28.05.1980
Neðri deild: 87. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3179 í B-deild Alþingistíðinda. (3109)

17. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur frammi, á eftir að hafa áhrif á flesta landsmenn og því hefði ekki verið óeðlilegt að þinginu hefði gefist meiri tími til að fara yfir frv. Ég tel mjög óæskilegt að Nd. skyldi ekki fá þetta frv. fyrr í hendur þannig að það gæti orðið tekið rækilega fyrir þar og ýmis atriði tekin til athugunar.

Mér er ljóst, að þeir samningar, sem ríkisvaldið, atvinnurekendur og launþegar þurfa að leysa á næstunni, eru mjög viðkvæmir, og trúi því, að það sé rétt metið að það sé mikils virði að það frv., sem hér liggur frammi, verði samþykkt. En mér er ekki jafnljóst að það sé nauðsyn að samþykkja það nákvæmlega í þeirri mynd sem það er.

Í 4. gr. þessa frv. er tekin sú ákvörðun, að Alþýðusamband Íslands skuli fá tvo menn í stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins. Út af fyrir sig er það hvorki rétt né röng stefna að setja stéttarfélög í stjórn sjóða og stofnana. Það er spurning: Er þá gætt jafnvægis? Hvað með Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, hvað með Stéttarsamband bænda? Auðveldar það viðskiptin við þessa aðila ef svona er að málum staðið? Ég efa stórlega að það auðveldi þau viðskipti. Ég get ekki fallist á þá skoðun, sem fram hefur komið, að vegna þess að einhverjir aðilar veiti lán til sjóðsins öðru fremur eigi þeir á þeirri forsendu að hafa þar stjórnunaraðild. Ef sú aðferð væri alfarið upp tekin hlýtur Bandalag starfsmanna ríkis og bæja líka að taka til athugunar hvort rétt sé að ríkisvaldið fái að ráðskast jafnmikið með lífeyrissjóð þess og það hefur fengið að ráðskast með hann á undanförnum árum, m. a. þann kvóta sem fjmrh. hefur löngum haft til ráðstöfunar.

Ég vil jafnframt vekja athygli á því í þessu sambandi, að á kaflanum, þar sem minnst er á framlag sveitarfélaga til bygginganna, hefur vissulega verið gerð sú bragarbót að hlutfall það, sem sveitarfélögin eiga að greiða, hefur verið lækkað. Engu að síður leiðir þetta hugann að því, hvort það sé réttlæti í þeim lögum sem eru í gildi varðandi tekjustofna sveitarfélaga. Ég vil halda því fram að svo sé ekki. Ég held að hver og einn einasti maður, sem horfir t. d. bara á stór-Reykjavíkursvæðið, megi gera sér grein fyrir að það hafa risið upp sveitarfélög í tengslum við Reykjavík, sveitarfélög þar sem raunveruleg einbýlishúsahverfi Reykjavíkurborgar standa. Svo að ég tali skýrt á ég t. d. bæði við Garðabæ og Seltjarnarnes. Er eftir einhverjum kenningum réttlætanlegt að þessi sveitarfélög og íbúar þeirra geti með sínum skipulagsuppdrætti haft endanleg áhrif á að þar setjist ekki að févana einstaklingar? Er það fyrir fram réttlætanlegt að það skuli vera Reykjavíkurborg sem sitji uppi með það að byggja alla verkamannabústaðina og þeir sem þar eru séu skattlagðir í því sambandi? Ég held að svo sé ekki. Ég hefði talið að þarna hefði átt að setja inn það ákvæði að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga hefði átt að greiða vissan hluta af því framlagi sem hverju sveitarfélagi er ætlað að greiða og þannig yrði farið inn á jöfnun hjá sveitarfélögunum.

Ég vek sérstaklega athygli á því, að þau sveitarfélög á Vestfjörðum, sem ég þekki best til, hafa löngum verið látin greiða útflutningsbætur með sjávarafurðum. Þau hafa verið látin greiða þessar útflutningsbætur í gegnum hafnarsjóðina, þ. e. hafnarsjóðirnir hafa verið reknir með halla og af hinum almennu tekjum sveitarfélaganna hefur verið tekið fjármagn til að greiða þær skuldir. Með því móti hafa þau verið févana. Samkv. þeim upplýsingum, sem fyrir liggja um aldur húsnæðis og gæði húsnæðis, blasir það við, að t. d. á Vestfjörðum er mjög mikið af gömlu, lélegu húsnæði. Ég vil halda því fram sem staðreynd, að þau sveitarfélög séu mjög illa í stakk búin til að verða af með fjármuni þó að þau þurfi að notfæra sér það kerfi sem hér er verið að gera ráð fyrir að mjög mikið verði byggt eftir. Þetta skýrist kannske dálítið betur ef menn hafa það í huga og kanna að flest sveitarfélög á Vestfjörðum voru búin að gefast upp á því að byggja eftir gömlu lögunum eins og þau voru.

Það er fleira sem vekur umhugsun í þessu frv. Hér er sett ákveðið tekjuhámark. Ef menn hafa meiri tekjur en hámarkið segir, eiga þeir ekki rétt á að fá hús eftir því kerfi sem snýr að verkamannabústöðunum. Eru það tekjurnar s. l. þrjú ár sem segja okkur allt um hvort einstaklingur á rétt á að fá íbúð eða ekki? Ég vil alfarið mótmæla því að svo sé. Fjölskyldustærð og eignir segja miklu meira um þessi efni. Það hlýtur að vera frekar hlálegt ef sú staða kæmi upp hjá verkamanni, sem eftir væri leitað að færi í frystihúsvinnu í yfirvinnu, að afleiðing þess, að hann færi í slíka vinnu til að bjarga verðmætum, yrði sú, að hann tapaði þeim rétti sem hann ella hefði til að geta eignast þak yfir höfuðið samkv. þessum lögum. Ég held að mikil nauðsyn væri á að rýmka þetta ákvæði og skoða mjög gaumgæfilega hvort það eru þá hinir raunverulegu verkamenn, t. d. í sjávarþorpunum, sem eiga rétt á lánum samkv. þeim ákvæðum sem hér eru.

Á þessu þingi flutti ég þáltill. varðandi framfærsluvísitöluna. Sú þáltill. er í nefnd. Ef hún hefði fengist samþykkt á hinu háa Alþingi hefði hún getað orðið mjög mikill vegvísir í því efni að bera saman raunveruleg lífskjör manna eftir því hvar þeir búa á landinu. Þá hefði verið hægt að athuga m. a. hvort það ætti að vera sama tekjuhlutfall alls staðar. Það hlýtur að liggja í augum uppi, að ef það kostar miklu meira að búa á sumum svæðum verða menn, ef þeir vilja sýna réttlæti í þessum málum, að viðurkenna að til að eiga rétt á lánum í verkamannabústaðakerfinu megi hafa þar hærri tekjur. Þetta er að mínu viti grundvallaratriði ef menn vilja að þessi lög verði til að stuðla að jafnhliða uppbyggingu á Íslandi.

E. t. v. finnst mönnum að ég gerist hér langorður um þessi efni. En ég vil minna á að ein bitrasta reynsla dreifbýlisins varðandi byggðaröskun er tengd samningum um byggingu íbúða í Breiðholtinu. Ég hygg að flestir, sem líta yfir farinn veg og skoða það sem þá var samþykkt og þá var gert, efist um að þar hafi rétt verið að staðið. Ég fyrir mína parta tel að það hefði mátt standa mun betur að því.

Ég ætla ekki að fara út í langar umr. um fjármögnun. Mér er ljóst að það hefði mátt ganga betur frá þeim málum í þessu frv. Ég held samt sem áður að það sé vonlaust að gera ráð fyrir að hvaða tillögur sem þar hefðu verið settar fram fengju staðist ef verðbólgan verður óbreytt. Það er tómt mál að tala um að þetta þjóðfélag þoli yfirleitt mörg ár með álíka mikilli verðbólgu eða meiri en verið hefur. Ég held þess vegna að það verði að vera sameiginlegt verkefni að minnka verðbólguna, en ekki að halda áfram þeirri stefnu, sem gjarnan hefur verið farið eftir á undanförnum árum, að aðlaga allt verðbólgunni.

Ég ætla ekki, herra forseti, að hafa fleiri orð um þetta mál. Þó ég styðji frv. í atkvgr. lýsi ég því jafnframt yfir, að ég mun á haustþingi bera fram brtt. við það og vona að þá gefist tóm til þess hér í hv. deild að skoða þær af meiri ró en mér sýnist að gerlegt væri ef hreyft væri við þessum málum nú.