28.05.1980
Efri deild: 104. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3143 í B-deild Alþingistíðinda. (3097)

180. mál, lánsfjárlög 1980

Frsm. 2. minni hl. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Þetta var fróðleg og ítarleg ræða hjá hv. frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (StJ: Hugsunin skýrist ekki við það að hafa mörg orð um hana.) Hann sagði að frv., sem við ræðum hér, til lánsfjárlaga væri í samræmi við meginmarkmið ríkisstj. í efnahagsmálum. Það má vera að svo sé. Alla vega sýnist mér þróunin vera sú, að hæstv. ríkisstj. hafi að meginmarkmiði í efnahagsmálum að magna hér á landi enn það mikla verðbólgubál sem brunnið hefur á mönnum undanfarin ár. En það er einkennandi fyrir þetta frv. og fyrir fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir 1980 að það verð er einmitt til þess að auka mjög á verðbólgu í landinu.

Megineinkenni frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1980 eru:

1. Heildarfjárfesting er aukin og áætluð 26,5% af þjóðarframleiðslunni.

2. Opinberar framkvæmdir aukast að magni til um 21.3%.

3. Samdráttur verður í heild á framkvæmdum á vegum atvinnuvega og einkaaðila.

4. Innlendar lántökur til opinberra aðila þrefaldast í krónutölu miðað við bráðabirgðatölur 1979.

5. Erlendar lántökur aukast um 39.2 milljarða kr. nettó eða 7% af áætluðum útflutningstekjum þrátt fyrir hagræðingu á tölum vegna frestunar á lántöku og greiðslu lána vegna ýmissa framkvæmda til 1981.

6. Greiðslubyrði erlendra lána verður á næsta ári samkv, bréfi Seðlabankans til fjh.- og viðskn. 18% af áætluðum útflutningstekjum. Þetta hlutfall var 13.3% 1978 og í málefnasamningi hæstv. ríkisstj. er talað um að stefnt skuli að því að þessi greiðslubyrði fari ekki fram úr 15% af útflutningstekjum.

Þegar þessir sex liðir eru hafðir í huga, að heildarfjárfesting eykst, að opinberar framkvæmdir stóraukast að magni til, að samdráttur verður í framkvæmdum á vegum atvinnuvega og einkaaðila, að innlendar lántökur þrefaldast að krónutölu til opinberra ráðstafana, að erlendar lántökur aukast úr hófi fram og að greiðslubyrðin eykst, eins og ég sagði hér áðan, er það dálítið merkileg umsögn hjá hv. frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. að halda því fram, að þetta sé í samræmi við meginmarkmið ríkisstj. í efnahagsmálum. Ég óska honum til hamingju með að hafa komist svo skemmtilega að orði.

Heildarfjárfesting opinberra aðila samkv. þessu frv. verður 126.5 milljarðar kr. og hækkar úr 72 milljörðum 1979. Er þar um að ræða 21.3% magnaukningu, eins og ég sagði áðan.

Lánsfjáröflunin er þannig, að það er gert ráð fyrir að hækkun lántöku í heild til opinberra framkvæmda verði 92.2%. Í fyrra var þessi lántaka 38.4 milljarðar kr., en er samkv. skýrslu, sem fylgir þessu frv., 73.8 milljarðar á þessu ári. Í krónutölu tvöfaldast því nánast lántaka til opinberra framkvæmda.

Það er athyglisverðast við þessar lántökur allar að gert er ráð fyrir að innlend lánsfjáröflun þrefaldist að krónutölu. Það er gert ráð fyrir því samkv. þessu frv. og lánsfjáráætluninni, að úr lífeyrissjóðum verði teknir hvorki meira né minna en 21.5 milljarður kr. til opinberra nota, og er það nýmæli í þessum lögum að nú er áætlað að ríkissjóður taki 6 milljarða kr. lán hjá lífeyrissjóðunum. Samtals er þessi lántaka hjá lífeyrissjóðunum til opinberra nota með þessari löggjöf hvorki meira né minna en 42% af öllu ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna. Í bankakerfinu er ætlunin að stórauka lántökur til opinberra þarfa samkv. þessu frv. Þar er sérstaklega gert ráð fyrir 3.9 milljarða kr. lántöku með verðbréfakaupum bankakerfisins. Er þar um að ræða stórfellda aukningu á lántökum á innlendum lánsfjármarkaði til opinberra nota, sem að sjálfsögðu mun þrengja mjög kost annarra, sem þurfa á lánsfé að halda, og alveg sérstaklega fjárfestingarlánasjóðanna og atvinnuveganna.

Maður skyldi ætla að þegar þessi áform liggja fyrir sé það upplýst að nú sé óhætt að stórauka innlenda lánsfjáröflun til opinberra nota á þessu ári vegna þess að sparifjármyndunin sé það mikil í landinu að óhætt sé að fara út í þessa fjáröflun. Það er hins vegar algjörlega þveröfugt. Sparifjáraukningin í ár er fyrstu þrjá mánuðina einungis 12.5%, en var í fyrra 18%. Á hinn bóginn hafa útlán aukist nú um 17.5% í samanburði við útlánaaukningu um 15.5% á s. l. ári. Munurinn á innlánum og útlánum í bankakerfinu er sem sagt gífurlegur á þessum fyrsta ársfjórðungi sem liðinn er. Í krónum er þar um að ræða að innlán hafa einungis numið núna rúmum 9 milljörðum kr., 9.3 milljörðum kr., en útlán hafa á sama tíma aukist um 16 milljarða kr. Bankakerfið hefur sem sagt lánað fyrstu þrjá mánuði ársins 7 milljörðum kr. meira en nam innlánsaukningunni. Í fyrravar innlánsaukningin 3 milljörðum kr. meiri en útlánin. Staða bankanna við Seðlabankann hefur þannig að þessu leyti versnað um rétta 10 milljarða kr. Það er 10 milljörðum kr. minna fé í bankakerfinu núna eftir fyrstu þrjá mánuði ársins en var í fyrra.

Þannig er nú ástatt um innlenda lánsfjármarkaðinn sem ætlun hæstv, ríkisstj. er að fara inn á með nýjum hætti og ná þannig til sín auknu fjármagni af sparifé landsmanna bæði úr lífeyrissjóðunum og bankakerfinu. Ástandið er þannig að þar er í rauninni engu til að dreifa. Það er meiri útlánaaukning það sem af er árinu en innlán og þess vegna sé ég ekki að þessi stefna fái staðist, þó að það dyljist engum, hver meiningin er með þessu. Hún er að sjálfsögðu sú að ná undir opinbera aðila meira af fjármagni á þessu sviði í viðbót við þær miklu skattahækkanir sem orðið hafa og menn hafa rætt hér og ekki þarf að fjölyrða um.

Það er athyglisvert að hæstv. ríkisstj. söðlaði nokkuð um, þegar þessi lánsfjáráætlun var til umræðu í ríkisstj., frá því sem gert var ráð fyrir þegar fjárlög voru afgreidd. Þá var gert ráð fyrir að tekin yrði 10 milljörðum kr. hærri fjárhæð en er samkv. frv. í erlendum lánum til opinberra framkvæmda. Fangaráð hæstv. ríkisstj. virðist hafa verið að draga ekki úr þessum framkvæmdum, draga ekki úr þeim og þar með lánsfjárþörfinni og þenslunni í landinu, heldur hefur hún brugðið á það ráð að hugsa sér að ná þessu fé á innlendum lánsfjármarkaði, sem þó er eins í stakk búinn til þess og ég sagði áðan. Ég fæ ekki betur séð en annaðhvort muni ske alveg á næstunni, annaðhvort kemst hæstv. ríkisstj. upp með þessa stefnu sína og tekur það litla fé, sem bankakerfið fær inn í aukningu sparifjár, og þá náttúrlega kemur það þannig niður á atvinnuvegunum að þeir hreinlega stöðvast, fá ekki rekstrarfé, eða þá að hér verður um það að ræða að lánsfjáröflunin verði meiri erlendis og að þessi lánsfjáráætlun, sem hér er til umr., bresti öll í böndum að því leyti. Það er mikið áhyggjuefni, ef sú skyldi verða framvindan, og erfitt að segja, hvor kosturinn er betri, því að nú stefnir í 16 milljarða kr. viðskiptahalla og stórauknar erlendar lántökur þrátt fyrir þau áform ríkisstj. sem ég lít fyrst og fremst á sem bókhaldsatriði, að fresta ýmsum lántökum fram á árið 1981 og fara út í fáránlega fjáröflun til opinberra umsvifa á innlendum lánsfjármarkaði.

Erlendar lántökur hækka gífurlega. Eins og ég sagði áðan er nettóhækkunin 39.2 milljarðar kr., en heildarhækkunin 85.5 milljarðar.

Mesta áhyggjuefnið í þessu efni er, hversu horfir með viðskiptajöfnuð, og eins líka, hvernig horfir um greiðslubyrðina. Greiðslubyrði erlendra lána var árið 1978 einungis 13.3% af útflutningstekjum, en er, eins og ég sagði áðan, 18% samkv. áætlun Seðlabankans á árinu 1981, þegar á að fara að greiða afborganir og vexti af þeim lánum sem tekin verða í ár. Hluti af þessari gífurlegu auknu greiðslubyrði stafar af hækkun á vöxtum og verri lánsfjárkjörum á erlendum mörkuðum, en verulegur hluti stafar af stórauknum erlendum lántökum, einkum síðustu tvö ár.

Það er athyglisvert, þegar talað er um greiðslubyrðina, að hæstv. ríkisstj. vill helst ekki leggja orðið þann mælikvarða á greiðslubyrði erlendra lána að meta þá byrði í hlutfalli við útflutningstekjur. Hún er að reyna að búa sér til nýjan og hagkvæmari mælikvarða í þessum efnum, en fyrrnefndi mælikvarðinn hefur raunar verið notaður um árabil og ekki þótt aðfinnsluverður, enda er að sjálfsögðu um að ræða mælikvarða sem er eðlilegur. Það er eðlilegt að gera sér grein fyrir því, hvað menn þurfa að borga mikið af tekjum í gjaldeyri, hvað þeir þurfa að borga af gjaldeyristekjum sínum í atborganir og vexti af erlendum lánum, og leggja þann mælikvarða á greiðslubyrðina. Aðra peninga höfum við ekki til að borga afborganir og vexti af erlendum lánum en gjaldeyristekjur okkar, nema við viljum taka ný og ný lán til að borga afborganir og vexti. Þess vegna er eðlilegt að leggja þennan mælikvarða á.

En geri menn sér grein fyrir því, að þessi greiðslubyrði er komin í 18% og er áætluð miðað við metafla, sem nú ríkir hjá okkur, og hæsta verð, sem við þekkjum á okkar afurðum, — geri menn sér grein fyrir því að þarna getur hvort tveggja að einhverju leyti brugðist hljóta menn að sjá að hér er um að ræða þróun sem er stórvarhugaverð, að ekki sé meira sagt, enda hefði hæstv. ríkisstj. ekki farið að setja í málefnasamning sinn að stefnt skuli að því að fara ekki fram úr 15% greiðslubyrði af erlendum lánum í hlutfalli af útflutningstekjum ef það væri ekki eðlilegt markmið. A. m. k. get ég varla skilið önnur rök fyrir því að setja slíkt inn í málefnasamning en að þar sé um eðlilegt markmið að ræða. Hæstv. ríkisstj. slær þó þann varnagla, að það þurfi að afla erlends fjár til ýmissa framkvæmda sem spari gjaldeyri og séu arðbærar, og ég get verið alveg sammála því. En það er við það að athuga, að að sjálfsögðu hljóta að vera takmörk fyrir því, hvað eðlilegt er að gera á því sviði og alveg sérstaklega þegar svo er ástatt, eins og er ástatt hér hjá okkur, að mjög mikil þensla hefur verið í atvinnulífinu og slíkar erlendar lántökur hljóta mjög að auka á þensluna sem fyrir er, fyrir utan það að auka greiðslubyrðina.

Það er ekki síður athyglisvert við þetta frv., sem hér er til umr., að gera sér grein fyrir því, hver eru megineinkenni ráðstöfunar þess lánsfjár sem hugmyndin er að afla samkv. frv. Þegar það er skoðað kemur í ljós í hnotskurn að stefnt er að því með frv. að það verði samdráttur í fjárfestingu hjá atvinnuvegunum að magni til um 3.6% og það verði samdráttur í íbúðabyggingum að magni til um 3.1%, en aukning verði í fjárfestingu hjá opinberum aðilum um hvorki meira né minna en 21.3% að magni til. Stefnan í þessu efni er skýr eins og þegar rætt er um lánsfjáröflunina. Hér er sem sagt þrengt að atvinnuvegunum, þrengt að heimilunum í ráðstöfun á lánsfé, en opinberar framkvæmdir fá þar hins vegar bróðurpartinn.

Það er líka einkennandi fyrir stefnuna á þessu sviði og líka á sviði ríkisfjármálanna, að lánsfé er í enn ríkara mæli hérna en það hefur nokkurn tíma verið áður notað til að standa undir framkvæmdum sem áður hafa verið fjármagnaðar af skatttekjum. Um þetta er kannske gleggst að taka dæmi og er þá dæmið um vegagerð í landinu mjög nærtækt.

Ef við skoðum þróunina að þessu leyti á undanförnum þremur árum hafa lántökur verið stórauknar til vegagerðar. Skattar hafa verið hækkaðir gífurlega á bensín, en samt sem áður er þeim varið í minna mæli til vegagerðar en áður. Tekjur ríkisins af bensínsköttum voru 1978 19 milljarðar 562 millj. kr., 1979 26 milljarðar 830 millj. og 1980 29.5 milljarðar kr. Hér er um sama verðlag að ræða. Mismunurinn er rétt tæpir 10 milljarðar kr. á sama verðlagi sem skattálögur á bensín eru auknar frá árinu 1978 til 1980. Á sama tíma er allt það fé, sem varið er af skatttekjum til vegagerðar, stórlega skert. 1978 var varið tæplega 21 milljarði til vegagerðar af skatttekjum og eru þá innifalin í því afborganir og vextir af lánum til vegagerðar, beint framlag ríkissjóðs og markaðar tekjur, en í ár 19.8 milljarðar eða tæpum milljarði minna á föstu verðlagi. En til þess nú að sýna einhvern lit á því að halda uppi vegaframkvæmdum í landinu eru lántökur stórauknar í þessu skyni.

Þetta er það sem hefur verið að gerast í ríkisfjármálunum undanfarin tvö ár. Menn hafa tekið stórauknar skatttekjur ríkisins til eyðslu úr ríkissjóði í mjög auknum mæli, en gripið til þess fangaráðs að afla lánsfjár til ýmissa framkvæmda á vegum hins opinbera sem síðan hefur auðvitað komið niður á atvinnuvegunum og þrengt stöðu þeirra til að fá lánsfé.

Um einstök atriði í þessari lánsfjáráætlun skal ég ekki ræða hér mjög. Það er búið að ræða þessa fjárfestingar- og lánsfjáráætlun nokkuð mikið, bæði í Sþ. og í deildum þingsins, auk þess sem fjh.- og viðskn. hafa fjallað mjög ítarlega um hana.

Í Nd. fluttum við sjálfstæðismenn ýmsar brtt. sem allar voru felldar. Þessar brtt. byggðust á því, að við lítum svo á að í þessu frv. sé gert ráð fyrir skerðingu margvíslegra sjóða, sem hafa félagsleg markmið, og það er gert ráð fyrir sömu skerðingu eða jafnvel meiri skerðingu þessara sjóða en almennra fjárfestingarlánasjóða. Skoðun okkar er sú, að fjárfestingarlánasjóðir eigi að standa undir sér að verulegu leyti og að ríkisframlög til fjárfestingarlánasjóða, sem sinna lánum til atvinnuveganna, eigi að vera mjög takmörkuð. Við höfum ekkert við það að athuga að gert sé ráð fyrir því að takmarka framlög ríkissjóðs til þessara sjóða ef þeir eru látnir lána fé sitt út með eðlilegum kjörum. En það er algjör firra að okkar mati, að ýmsir sjóðir, eins og Erfðafjársjóður, Bjargráðasjóður, Byggingarsjóður verkamanna og fleiri slíkir sjóðir, séu meðhöndlaðir á sama hátt og fjárfestingarsjóðir sem eiga að standa undir sér.

Við sjálfstæðismenn fluttum um þetta brtt. í Nd. Þær voru felldar, eins og ég sagði áðan, og við sjáum ekki ástæðu til að fara að endurtaka þær hér. Ég geri ráð fyrir því og við nm., sem skrifum undir það nál. sem ég mæli nú fyrir, að það sé þýðingarlaust að koma vitinu fyrir stjórnarsinna í þessum efnum frekar en öðrum, og höfum ekki hugsað okkur að endurtaka þann leik hér. En ég vænti þess og ég raunar veit það, að þessi stefna hlýtur að verða endurskoðuð við næstu fjárfestingar- og lánsfjáráætlun, hverjir sem þá verða í forsvari, í meiri hl. hér á Alþ. og ríkisstj. Það hlýtur að koma að því að menn viðurkenni þá staðreynd, að hér er um að ræða hreina firru að fara þannig með þessa sjóði, sem eru hjálparsjóðir eða sjóðir til að sinna einhverjum mjög brýnum félagslegum verkefnum, að skerða þá á sama hátt og sjóði atvinnuveganna sem eiga að sjálfsögðu að standa undir sér.

Í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1980 er athyglisvert hvernig búið er að sjóðum atvinnuveganna. Þar er gert ráð fyrir að lánveitingar atvinnuvegasjóðanna séu einungis 34.1 milljarður kr. eða um 59.3% af heildarlánveitingunum samkv. áætluninni. Þetta hlutfall hefur lækkað úr 67% 1978. Segir svo orðrétt á bls. 15 í skýrslu sem fylgir þessu frv.: „Lánveitingar atvinnuvegasjóðanna eru áætlaðar 34.1 milljarður kr. eða um 59.3% af heildinni og hafa lækkað hlutfallslega úr 67% 1978.“

Ég vil aðeins í sambandi við fjárfestingarlánasjóðina lýsa áhyggjum mínum yfir því, hver framvindan mun verða um marga þeirra ef þessi lánsfjáráætlun gengur fram, en þó sérstaklega hvernig fara mun um innlenda skipasmíði ef á þeim málum verður haldið eins og þessi lánsfjáráætlun gerir ráð fyrir. Mér skilst að vísu, að það sé meiningin að taka sérstakt erlent lán til innlendra skipasmíða, og það kemur raunar fram í þessari áætlun. En ástandið hefur verið þannig að Fiskveiðasjóður hefur ekki undanfarið samþykkt neinar nýjar innlendar skipasmíðar á þeim forsendum að lánsfjáráætlun liggi ekki fyrir, og að auki sýnist mér að hér verði mjög þröngt um á þessu sviði. Ég vildi gjarnan, herra forseti, spyrja hæstv. iðnrh. um þetta atriði og varðandi afstöðu Fiskveiðasjóðs undanfarna daga til innlendra skipasmíða og til innflutnings á skipum. (Forseti: Ég vil upplýsa hv. þm. um það, að verið er að ná í hæstv. iðnrh. Ég vona að hann komi innan tíðar).

Herra forseti. Ég sé að hæstv. iðnrh. hefur góðfúslega orðið við því að vera viðstaddur og svara hér fsp. út af afgreiðslu Fiskveiðasjóðs á lánum til innlendra skipasmíða. Ég sagði áðan að ég hefði af þessu áhyggjur og undanfarið hefði það komið fram gagnvart innlendum aðilum, sem hafa staðið í skipasmíðum, að Fiskveiðasjóður hefur borið það fyrir sig, að lánsfjáráætlun væri ekki afgreidd, og hefur ekki samþykkt samninga, sem skipasmíðastöðvar hafa lagt fram og hafa verið samþykktir af viðskiptabönkum viðkomandi aðila, á þeim forsendum að lánsfjáráætlun lægi ekki fyrir. Ég hef líka haft vissar áhyggjur af því, að þarna sé heldur þröngur stakkur skorinn, bæði að því er varðar lánsfjáráætlunina sem slíka og eins er mér kunnugt um að meiningin er að taka þarna erlend lán sérstaklega til að standa undir innlendum skipasmíðum. En spurningar mínar til hæstv. ráðh. eru alveg ákveðnar.

Mér skilst að fyrir skömmu hafi Fiskveiðasjóður synjað um að lána út á ákveðið skip hjá skipasmíðastöð. Forsendur fyrir þessari synjun veit ég ekki hverjar eru, en ég vil spyrja hæstv. ráðh. hvort hann viti um þetta mál og hvort þarna sé um það að ræða að lánsfé sé af svo skornum skammti að dregið verði úr fyrrnefndum skipasmíðum á þessu ári.

Í öðru lagi spyr ég hæstv. ráðh. hvort honum sé kunnugt um að á sama fundi í stjórn Fiskveiðasjóðs og þessi synjun kom fram á, að samþykkja ekki samning skipasmíðastöðvar sem hafði samþykki banka, var samþykkt að lána 50% til innflutnings á skipi frá Noregi. Mér leikur forvitni á að vita hvort nefnd synjun stafar af því, að stjórn Fiskveiðasjóðs líti svo á að þetta fé muni ekki nægja til þess að innlendar skipasmíðastöðvar hafi eðlileg verkefni á þessu ári, og hvort um sé að ræða einhverja stefnubreytingu ríkisstj. í því að innflutningur á skipum komi til greina á sama tíma sem verði kannske eitthvað þrengt að þeim innlendu aðilum sem eru að smíða skip.

Þetta var fyrst og fremst það sem ég hafði hugsað mér að gera að umræðuefni að því er varðar einstaka þætti lánsfjáráætlunarinnar. Auk þess vildi ég, ekki síst af því að hæstv. iðnrh. er staddur hér í d., lýsa yfir þeirri skoðun minni, að það sé tæplega gert ráð fyrir nægjanlegu fjármagni til að bora tvær holur við Kröflu, en fjármagn til þess er skorið niður um 10% eða það er gert ráð fyrir að greiðslur dragist til ársins 1981 eins og til ýmissa annarra verkefna. Ég held að öllum eigi að vera ljóst, að það sé nánast hrein firra að gera ekki úrslitatilraun til að bora eftir gufu við Kröfluvirkjun til að koma henni í gagnið við þær aðstæður sem nú ríkja í orkubúskap okkar og það verði að fá úr því skorið, hvort hægt sé að koma þeirri virkjun í gagnið, og því fyrr því betra, því takist þessi orkuöflun er þar um að ræða skjótfengnustu orku sem við getum fengið. Að sjálfsögðu er skynsamlegra að fá úr því skorið fyrr en síðar, hvort þessi virkjun getur komist í gagnið. Ég hefði talið æskilegt að bora þarna a. m. k. þrjár holur á þessu ári. Ég vildi gjarnan að hæstv. ráðh. fjallaði um þetta, ef hann talar hér á eftir út af fsp. mínum, því ég hef nokkrar áhyggjur af því að jafnvel borun tveggja hola verði erfið vegna þess hversu knappt er skammtað að þessu leyti.

Ég hef oft við fyrri tækifæri — eða nokkrum sinnum alla vega við fyrri tækifæri — gert nokkuð að umræðuefni þær forsendur sem þessi lánsfjáráætlun hvílir á. Í skýrslunni, sem fylgir frv., er nokkuð vel greint frá forsendum þessarar áætlunar. Þar er gert ráð fyrir verðlagsforsendum. Þar eru settar fram aðrar þjóðhagsforsendur. Allar þessar forsendur hefur þegar sýnt sig að eru orðnar úreltar. Í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

„Forsendur fjárlaga um kauplags- og verðlagsbreytingar voru þær, að kauptaxtar hækkuðu um 42% að meðaltali milli áranna 1979 og 1980, vísitala byggingarkostnaðar um 45% og neysluverðlag um 47%. Þessar forsendur voru reistar á áætlun fyrir fyrri hluta ársins og markmiðum niðurtalningarstefnu ríkisstj. um hækkanir á síðari hluta ársins. Þetta fól í sér að hækkunin frá upphafi til loka árs 1980 yrði rúmlega 30%.“

Síðan segir: „Hins vegar er nú sýnt að verðlag hækkar meira á fyrri hluta ársins en gert var ráð fyrir við gerð fjárlagafrv. Nú er áætlað að hækkun framfærsluvísitölu frá febr. — maí verði vart undir 12–13% og að óbreyttu verðbótakerfi gætu laun hækkað um 11–111/2% 1. júní.“ — Nú er vitað að hækkunin verður 11.7% .

Síðan segir, að takist niðurtalningin á síðari hluta ársins verði verðhækkun frá upphafi til loka árs innan við 40%, en meðalhækkun verðlags milli ára 1979 og 1980 væntanlega nálægt 50% vegna mikillar verðhækkunar á síðari hluta árs í fyrra.

Hér er verið að gefa sér forsendur sem eru löngu brostnar. Eins og við vitum hefur verðhækkun orðið núna 1. maí og kauphækkun 1. júní miklum mun meiri en gert var ráð fyrir í fjárlögum og gert er ráð fyrir í þessari þjóðhagsspá. Það er t. d. gengið út frá því, að olíuverð í Rotterdam fari ekki hækkandi frá því að þetta plagg var skrifað, en sú hækkun hefur þegar orðið. Þannig mætti lengi telja brostnar forsendur fyrir þessari þjóðhagsspá.

Horfurnar í þessu efni eru ekki betri en það sem þegar er orðið ljóst. Við vitum að verðbólgan verður miklu meiri á þessu ári en gert er ráð fyrir í þessum forsendum og samkv. niðurtalningu ríkisstj. Allir kjarasamningar eru lausir og menn horfa fram á það að kaupmáttur taxtakaups allra launþega var núna í maílok rétt um 2% hærri en hann var fyrir sólstöðusamningana 1977. Þegar svo er ástatt er alveg ljóst að það er a. m. k. ekki við því að búast, að það takist kjarasamningar öðruvísi en um einhverjar breytingar á kaupi verði að ræða, a. m. k. hjá hinum lægst launuðu. Hvergi er gert ráð fyrir slíku í forsendum, hvorki þessarar lánsfjáráætlunar né fjárlaga. Allt eykur þetta á vandann og allt eykur þetta líkur fyrir því, að um verði að ræða miklu meiri þenslu og miklu meiri verðbólgu en jafnvel ríkir þegar líða tekur á árið.

Herra forseti. Stefna þessa frv. til lánsfjárlaga er skýr. Ríkisumsvif eru stóraukin á kostnað heimila og atvinnuvega. Lánsfjármagnið er tekið úr atvinnulífinu og því beint til opinberra viðfangsefna. Þrátt fyrir gífurlega aukna skattheimtu eru tekin lán til ýmissa framkvæmda sem áður voru fjármagnaðar með skatttekjum, t. d. vegamála. Þannig er eyðslustefnan í ríkisfjármálunum allsráðandi og hún látin stjórna skattheimtu og lántökum ríkisins. Eyðslufjárlög ríkisstj., sem afgreidd voru fyrir páska, og þenslulánsfjárlög þau sem nú eru til afgreiðslu um hvítasunnu, magna þá gífurlegu verðbólgu sem ríkir í landinu. Í stað aðhalds á þessum sviðum ríkisfjármála og peningamála, skattalækkunar og takmarkaðrar lántöku á tímum sem þjóðartekjur rýrna fremur en hitt fer ríkisstj. þveröfuga leið. Sú þenslu- og eyðslustefna leiðir til vaxandi viðskiptahalla við útlönd, sem spáð er af Þjóðhagsstofnun, og stóraukinnar verðbólgu.