22.05.1980
Neðri deild: 86. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3119 í B-deild Alþingistíðinda. (3081)

17. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Frsm. 2. minni hl. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Í sjónvarpinu í gærkvöld hélt hæstv. forsrh., Gunnar Thoroddsen, því fram, að Sjálfstfl. hefði reynt að koma í veg fyrir að þetta mál, sem hér er til umr., fengi afgreiðslu á þessu þingi, og lét einnig að því liggja, að meiri hl. þingflokksins væri á móti félagslegum aðgerðum í húsnæðismálum. Hér virðist vera um mikinn misskilning að ræða, því að Sjálfstfl. hefur einungis bent á að ef þetta mál eigi að fá afgreiðslu á þessu þingi verði Alþ. og hæstv. ríkisstj. að gefa sér nægilegan tíma til þess. Ríkisstj. hefur valið þann kost að leggja áherslu á afgreiðslu málsins á þessu þingi. Sjálfstfl. hefur gert sitt til þess að svo geti orðið.

Í fyrsta lagi féllst hann á að efna ekki til umræðna um málið við 1. umr., sem er mjög óvenjulegt þegar þingmál koma gjörbreytt og full af ágreiningsefnum úr fyrri deild.

Í öðru lagi féllst Sjálfstfl. á að nefndarstörf tækju aðeins tvo virka daga. Var við það staðið, eins og frsm. meiri hl. félmn. gat um, þrátt fyrir að Ed. hefði nánast á hverjum degi í hálfan mánuð unnið að málinu sem er afar yfirgripsmikið.

Í þriðja lagi vil ég benda á að um margra vikna skeið hafa fulltrúar stjórnarflokkanna og þeirra aðila, sem standa að ríkisstj., unnið að gagngerum breytingum á frv. án þess að gefa stjórnarandstöðunni kost á að fylgjast með því verki fyrr en því var fulllokið. Dráttur málsins er því fyrst og fremst á ábyrgð hæstv. ríkisstj., en engan veginn stjórnarandstöðunnar.

Í fjórða lagi hefur stjórnarandstaðan fallist á að framlengja þingstörf út þennan mánuð og jafnvel lengur, m. a. til að gera kleift að frv. þetta og önnur veigamikil mál fái þinglega meðferð og afgreiðslu.

Í fimmta lagi skal þess getið, að formaður félmn. Ed., hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson, beitti sér sérstaklega fyrir hröðum og ákveðnum vinnubrögðum til að málið fengi eðlilega meðferð í Ed. Í atkvgr. við 2. umr. í Ed., þegar margir tugir brtt. voru til afgreiðslu, þurfti hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson að greiða atkv. gegn brtt. til þess að málið næði fram þrátt fyrir fjarveru stjórnarþm.

Af því, sem ég nú hef talið í fimm liðum, þykir mér leitt að þess misskilnings hafi gætt í máli hæstv. forsrh. að stjórnarandstaðan hafi gagngert verið að koma í veg fyrir afgreiðslu málsins. — Þess skal í ofanálag getið, að s. l. nótt varð stjórnarandstaðan að hjálpa stjórnarflokkunum við að koma málum í gegnum Nd., m. a. vegna fjarveru ráðh. sem sæti eiga í hv. deild.

Í því furðulega áróðursstríði, sem háð hefur verið vegna óákveðni hæstv. ríkisstj. um hvað hún vill gera varðandi þinghaldið, hafa nokkrir þm., þ. á m. hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, haldið því fram, að Sjálfstfl. væri í einhverju einkastríði við launþegasamtökin og vildi koma í veg fyrir eðlileg áhrif þeirra í húsnæðismálunum. Ég mun að sjálfsögðu víkja betur að þessu atriði síðar í ræðu minni, en vil þó strax í upphafi taka það skýrt fram, að við sjálfstæðismenn erum ekki á móti því að ASÍ hafi áhrif á ákvarðanir í húsnæðismálum með eðlilegum hætti. Okkur þykir hins vegar rangt að slíkt gerist með beinni stjórnaraðild, eins og nýjasta gerð frv. gerir ráð fyrir. Fleiri samtök vinnumarkaðarins, eins og BSRB og Vinnuveitendasamband Íslands, hafa einnig gert kröfu til beinnar aðildar, og auk þess hefur samband sveitarstjórna orðað slíka aðild fyrir sig. Sjálfstfl. telur að öll þessi samtök eigi að hafa áhrif á ákvarðanir, en óæskilegt sé að það gerist með beinni stjórnaraðild þeirra.

Afstaða Sjálfstfl. og reyndar fjölmargra annarra, sem kynnt hafa sér þessi mál, þ. á m. fulltrúar Framsfl. og Alþfl. í húsnæðismálastjórn, er hvorki byggð á annarlegum sjónarmiðum gagnvart verkalýðshreyfingunni né heldur skilningsleysi á gildi félagslegra úrræða þar sem þeirra er þörf. Hér er um að ræða grundvallaratriði í skipan stjórnsýslunnar og spurninguna um valdtöku Alþingis og hvenær eðlilegt sé að þingið framselji vald sitt til hagsmunasamtaka. Sjálfstfl. styður heils hugar að Alþýðusamband Íslands hafi áhrif á ákvarðanir húsnæðismálastjórnar án beinnar aðildar að stjórninni. Á hinn boginn telur Sjálfstfl. eðlilegt og æskilegt að launþegasamtökin eigi beina aðild að stjórnum verkamannabústaðanna sem sérstaklega sinna hinum svokallaða félagslega þætti húsnæðismálanna.

Eins og fram kom í ræðu frsm. meiri hl. hv. félmn. eru ýmis vandkvæði á frv. og sumt sem getur orkað tvímælis. Það er rétt, sem kom fram í máli hv. frsm., að frv. hefur gerbreyst í meðförum Ed., þ. á m. hefur lánstími lengst, vaxtakjör lána batnað og verkefnum fjölgað. Við það hafa reikniforsendur fjármögnunarinnar breyst. Þess vegna samþykkti n. að fara þess á leit við Þjóðhagsstofnun að hún reiknaði út að nýju fjármagnsþörfina, og verður því verki væntanlega lokið áður en umr. um málið lýkur, eins og fram kom áðan hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, frsm. 1. minni hl. félmn.

Á þetta mikilvæga atriði legg ég áherslu í upphafi máls míns, vegna þess að skýr viðhorf ríkisstj. þurfa að liggja fyrir gagnvart fjármögnuninni ef frv. á að verða einhvers virði fyrir þá sem líta á það sem kjarabótagildi. Ég tek undir það, sem kom fram í ályktun miðstjórnar Alþýðusambands Íslands er hæstv. félmrh. sagði frá áðan, að auðvitað er tilgangslaust að samþykkja þetta frv. ef fjármagnið fylgir ekki á eftir.

Öllum er ljós aðdragandinn að þeirri frumvarpsgerð sem við erum að ræða hér. 1970 voru lögin um húsnæðismálastjórn endurskoðuð. 1974 gaf ríkisstj. loforð vegna kjarasamninganna um endurskoðun þeirra mála og aftur 1976. Síðan hafa margar nefndir unnið ágætt starf og nú, 1980, hefur ríkisstj. enn einu sinni gefið út yfirlýsingu varðandi kjarasamninga, eins og kom fram hjá hv. frsm. meiri hl. félmn. — Ég vil enn leggja áherslu á að frv. hefur til viðbótar gjörbreyst í meðförum Ed.

Almennt má segja um þessi lög að þau séu kannske helst til of ítarleg án þess að vera nægilega nákvæm. Hefði hiklaust verið til bóta ef þau væru styttri og kjarnyrtari. Ástæðan fyrir þessu er án efa sú, að margir aðilar þurftu að koma sinum sjónarmiðum að. Það hlýtur sífellt að vera spurning, þegar Alþ. setur lög, hvaða efni eigi að vera í löggjöfinni og hver eigi að vera í reglugerð löggjöfinni til stuðnings. Mér sýnist höfundar þessa frv. ekki hafa gætt þess sem skyldi að greina í sundur þetta tvennt.

Varðandi vinnubrögð félmn. vil ég segja að fundir voru fjölmargir og þangað komu margir aðilar boðaðir af n. til að gefa skýrslu og segja frá sínum sjónarmiðum, ekki síst vegna þeirra breytinga sem orðið höfðu á frv. í meðferð Ed. Samt sem áður tókst að ljúka nefndarstörfum á þeim örstutta — óvenjulega stutta — tíma sem n. hafði, aðeins tveimur virkum dögum.

Ég vil nota tækifærið og þakka hv. formanni félmn. fyrir hvernig hann vann að þessu máli og stóð við sitt og hélt nefndarmönnum við efnið, því að eins og hér hefur verið áður bent á hefur það aldrei verið ætlun nokkurs aðila að tefja fyrir þessu máli með þeim aðferðum að stunda ekki eðlileg þingstörf, heldur hefur meginkrafan verið sú, eins og margoft hefur verið sagt, að þetta mál fengi eðlilega meðferð og þinglega hér á hv. Alþingi.

Eitt er það þó sem hugsanlega skyggir á nefndarstarfið þegar talað er um vinnubrögð í þessu sambandi. Ekki tókst, þrátt fyrir tilmæli nefndarmanna í félmn. Nd., að efna til samstarfs við nefndarmenn í félmn. Ed., sem aðallega stafaði af því, að sú n. var þá þegar búin að vinna gífurlega mikið starf og óvíst var að fullt gagn væri að slíku samstarfi.

Ég mun hér á eftir í framsöguræðu minni rekja nokkur atriði: fyrst segja frá meginstefnu Sjálfstfl., síðan fjalla um stærstu ágreiningsatriðin, nefna þá örfá atriði úr umsögnum sem komu til Ed. og það sem kom fram á fundum nefndarinnar og loks lýsa betur nál. og brtt. sem ég flyt ásamt hv. þm. Steinþóri Gestssyni.

Meginstefna Sjálfstfl. í húsnæðismálum, eins og hún kom fram á landsfundi flokksins vorið 1979, er svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Grundvallarstefna Sjálfstfl. í húsnæðismálum er að sérhverri fjölskyldu verði gert kleift að eignast og búa í eigin húsnæði. Árangur þessarar stefnu er m. a. sá, að óvíða er hlutfall eigin íbúða jafnhátt og hér á landi. Á undanförnum árum hefur hins vegar svonefndri leiguíbúðastefnu vaxið fiskur um hrygg og virðist sú stefna njóta verulegs fylgis hjá núv. stjórnarflokkum.“ — Ég skýt því inn að þar er átt við vinstri stjórnina síðustu, þótt auðvitað sjáist ekki munur á stefnu hennar og stefnu núv. ríkisstj. Og held ég nú áfram lestrinum. — „Landsfundurinn telur nauðsynlegt að sporna gegn þessari stefnu, en að það verði best gert með því að Sjálfstfl. leggi sjálfur fram frv. til laga um húsnæðismál í samræmi við stefnu flokksins. Þess vegna felur landsfundurinn miðstjórn flokksins að skipa hið allra fyrsta nefnd til að semja slíkt frv., sem lagt verði fyrir Alþ., og verði þar lögð sérstök áhersla á eftirtalin atriði.“

Það skal tekið fram sem innskot, að Sjálfstfl. vann að þessum málum. Ég þekki til þess, að sum atriði og þau sem kannske eru mest til bóta í þessu frv. eru m. a. komin frá þeim mönnum sem sjálfstæðismenn fengu til liðs við sig til að koma fram með sjónarmið í húsnæðismálum. — Áfram heldur lesturinn og tek ég þá til við eftirfarandi áhersluatriði:

„1. Tekin verði upp stofnlán, þannig að fyrsta íbúð í eigu fjölskyldu fái lán allt að 80% byggingarkostnaðar. Þetta grundvallarsjónarmið verði einnig látið ná til kaupa á eldri íbúðum og einnig verði lán til viðhalds og endurhæfingar á eldri íbúðum aukin og látin ná til fleiri aðila.

2. Hlutverk Húsnæðismálastofnunar ríkisins verði endurmetið í samræmi við grundvallarsjónarmið Sjálfstfl. Tæknideild stofnunarinnar verði lögð niður, en þó haldi stofnunin áfram eftirlits- og leiðbeiningarhlutverki.

3. Komið verði á samvinnu milli Húsnæðismálastofnunar ríkisins annars vegar og banka og sparisjóða hins vegar um að þessir aðilar taki að sér viðskiptahlutverk stofnunarinnar og greiði út lán til viðskiptamanna sinna í samræmi við byggingarhraða.

4. Tryggja þarf nægilegt og samfellt framboð á hentugum byggingarlóðum og gera byggingariðnaðinum kleift að þróast í það að verða framleiðsluiðnaður.

5. Bygging hagkvæmra íbúða hvað snertir verð og gæði verður best tryggt með samkeppni byggingaraðila. Forsenda framfara í byggingariðnaði er öflug rannsóknarstarfsemi og ber því að leggja áherslu á eflingu hennar.“

Hér lýkur tilvitnun í meginstefnu Sjálfstfl., eins og hún birtist á landsfundi flokksins fyrir um það bil einu ári. Af þessum upplestri sést hvað hefur verið tekið til greina í núv. frv. og á hvað vantar til þess að sjónarmið sjálfstæðismanna nái fram að ganga.

Megináherslan hvílir á því í fyrsta lagi að sem flestir séu íbúðareigendur. Við teljum það vera þjóðhagslegt, það dreifir eignum, dreifir fjármunum og valdi, og það er ljóst að eigendur íbúða fara betur með sína eign en leigjendur sem leigja hjá opinberum aðilum eða hálfopinberum aðilum, eins og reynslan sannar erlendis.

Í öðru lagi viljum við sjálfstæðismenn reyna að koma sem mest í veg fyrir að hér verði í gangi tvöfalt kerfi, þannig að það leiði til húsnæðislegrar stéttaskiptingar í landinu. Við teljum að almennt markaðsverð eigi að ráða í húsakaupum og kostnaði. Við viljum því gera almenna byggingarsjóðinn sterkan þannig að hann geti lánað mikið til langs tíma á viðunandi kjörum. Hins vegar viljum við halda félagslega þættinum í ákveðnu lágmarki, en þannig þó að hann verði nægilega sterkur til að gera fullt gagn fyrir þá sem þurfa á slíkum styrk að halda.

Þá teljum við að Húsnæðismálastofnunin sé fyrst og fremst lánastofnun og ráðlegginga og leiðbeininga, en ekki hönnunar- og teiknistofnun. Mér er að vísu ljóst að frv. hefur tekið þeim breytingum, að tæknideildinni er ekki ætlað nákvæmlega sama hlutverk og á vissum stigum málsins var farið fram á. En við viljum, að öll hönnunarstarfsemi fari út, og bendum á að í dag eru fyrir hendi hjá ýmsum aðilum týputeikningar, sem almenningur getur fengið á jafnhagstæðu verði og hjá Húsnæðismálastofnun, og þær eru ekki síðri að gerð og gæðum. Við teljum að Húsnæðismálastofnunin ætti frekar að örva slíka starfsemi, m. a. með samkeppni, eins og gert er ráð fyrir í lögunum. Hönnun Húsnæðismálastofnunar hefur hindrað og hindrar enn í dag eðlilega þróun í tækniþjónustu úti á landsbyggðinni. Við teljum að það sé enn fremur ákaflega óeðlilegt að sami aðilinn vinni þetta hönnunarstarf og hafi með eftirlit að gera hjá sjálfum sér.

Þegar litið er á það frv. sem hér er til umr. er alveg ljóst að fjölmörg atriði í því eru til bóta. Þau atriði hafa reyndar verið talin upp af ýmsum aðilum, þ. á m. ráðh. og frsm. meiri hl., og ég sé enga ástæðu til annars en að taka undir að margt í þessu frv. er til stórbóta. Sérstaklega eru það þó tvö atriði sem ég vil nefna: annars vegar að unnið hefur verið að sameiningu á löggjöf um húsnæðismál, þannig að nú liggur hún fyrir í einu lagi, og hins vegar hafa orðið breytingar á vaxtakjörum sjóðsins, sem ég tel vera spor í rétta átt. En fjölmörg atriði teljum við sjálfstæðismenn að betur mættu fara. Ég ætla að rekja í örfáum atriðum þau sem við teljum vera stærst í því sambandi.

Í fyrsta lagi, og það hefur raunar komið fram hjá öllum frsm., teljum við að fjármögnun sjóðsins hvíli á afar veikum grunni. Við teljum alveg tilgangslaust að tala um 80% lán og ný verkefni ef ekki kemur til afar mikil fjárfesting til viðbótar því sem sjóðurinn hefur haft hingað til.

Þá bendum við á að breytingarnar í Ed. hafa kollvarpað fyrri hugmyndum um framkvæmdamátt sjóðsins á næstu árum. Það er þess vegna sem félmn. bað um nýjar upplýsingar hjá Þjóðhagsstofnun. Þær eru væntanlegar í næstu viku, eins og ég hef sagt áður.

Sem dæmi um, hvaða áhrif slíkar breytingar hafa, vil ég vísa til greinar sem birtist í Morgunblaðinu í dag og sýnir þetta mál eins og það horfir við kaupendum íbúðanna. Þessi grein er eftir Ólaf Jensson. Hann segir þar m. a., með leyfi forseta:

„Eftirfarandi tvö dæmi um greiðsluskilyrði af húsnæðismálastjórnarlánum eru miðuð við þessar forsendur:

1. 80% lán af byggingarkostnaði tveggja íbúða, sem kosta annars vegar 20 millj. og hins vegar 15 millj. kr. 2. Reiknað er með að á fyrsta ári greiðist ekki afborgun.

3. Lánin eru fullverðtryggð og aðeins 2.25% ársvextir.

4. Miðað við verðlag 1979.“

Hér lýkur lestrinum og ég rek annað efnislega: Sé lánstíminn 21 ár verður ársgreiðslan rúm milljón. Sé hins vegar lánstíminn 36 ár er ársgreiðslan 665 400. Þetta er um íbúð sem kostar 20 millj. og lán sem yrði 16 millj. Af þessu sést hve gífurlegur munur það er fyrir þann sem kaupir ef lánstíminn lengist, og það er það sem gerðist í Ed. Þess vegna viljum við fá frekari útreikninga, eins og hv. frsm. 1. minni hl. benti rækilega á í máli sínu.

Stóra spurningin í þessu máli, sú spurning sem ríkisstj. verður að svara áður en þing fer heim, er þessi: Hvað ætlar ríkisstj. að útvega mikið fjármagn og hvernig? Við sjálfstæðismenn leggjum áherslu á það líka, að það verði gert með föstum tekjustofni, og höfum lagt til að launaskatturinn, sá skattur sem var búinn til til þess að hann gæti runnið til húsnæðismála, verði nýttur sem fastur tekjustofn til þeirra mála. Til að nefna einhverjar upphæðir má geta þess, að gert var ráð fyrir því, áður en frv. breyttist, að það vantaði 10 milljarða kr. á verðlagi 1978. Eitt prósentustig launaskatts má gera ráð fyrir að skili a. m. k. 5 milljörðum kr. Ég nefni því hér upphæðir sem skipta máli.

Í raun og veru ætti ég ekki að rifja upp sáttmála ríkisstj., það stæði öðrum nær, en í þeim sáttmála kemur fram að á árunum 1980–1981, þ. e. nú í ár og á næsta ári, ætli ríkisstj. að tryggja 5–7 milljarða sem eigi að renna m. a. til byggingar verkamannabústaða og íbúða á vegum sveitarfélaga og byggingarsamvinnufélaga. Ég hef ekki séð neina fjármuni koma á móts við þetta á yfirstandandi ári. Það má vera að hægt sé að túlka þessa yfirlýsingu í stjórnarsáttmálanum þannig, að það eigi að gerast á næsta ári. Um það verða að koma skýrari yfirlýsingar en hingað til hafa fengist frá hæstv. ríkisstj.

Annað atriði, sem sjálfstæðismenn leggja áherslu á að þurfi að breytast, er stjórn sjóðsins. Með breytingu, sem gerð var í hv. Ed., gera lögin nú ráð fyrir að Alþýðusamband Íslands eigi rétt til tilnefningar tveggja manna í stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins. Þetta er samkv. kröfu Alþýðusambands Íslands og stutt rökum, sem koma fram í umsögn Alþýðusambandsins, svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Frv. gerir ráð fyrir, að báðir byggingarsjóðirnir séu undir einni stjórn, húsnæðismálastjórn, og mæla augljóslega ýmis rök með þeirri tilhögun þótt fleiri leiðir komi þar vafalaust til álita. Alþýðusambandið getur þó engan veginn fallist á þá tilhögun, að húsnæðismálastjórn verði eingöngu skipuð þingkjörnum fulltrúum stjórnmálaflokka, og hlýtur sem fyrr að gera þá eindregnu kröfu, að Alþýðusamband Íslands verði með beinni aðild að stjórn veðlánakerfisins gert kleift að hafa áhrif á framkvæmd mála, sérstaklega að því er félagslega þátt íbúðalánakerfisins varðar.“ — Ég endurtek: „sérstaklega að því er félagslega þátt íbúðalánakerfisins varðar. Þessi krafa er studd þeim almennu og augljósu rökum, að húsnæðismálin eru og hljóta að verða snar þáttur í kjaramálum launafólks og skiptir því framkvæmd þeirra miklu máli fyrir afkomu launþega ekki síður en kjaramálin í þrengri merkingu. Þetta sjónarmið hefur reyndar verið viðurkennt af stjórnvöldum í sambandi við gerð kjarasamninga á undanförnum árum.

Í þessu sambandi skal tekið fram, að Alþýðusambandið telur þá tilhögun samráðs, sem gert er ráð fyrir í 36. gr. frv., eins og það var í upphafi, alls ófullnægjandi og raunar ekki í neinu samræmi við stefnumótun fyrrv. ríkisstj., sem birt er sem fskj. með frv. á bls. 45 undir rómverskum II.

Með hliðsjón af framansögðu gerir ASÍ að tillögu sinni að 1. mgr. 3. gr. frv. verði breytt þannig:

Stjórn Húsnæðismálastofnunar ríkisins, húsnæðismálastjórn, skipa sjö menn, fimm kosnir hlutbundinni kosningu af Sþ. að afstöðnum alþingiskosningum og tveir skipaðir af félmrh. eftir tilnefningu Alþýðusambands Íslands. Varamenn skulu kjörnir og skipaðir á sama hátt.“

Eins og menn muna var gert ráð fyrir nokkurs konar samráði eða samráðsaðild Alþýðusambandsins í upphaflegu lagafrv. Í umsögn Alþýðusambandsins er vísað til fskj. og það byggir sjónarmið sín á yfirlýsingu sem þar kemur fram. Ég ætla að lesa þessa yfirlýsingu. Hún er dags. 6. sept. 1979, undirrituð af Guðmundi Vigfússyni, Þráni Valdimarssyni og Georg H. Tryggvasyni. Þar segir um þetta atriði:

„Byggingarsjóðirnir verði sjálfstæðir, en með aðild að þessu heildstæða lánakerfi undir sameiginlegri stjórn. Af ýmsum ástæðum þykja rök standa til þess að fulltrúum ASÍ og BSRB sé gefinn kostur á að fylgjast með og hafa áhrif á ákvarðanatökur innan félagslega veðlánakerfisins.“

Þetta get ég ekki fengið til að ganga upp. Mér sýnist að tilvitnunin, sem getið er, í umsögn Alþýðusambands Íslands sé á einhverjum misskilningi byggð. Eftir sem áður skal ég viðurkenna að viss rök hníga til málstaðar þeirra. En það, sem skiptir mestu máli, er að það er ekkert sem bendir í þessu til þess, að um loforð stjórnvalda hafi nokkurn tíma verið að ræða um beina stjórnaraðild að Húsnæðisstofnun ríkisins. Þvert á móti tel ég að óeðlilegt sé að ein samtök, þótt merk og stór séu, njóti þeirra fríðinda eða forréttinda að tilnefna beint í stjórn sem er þingkjörin að öðru leyti.

Sem rök í því máli víl ég nefna að slík tilnefning getur leitt til þess, að um breytingu verði að ræða á pólitískum hlutföllum í slíkri sjóðsstjórn, og skiptir þá engu máli hvort þeir menn, sem tilnefndir eru af stjórn slíkra samtaka, eru úr sama flokki eða ekki, því að þannig getur verið að þeir séu t. d. báðir úr stjórnarandstöðu á þeim tíma og myndi þannig meiri hl. með minni hl. alþm. og nái þannig fram sínum áhugamálum, sem er tiltölulega auðveldara í því kerfi, sem verið er að setja upp, heldur en áður þar sem stjórnin hefur meiri völd en þá var. Mér finnst óeðlilegt að Alþ. framselji þannig vald sitt. Spyrja má: Af hverju ættu þá ekki aðrir að eiga aðild að húsnæðismálastjórninni með sömu rökum, t. d. Vinnuveitendasamband Íslands, sem er samningsaðili? Þetta hefur mikla þýðingu fyrir Vinnuveitendasambandið þar sem húsnæðismál eru venjulega hluti af kjarasamningum á hverjum tíma. Það er ljóst að Alþýðusambandið samdi við vinnuveitendur um þann skatt sem til skamms tíma hefur verið fastur tekjustofn húsnæðismála. Það er ekki óeðlilegt að annar viðsemjandinn vilji hafa áhrif fyrst hinn fær þau. — Í öðru lagi má nefna samtök byggingaraðila og í þriðja lagi sveitarstjórnir, sem vissulega hafa verulegra hagsmuna að gæta.

Þá má og geta þess, að um það eru skiptar skoðanir hvernig veljist í miðstjórn Alþýðusambands Íslands og að hve miklu leyti það val spegli raunverulegan vilja þessarar stóru og voldugu hreyfingar.

Á þskj. 255, sem er 137. mál þingsins, fluttu nokkrir sjálfstæðismenn undir forustu Péturs Sigurðssonar till. til breytinga á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, þar sem gert er ráð fyrir að stærstu stéttarfélögin, sem hafi félaga yfir 300, verði að láta fara fram hlutfallskosningar innan félaganna. Þetta er auðvitað stutt þeim rökum, að þessi lýðræðishefð er í þjóðfélaginu og í langflestum félögum viðhöfð.

Gagnrýni hefur komið á þetta þess efnis, að hér sé löggjafarþingið að skipta sér af innri málefnum Alþýðusambands Íslands. Ég spyr á móti: Ef Alþýðusamband Íslands á að njóta forréttinda, t. d. að geta tilnefnt í stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins, kemur þá ekki hv. Alþ. við hvernig miðstjórn þessa sambands er valin?

Því miður hefur þetta mál strandað hjá hv. félmn. vegna þess að það var sent til umsagnar með þeim hætti að ekki er hægt að gera ráð fyrir að umsagnir berist fyrir þinglok. En það er merkilegt, að í umræðum á nefndarfundi kom í ljós að gera má ráð fyrir að þessi till. hafi yfirgnæfandi meirihlutafylgi hér á hv. Alþingi. Til þess að nefna stuðningsmenn þessarar till. vil ég geta þess, að hæstv. forsrh. flutti till. nákvæmlega sama efnis á næstliðnu Alþingi Íslendinga, en þá náði till. ekki fram að ganga.

Ég skal viðurkenna að verði gerðar breytingar á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur með þessum hætti horfa málin að sjálfsögðu að nokkru leyti öðruvísi við en nú. Menn verða að átta sig á því, að Alþýðusambandið og verkalýðsfélögin njóta forréttinda í íslensku þjóðfélagi. Það er nánast — ég sagði nánast — skilyrði að vera í stéttarfélagi, þannig að menn eru nánast jafnbundnir því að ganga í stéttarfélag og þeir eru fæddir inn í þjóðfélagið. Þess vegna hljótum við að gera sömu lýðræðiskröfur til þessara stéttarfélaga og við gerum í þjóðfélaginu í heild. Allt öðru máli gegnir um félög sem menn ganga í af fúsum og frjálsum vilja. Þetta vil ég hreinskilnislega láta koma hér fram sem mín viðhorf í þessu máli.

Annar stjórnunarþáttur í frv. er um stjórn verkamannabústaðanna. Þar er verkalýðsfélögum tryggð aðild með þeim hætti að nánast er allt vald tekið af sveitarfélögunum. Við sjálfstæðismenn flytjum brtt. um þetta og teljum að meira forræði eigi að vera hjá sveitarfélögunum, en viðurkennum að sjálfsögðu að þarna er eðlilegt að um aðild verkalýðsfélaga sé að ræða, þótt við bendum á að undir vissum kringumstæðum hlýtur það að koma einkennilega út þegar BSRB á að skipa í litlum hreppum úti á landi sinn fulltrúa, sem hlýtur þá annaðhvort að verða prestur eða læknir, en þeir eru jafngildir. — Ég nefni þetta í gamni.

Þriðja gagnrýnisatriðið, sem ég vil nefna varðandi frv., er að því skuli vera slegið föstu að þriðjungurinn af fjármagninu eigi að ganga til félagslegra byggingarframkvæmda. Mér er ljóst að hér er gamalt loforð á ferðinni og auðvitað verður að taka tillit til þess. En hvað er félagslegt í þessu sambandi? Hvernig ber að skilja þetta hugtak sem er svo vinsælt um þessar mundir? Eru ekki öll húsnæðismál félagslegs eðlis? Má ekki segja að allt fjárframlag til húsnæðismála sé félagsmál og allar byggingarframkvæmdir, sem fara í gegnum húsnæðismálastjórn, séu félagslegs eðlis? Ég hef velt þessari spurningu fyrir mér og mér þætti athyglisvert ef hæstv. félmrh. gæti orðið mér að liði. Ég hefði frekar getað hugsað mér að þegar talað er um félagsleg viðhorf í þessu sambandi sé verið að hugsa um þá sem í raun og veru hafa ekki bolmagn til þess að eignast húsnæði að neinum leiðum öðrum en þeim að njóta sérstakra fríðinda til þess. Ég held að þeir séu færri en þarna er gert ráð fyrir. Ég vil að það sé gert mjög vel við það fólk. Ég tel hins vegar sjálfsagt að almenni sjóðurinn, eins og ég hef sagt áður, verði stækkaður og öllu venjulegu launafólki verði gert kleift að eignast eigið húsnæði með því að fá lán úr hinum almenna sjóði.

Næsta atriði, sem ég vil nefna, er tæknideildin, sem ég hef örlítið gert að umtalsefni áður. Ég nefndi þá, að við vildum hönnunarþáttinn út úr frv. og við teldum að tæknideildin væri í óeðlilegri samkeppni við einkareksturinn. Ég bendi á að fyrir liggur skýrsla um Húsnæðismálastofnun ríkisins og úttekt á starfi tæknideildarinnar. Eftir lestur hennar er augljóst að það er útilokað að einangra vissa kostnaðarþætti í tæknideildinni. Þess vegna er alltaf viss hætta á því, að teikningar, sem tæknideildin lætur gera, séu ekki á eðlilegu verði. Ástæðan er einfaldlega sú, að mikið af ráðgjafarþjónustunni fer fram í gegnum síma og það er ómögulegt að skipta upp kostnaði tæknideildarinnar í þá þætti, sem gert er ráð fyrir, og engin leið að hafa eftirlit með slíku.

Loks vil ég nefna gildistökuna. Ég tel að það sé óþarfi að gildistakan eigi sér stað fyrr en um næstu áramót, enda ekki séð að nokkrir fjármunir komi í sjóðinn fyrr en um áramót.

Ég skal ekki fjölyrða mjög um önnur ágreiningsefni, en tek nokkur sem dæmi.

Í fyrsta lagi tel ég að ákvæði um markmið laganna, eins og því er lýst í frv., sé óþarfi og nánast sýndarmennska. Í öðru lagi sýnist mér heldur óklárt um svokallað lántökugjald. Þar hefur fallið niður sem tekjustofn 1%, eins og það var í gömlu lögunum, en samt er gert ráð fyrir að einhvers konar lántökugjald sé tekið upp hjá þeim stofnunum sem annast afgreiðslu fyrir Húsnæðisstofnun og sé það þá samningsatriði hverju sinni. Þetta atriði finnst mér ekki hafa komið nægilega skýrt fram og vil þess vegna biðja hæstv. félmrh. um að skýra það atriði í einstökum framkvæmdaratriðum. Ég endurtek: Það var um lántökugjaldið.

Í þriðja lagi vil ég benda á réttinn til kaupa, eins og honum er lýst í 45. gr. Hann er heldur óeðlilegur, að mínu viti, enda eru ýmsar breytingar sem gætu komið þar inn.

Í fjórða lagi mætti taka ákveðnar á skyldusparnaðarkaflanum. Skal ég þó fyrstur manna viðurkenna að þarna er um framfaraspor að ræða, en það þarf að koma skýrar fram hvernig framkvæmdin á að vera og hverjir falla undir þetta kerfi.

Þá tel ég að deildaskiptingin sé óþörf og leiði einungis til þess að smíðað sé bákn í þessari stofnun sem á að geta verið tiltölulega einföld að gerð.

Nafnbreytingin er ekki stórmál, en til lýta.

Það hefði verið æskilegt að geta fjallað hér um nokkur þau atriði sem komu fram í umsögnum og viðtölum fjölmargra aðila sem n. talaði við. Þar komu fram fjölmargar athugasemdir. Vegna þess að ég veit að fleiri vilja komast að á þessum fundi mun ég aðeins stikla á langstærstu athugasemdunum, en nefna þær sem mér finnst að þyrfti að taka tillit til.

Stjórn verkamannabústaðanna í Reykjavík gagnrýndi mjög þann þátt sem snýr að verkamannabústöðunum. Ég vil ekki vera að þreyta hv. þdm. með upplestri úr umsögn þeirra, en snúa mér að umsögn frá húsnæðismálastjórninni.

Það kom fram í viðtali við stjórnina, þegar hún kom á fund n., að hún leggur mikla áherslu á að Byggingarsjóðurinn hafi fasta tekjustofna. Þá kemur það glöggt fram í umsögn húsnæðismálastjórnar um beina aðild Alþýðusambandsins, að hún er andvíg slíkri aðild, en klofnaði í sex gegn einum. Það var aðeins fulltrúi Alþb. sem var fylgjandi þeirri hugmynd.

Í aths. einstakra manna koma fram merkileg viðhorf og vil ég sérstaklega nefna fulltrúa veðdeildarkerfisins. Þar vil ég enn ítreka spurningar mínar til hæstv. ráðh. um hvernig hann hugsar sér framkvæmd á þeim málum. Guðmundur Gunnarsson, sem kom á fund n., lagði á það áherslu að gera þyrfti könnun á því, hvaðan fjármagn kæmi til íbúðabygginga í dag og hvar fjármagn losnaði ef um breytt kerfi verður að ræða og fjármagns aflað eins og gert er ráð fyrir í hugmyndum ríkisstj. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðh. hvort unnið sé að slíkum athugunum eða hvort það sé á áætlun félmrh.

Í umsögn Vinnuveitendasambandsins koma fram nokkur meginatriði sem ég tel ástæðu til að lesa, enda er þar um stuttan lestur að ræða.

Fyrst vil ég þó geta þess, að fulltrúi vinnuveitenda, sem kom á fund n., Þorsteinn Pálsson, taldi að ef Alþýðusambandið ætti að fá beina aðild að húsnæðismálastjórn teldi Vinnuveitendasambandið og stjórn þess augljóst mál að Vinnuveitendasambandið mundi krefjast hins sama þar sem húsnæðismálin eru svo mikilvægt tæki í kjarasamningum sem raun ber vitni. Í umsögn Vinnuveitendasambandsins segir orðrétt, með leyfi forseta:

„VSÍ telur frv. í heild til bóta miðað við gildandi lög. Þó eru í frv. ýmis efnisatriði sem betur mættu fara. Vill VSÍ í því sambandi einkum nefna eftirfarandi:

Að mati VSÍ er síður en svo til bóta að deildaskipta stofnunni, svo sem gert er ráð fyrir í frv. Húsnæðismálastofnun er í samræmi við verksvið sitt ein heild, þótt ákveðin innbyrðis starfsskipting sé að sjálfsögðu nauðsynleg.

Engin ástæða er til að Húsnæðismálastofnunin reki teiknistofu í samkeppni við hönnuði á almennum markaði.

Þótt hér sé ekki gengið nógu langt að því marki að koma lánshlutfalli í 80% sem fyrst er engan veginn tryggt að fjármagn sé fyrir hendi í þessa hægfara aukningu.

Ekki á að binda afgreiðslur við aðeins eina lánastofnun.

Ef launþegasamtök eiga að geta komið fram sjónarmiðum sínum með aðstoð samstarfsnefndar og framkvæmdastjórnar verkamannabústaða er eðlilegt að samtök atvinnurekenda fái aðild að þeim stofnunum.

Lánstíminn í frv. er almennt of stuttur miðað við að frv. gerir ráð fyrir að öll lán verði að fullu vísitölutryggð.“ Síðan gerði Vinnuveitendasambandið aths. við fjölmargar greinar frv., sem ég hirði ekki að lesa.

Samband sveitarstjórna lagði fyrst og fremst áherslu á að forræði sveitarstjórna héldi áfram og það væri ekki tekið af þeim með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í frv., eins og það breyttist í Ed.

Verktakasambandið kom á fund. Þeir lögðu áherslu á að tæknideildin yrði lögð niður, en Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins gæti unnið að þeim málum sem ætluð væru tæknideildinni. Þá töldu þeir of lítið hugsað um verktakaiðnaðinn, sem er ákaflega veikur, m. a. vegna þess, hvernig að opinberum framkvæmdum er staðið hér á landi, en stærstu ríkisfyrirtækin, sem standa að opinberum framkvæmdum, haga málum sínum þannig, að milli 80 og 90% af framkvæmdamagninu er unnið á vegum þeirra fyrirtækja beint, en aðeins lítill hluti af verktökum. Sé síðan um einhvern samdrátt að ræða leiðir hann til þess að verktakarnir hafa ekkert að gera, en hinir, þ. e. opinberu aðilarnir, hafa sitt á þurru. Þetta hlutfall þarf að snúast við ef hér í landinu á að vaxa upp verktakaiðnaður sem skili sér að einhverju gagni og skili bættum lífskjörum.

Þá benda þeir á það hjá Verkatakasambandinu, að hugsanlegt sé að þeir ættu að fá aðild að lánakerfinu, þó ekki væri nema vegna þeirrar þekkingar sem þeir hafa á byggingum.

Það var athyglisvert, sem kom fram hjá þeim sem mætti á nefndarfund frá Verktakasambandinu, að þegar hann benti á, hvílík goðsögn það væri að félagslegar byggingar væru eitthvað ódýrari en aðrar byggingar, afhenti hann nefndinni blað, Víkurblaðið, sem gefið er út á Húsavík, frá föstudeginum 28. mars 1980, þar sem Húsavíkurkaupstaður er að auglýsa íbúðir til sölu í fjölbýlishúsum. Þar kemur í ljós að tveggja herbergja íbúðir eiga að kosta 25.5 millj. á verðinu frá 1. mars og þriggja herbergja íbúðir 32.8 millj. Ég staðhæfi að þetta verð, sem þarna er nefnt, er ekki undir — og kannske yfir — almennu markaðsverði. Þetta nefni ég sérstaklega vegna þess að stundum er því haldið á loft að markaðsverð í dag sé óraunverulegt miðað við byggingarkostnað. Ég get fallist á að markaðsverð á fasteignum sé hátt, en það er fyrst og fremst hátt vegna þess að rangt hefur verið staðið að húsnæðismálum og húsbyggingarmálum hér á landi.

Ég vil leggja sérstaka áherslu á næstu umsögn, sem er frá Meistarasambandi byggingarmanna, vegna þess að sá, sem undir hana ritar, er sá maður sem tilnefndur var af þeim sjálfstæðismönnum sem studdu ríkisstj. til að vinna að endanlegri endurskoðun frv. Á þetta legg ég sérstaka áherslu til að sýna hvað það var, sem hann lagði áherslu á, og hvaða atriði það eru, sem þeir aðilar í Sjálfstfl., sem styðja ríkisstj., kostuðu kapps um að fá inn í endurskoðunina. Í fyrsta lagi bendir Gunnar S. Björnsson á, að það sé ekki til bóta að skipta stofnuninni í þrjár deildir. Í öðru lagi, að ekki sé rétt að leggja áherslu á sjálfstæða teiknistofu. Í þriðja lagi, að ekki sé gengið nógu langt í því að koma lánahlutfalli upp í 80% og ekki sé heldur nægilega vel séð fyrir fjármögnun kerfisins. Í fjórða lagi, að ekki eigi að binda afgreiðslu við eina lánastofnun. Í fimmta lagi, að lánstími, eins og hann kemur fram í upprunalega frv., sé allt of stuttur og þurfi að lengjast um minnst 10 ár. Og í sjötta lagi, að það sé eðlilegt að sveitarfélög og atvinnurekendur eigi í stjórninni fulltrúa á svipaðan hátt og launþegar. Þetta eru sex atriði sem hann leggur áherslu á. Eitt atriðið er í frv., eins og það lítur út núna, og er það að sjálfsögðu til bóta.

Að lokum vil ég nefna í sambandi við það sem fram kom í umsögnum, að BSRB lagði sérstaka áherslu á að lán yrðu jafnhá til kaupa á eldra íbúðarhúsnæði og til nýbygginga.

Ég þarf ekki að fjölyrða um það nál. sem liggur fyrir á þskj. 609. Ég bendi þó sérstaklega á 3. mgr., þar sem segir frá ósk n. um frekari útreikninga frá Þjóðhagsstofnun. Báðir frsm., bæði frsm. meiri hl. og eins frsm. 1. minni hl., skýrðu rækilega frá því máli og ég sé ekki ástæðu til að endurtaka það sem þar kom fram, en hv. frsm. voru báðir sammála um að fjármögnunin væri veikasti hlekkurinn í þessu öllu saman og eftir breytingarnar, sem gerðar voru í Ed., sé um það að ræða að mikill munur sé á fjármagnsþörfinni frá því sem nú er. Þess vegna er beðið eftir nýjum útreikningum með óþreyju.

Á þskj. 610 gerum við hv. þm. Steinþór Gestsson nokkrar till. til breytinga á frv. Flestar þessar brtt. eru þær sömu og komu fram í hv. Ed. Við höfum þó ekki lagt fram brtt. um smærri framkvæmdaratriði, heldur reynt að taka þau atriði sem máli skipta. Mun ég nú gera örstutta grein fyrir þeim tillögum.

1. brtt. er um það, að í 1. gr. frv. komi orðið „fólks“ í staðinn fyrir „launafólks.“ Við sjáum ekki ástæðu til þess að það sé sérstaklega tekið fram í markmiði laganna, að fjármunum sé sérstaklega varið til að auka möguleika launafólks til að eignast húsnæði. Við teljum að slíkt hljóti að vera réttur allra, jafnt smáatvinnurekenda, atvinnurekenda og annarra sem kjósa að kalla sig annað en launafólk, og teljum að það sé óþarfi að orða greinina með þessum hætti.

2. brtt. er við 3. gr., en hún er um deildaskiptinguna. Við leggjum til að sú grein styttist í það, að húsnæðismálastjórn ákveði á hverjum tíma deildaskiptingu stofnunarinnar í stað þess að það sé lögbundið.

3. brtt. gerir ráð fyrir breytingum á stjórnunarþættinum sem ég hef áður í máli mínu gert rækilega grein fyrir. 4. brtt. er við 5. gr., um hlutverk stofnunarinnar. Við leggjum til að hún orðist eins og segir í 4. till. okkar og teljum það óþarfa sem kemur fram í nokkrum töluliðum í 5. gr. eins og hún er nú.

Þá er 5. brtt. Hún er við 9. gr. Þar er fyrst og fremst um það að ræða að 3.5% launaskattur verði fastur tekjustofn Byggingarsjóðs ríkisins.

6. brtt. er við 14. gr. og er um lánstímann. Við leggjum til að hann verði 30 ár.

Í 7. brtt. er gerð till. um breytingu á 37. gr. Þar vil ég biðja hv. þm. um að gera smáleiðréttingu. Það stendur í þskj. undir c-lið: „Með framlagi hlutaðeigandi sveitarfélags sem skal nema 30%.“ Hér er um prentvillu að ræða. Þetta á að vera 20%. Mun ég láta prenta þskj. upp.

Og loks um d-liðinn. Hann er styttur og aðeins nefnt „með lántöku.“ Er það breyting á orðalagi.

8. brtt. skýrir sig sjálf og hefur verið margrædd og ég hef áður gert grein fyrir henni. Þar er líka um að ræða villu. Stendur nú, með leyfi forseta, í brtt.: „Í þeim sveitarfélögum sem vilja,“ en á að vera: Í þeim sveitarfélögum sem ákveða að bæta úr o. s. frv.

Í 9. brtt. er gert ráð fyrir að koma í veg fyrir að um sé að ræða beina skyldu í sambandi við verkamannabústaði og félagslega þáttinn og er liður í því að auka forræði sveitarfélaganna.

10. brtt. er grundvölluð á því, að þar sé um að ræða reglugerðaratriði sem ekki sé hægt að festa hendur á í lögum til langs tíma, enda má gera ráð fyrir að um tíðar lagabreytingar verði að ræða ef svo nákvæmlega á að tilfæra þessi atriði í lögum.

11. brtt. skýrir sig sjálf.

12. og 13. brtt. byggjum við á því, að þau atriði, sem þar er fjallað um, eigi betur heima í reglugerð.

Sú 14. er í þeim anda sem ég hef áður lýst um forræði sveitarfélaga, þar sem gert er ráð fyrir að sveitarstjórn ráðstafi þeim leiguíbúðum sem reistar eru á hennar vegum, en ekki, eins og er nú í lagafrv., að stjórn verkamannabústaða eigi að hafa fullt forræði á því verkefni.

Loks er breyting við 69. gr., sem fjallar um tæknideildina, og hún sett í það horf sem við teljum vera viðunandi, því að við höfum lagt á það áherslu í málflutningi okkar að engin ástæða sé til að efna til gífurlegrar deildaskiptingar Húsnæðisstofnunar. Byggist brtt. á því, að um slíka skiptingu sé að ræða, en dregið úr því sem við köllum hönnunarþætti tæknideildarinnar.

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan mun ég ekki gerast margorður um atriði sem koma fram í nál. annarra hluta félmn. Einn þáttur er þó sammerktur öllum þeim nál. sem hér hafa verið til umr. Það varðar fjármögnunina. Það er augljóst að á hana hefur n. lagt mesta áherslu. Það er enn fremur hverjum deginum ljósara, að hæstv. ríkisstj. verður að gefa betri og klárari svör en hún hefur hingað til gefið um þennan þátt. Telji hún sig geta áttað sig á hvað hann er mikilvægur verður þingið að hinkra eftir nýjum útreikningum. Þeir útreikningar munu koma snemma í næstu viku, þannig að nægur tími gefst í næstu viku eða á næstu vikum til að fjalla um þau atriði, enda liggur ekki á því að frv. sé afgreitt fyrr en í næstu eða þar næstu viku því að ekki er gert ráð fyrir að gildistaka sé fyrr en 1. júlí.

Ég vona að í ræðu minni hafi mér tekist að koma til skila þeim sjónarmiðum sem Sjálfstfl. hefur lagt sérstaka áherslu á. Mér er ljóst að ég hef orðið að stikla á stærstu atriðunum, en hugsanlega gefst mér tækifæri seinna í umr. til að gera ítarlegri grein fyrir sjónarmiðum okkar.