28.05.1980
Neðri deild: 87. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3177 í B-deild Alþingistíðinda. (3108)

17. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Hv. 2. þm. Suðurl. sagði í ræðu sinni að ekki væri séð fyrir tekjum á móti útgjöldum í frv. því sem hér er til umr., eins og það er núna, og svo hafi ekki heldur verið í upphaflega frv. sem ég lagði fram í des. s. l. Í upphaflega frv. var mjög nákvæmlega skýrt frá tekjuþörfinni, ekki aðeins í næstu framtíð, heldur allar götur til ársins 1990, en þá átti 80% útlánamarkinu að vera náð hið síðasta og eftir það færu framlög og lántökur ört minnkandi, sjóðirnir stæðu sjálfir undir útlánaþörfinni í framtíðinni að mestu leyti.

Til að ná þessu marki þurfti í fyrsta lagi að halda óskertum núverandi mörkuðum tekjustofnum Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna. Í öðru lagi þurfti að auka framlög ríkis og sveitarfélaga um 7.5% fyrsta árið og vaxandi upp í 50% á tíunda ári, en gæti eftir það farið ört minnkandi. Aukningin væri á fyrsta ári í krónum talið 800 millj. og hækkaði upp í 8 milljarða á tíunda ári og er þá miðað við áætlað verðlag ársins 1980. Í þriðja lagi þurfti að auka lántökur frá því sem verið hefur síðustu árin um 30% á fyrsta ári, vaxandi upp í 80% á tíunda ári. Í krónum talið væru auknar lántökur fyrsta árið um 4 milljarða og vaxandi upp í 13.6 milljarða á tíunda ári, en eftir það færu þessar lántökur ásamt framlögunum ört lækkandi.

Þetta allt lýsti stjórn Ólafs Jóhannessonar og flokkarnir, sem að henni stóðu, sig reiðubúna til að standa við. Stjórnin samþykkti stefnumótun í húsnæðislánamálum, sem gekk út á þetta og virtist tekjuhliðin því allvel tryggð. Auðvitað byggðist þessi stefnumörkun og þessi útreikningur á ákveðnum forsendum. Í fyrsta lagi að byggðar yrðu 2000 íbúðir á ári fyrstu 5 árin og síðan 2100 íbúðir á ári, í öðru lagi að illa yrði byggður á félagslegum grundvelli, eins og sagt er, og í þriðja lagi byggðust útreikningarnir og forsendurnar á lánstíma og vöxtum sem gerðu það að verkum að markinu yrði náð án óhóflegs álags á ríkissjóð og án óhóflegs álags á lántakendur. Þessi atriði voru öll samþykkt af ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar og þeim flokkum sem að henni stóðu, þótt ýmsir hafi nú hlaupið frá þeim samþykktum að því er virðist.

Hitt er svo hárrétt hjá hv. 2. þm. Suðurl., að Ed. kollvarpaði í verulegum atriðum þessum fjármögnunarforsendum öllum saman. Útlánsvextir hafa verið lækkaðir og það langt niður fyrir innlánsvexti Byggingarsjóðs ríkisins, lánstími hefur verið lengdur og útlán stóraukin, ekki síst til sveitarfélaga, frá því sem gert var ráð fyrir í því frv. sem ég lagði fram og byggðist á stefnumörkun ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar, án þess svo mikið sem láta reikna út viðbótarkostnað breytinganna vegna. Stangast það alvarlega á við lög um efnahagsmál o. fl. frá því í apríl 1979. Satt að segja á ég erfitt með að skilja hvernig menn láta sér detta í hug að breyta öllum fjármögnunarforsendum svo viðamikils frv., — forsendum sem svo mikil vinna hefur verið lögð í að finna, forsendum sem allra best sætta það sem æskilegt er annars vegar og hins vegar það sem framkvæmanlegt er.

Það er ekki nóg með að breytingar hv. Ed. gangi út á stóraukin útgjöld, m. a. með auknum lántökumöguleikum sveitarfélaga og samdrætti tekna með lengingu lánstíma og lækkun vaxta, heldur þýða breytingarnar stórminnkuð framlög hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, frá því sem gert var ráð fyrir í upphaflegu frv. Ef lækkaður er hlutur sveitarfélaga í félagslegum íbúðabyggingum úr 20 í 10% jafngildir það 1.8 milljarða kr. lækkun á ari, og ef tekið er 1% af launaskattinum traustataki af Byggingarsjóði ríkisins, en þetta 1% jafngildir um það bil 30% af útlánaþörf Byggingarsjóðs verkamanna, þýðir það að 20% framlög ríkissjóðs til félagslegra íbúðabygginga, sem gert var ráð fyrir í upphaflega frv., falla í reynd niður, og þessi 20% jafngilda 3.6 milljörðum kr. á ári. Sú lækkun ásamt lækkun á þátttöku sveitarfélaganna jafngildir því 5.4 milljörðum kr. nettólækkun á framlögum til byggingarsjóðanna og sameiginlega á ári hverju.

Lenging lána og lækkun vaxta þýðir fljótlega stórskertar tekjur til viðbótar. Árið 1980, þegar 80% markinu átti að vera náð hið síðasta samkv. upphaflega frv. og samkv. stefnumótun stjórnar Ólafs Jóhannessonar, jafngildir þetta tekjuskerðingu upp á 5.3 milljarða kr. miðað við verðlag 1980. Útgjöldin eru sem sagt stóraukin, en tekjur skertar svo mikið að strax nemur 5.4 milljörðum á ári og vex fljótlega upp í 10 milljarða skerðingu á ári frá upphaflegu frv.

Það verður þó að segja hv. stjórnarliðum til hróss, að hluta af þessum staðreyndum hafa þeir viðurkennt með því að stefna nú að 25% útlánamarki árið 1981, 30% árið 1982 o. s. frv., en í upphaflega frv. var stefnt að 30% í ár, 35% á næsta ári og þannig áfram. M. ö. o.: stjórnarliðar hafa nú þegar frestað hækkunum um tvö ár frá því sem upphaflega var gert ráð fyrir.

Hæstv. félmrh. sagðist ekki hafa áhyggjur af fjármögnun félagslega þáttarins á næsta og þar næsta ári. Árið 1983 þarf þó að hans mati að gera viðeigandi ráðstafanir til verulegrar aukningar fjármagns til þessa þáttar. Það er hárrétt hjá hæstv. ráðh., að Byggingarsjóði verkamanna er sæmilega séð fyrir tekjum næstu tvö árin, m. a. vegna þess að hann á inni í Seðlabankanum 1.5 milljarða kr., sem núgildandi lög heimila ekki að notaðir séu. Ég vil þó enn einu sinni ítreka það, eins og fram kom hjá hv. þm. Karvel Pálmasyni, að frv. í núverandi mynd eykur ekki fjárstreymi til félagslega íbúðaþáttarins um eina einustu krónu frá því sem reiknað var með í upphaflega frv.

Hæstv. félmrh. sagði einnig að allvel væri séð fyrir fjárþörf Byggingarsjóðs ríkisins næstu tvö árin. Þar er ég honum algerlega ósammála. Árið 1979 voru markaðir tekjustofnar Byggingarsjóðs ríkisins skertir um 10% í fjárlögum og lánsfjárlögum. Það þurfti að grípa til sérstakra björgunarráðstafana í des. 1979 til að afla Byggingarsjóði ríkisins svo til jafnmikils fjár og nam þessari 10% skerðingu. Nú í ár eru markaðir tekjustofnar Byggingarsjóðs ríkisins skertir um hvorki meira né minna en 34% og hlýtur það að skapa mjög alvarlegt ástand hjá húsbyggjendum og byggingariðnaðinum þegar líður á árið. Á næsta ári og framvegis er svo boðuð 50% skerðing á langþýðingarmesta tekjustofni Byggingarsjóðs ríkisins. Samt hefur hæstv. félmrh. engar áhyggjur.

Gagnstætt hæstv. félmrh. hef ég mjög miklar áhyggjur af þessari þróun. Í fyrsta lagi þýðir hún það, ef ekkert verður að gert, að við nálgumst aldrei 80% útlánamarkið, alla vega ekki fyrr en einhvern tíma á næstu öld. Í öðru lagi þýðir hún mikla erfiðleika hjá flestum þeirra sem nú eru að byggja og ætla að gera það á næstu árum. Ég minni á, eins og fram kom hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og hv. þm. Karvel Pálmasyni, að mikill meiri hluti launþega landsins þarf á lánum úr Byggingarsjóði ríkisins að halda eða milli 60 og 70% allra launþega sem byggja eða kaupa húsnæði. Þó að 30–40% þeirra njóti aðstoðar félagslega þáttarins er langsamlega mestur hluti þeirra þar fyrir utan.

Herra forseti. Ég hef miklar áhyggjur af Byggingarsjóði ríkisins og öllum þeim sem á þjónustu hans þurfa að halda, og mér finnst að mjög mikið vanti á að hv. stjórnarliðar hafi horft framan í staðreyndir þessara mála. Mér finnst satt að segja að þeir hafi hagað sér svipað og sá ágæti fugl strúturinn í þessu máli. Þeir hafa stungið sínum ágætu höfðum ansi djúpt niður í sandinn.

Herra forseti. Ég leyfi mér að draga brtt. mínar og hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur á þskj. 537 til baka til 3. umr.