22.05.1980
Neðri deild: 86. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3118 í B-deild Alþingistíðinda. (3078)

17. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka til máls fyrr en talsmenn n. hefðu lokið máli sínu og skal ég þess vegna gera stuttan stans í þessum stól. Ég taldi hins vegar nauðsynlegt að koma á framfæri ályktun sem gerð hefur verið með shlj. atkv. í miðstjórn Alþýðusambands Íslands og fjallar um þetta mál. Í miðstjórninni eiga sæti menn úr öllum stjórnmálaflokkum. Ályktunin er á þessa leið:

„Miðstjórnarfundur Alþýðusambands Íslands, haldinn 22. maí 1980, skorar á Alþingi að afgreiða nú þegar og áður en Alþingi fer í sumarleyfi frv. það til laga sem nú liggur fyrir þinginu um Húsnæðisstofnun ríkisins. Í frv., eins og það er nú, er gert ráð fyrir, að félagslegar íbúðabyggingar Verði þriðjungur íbúðabygginga í landinu og þar er gert ráð fyrir stóraukinni fjárveitingu til Byggingarsjóðs verkamanna. Þá er gert ráð fyrir viðbótarátaki til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis, stórbættri ávöxtun skyldusparnaðar og síðast en ekki síst beinni aðild Alþýðusambandsins að stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins. Þá er í frv. ákvæði um helmingsaðild verkalýðssamtakanna að stjórnum verkamannabústaða. Með tilliti til þessa er það samtökum launafólks sérstakt kappsmál að frv. þetta nái fram að ganga nú þegar.

Miðstjórnin treystir því, að stjórnvöld muni á hverjum tíma tryggja það fjármagn sem þarf til þess að markmiðum frv. í heild verði náð. Í þessu sambandi minnir Alþýðusamband Íslands á að hér er aðeins um að ræða efndir á ítrekuðum loforðum stjórnvalda í húsnæðismálum allt frá árinu 1974.

Alþýðusamband Íslands telur að nái frv. þetta ekki fram að ganga nú fyrir þinglok muni það geta orðið til að torvelda mjög í framtíðinni samkomulag við stjórnvöld um lausn deilna með þeim hætti að teknar verði gildar í samtökunum yfirlýsingar á borð við þær sem gefnar hafa verið oftar en einu sinni á undanförnum árum um húsnæðismálin.

Virðingarfyllst,

f. h. Alþýðusambands Íslands,

Snorri Jónsson.“

Ég taldi nauðsynlegt, áður en umr. héldi áfram, að koma þessari niðurstöðu verkalýðssamtakanna á framfæri við hv. Nd.