrinum standa.

Þegar þetta frv. var lagt fyrir Alþingi s.l. vor af þáv. hæstv. menntmrh., Ragnari Arnalds, tóku margir hv. alþm. til máls og voru allir á einu máli um það, að nauðsynlegt væri að setja lög um starfsemi Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Þá kom einnig fram að með þessu frv. hefði tekist að vinna samstöðu þeirra aðila sem áður höfðu lýst nokkurri óánægju. Í grg. fyrrgreindra frv. er forsaga þessa máls rakin ítarlega og mun ég því ekki gera það nánar hér.

Það má svo að lokum ítreka, að vitaskuld er að því mikill menningarauki, að með þjóð, sem ekki telur nema rúmlega 220 þús. manns, skuli starfa sjálfstæð sinfóníuhljómsveit, og er það auðvitað öllu menningarlífi hér til hins mesta sóma. Á það má svo minna að lokum, að í febr. n.k. á Sinfóníuhljómsveitin 30 ára afmæli. Ég vil því mælast til þess, ef menn hafa ekki þeim mun meira efnislega við þetta frv. að athuga, að það fái hraða afgreiðslu hér.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, leyfa mér að leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.