09.01.1980
Neðri deild: 15. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í B-deild Alþingistíðinda. (311)

23. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa yfir stuðningi við þetta frv. Þegar þetta mál var til umr. í Ed. á 100. löggjafarþingi lýsti ég yfir stuðningi við frv. og álit mitt, sem þar kom fram, hefur ekkert breyst. Ég tel að það sé ekki annað sæmandi þessari þjóð, fyrst við á annað borð viljum hafa menningarlegt tákn eins og Sinfóníuhljómsveit er, Þjóðleikhús o.s.frv., en að gera það á þann hátt að slíkt standi undir nafni. Mér finnst þess vegna að við getum ekki farið að tala um það hér hvort hljóðfæraleikarar eigi að vera 59 eða 65, heldur eingöngu það sem talið er nauðsynlegt lágmark í þessu tilfelli. Ég vil sem sagt endurtaka, að mér finnst ástæðulaust annað en við afgreiðum þetta mál þannig að það verði til í landinu löggjöf um Sinfóníuhljómsveit Íslands. Ég vil alveg sérstaklega vekja athygli á þeim þætti í starfi Sinfóníuhljómsveitarinnar, sem kemur raunar fram í aths. með frv. og ég tel mikils virði, og það er starfsemi eins og t.d. barnatónleikar, skólatónleikar, fjölskyldutónleikar og tónleikaferðir út um landið. Mér finnst að farið hafi vaxandi áhugi á tónlistarmálum yfirleitt úti um landið, og sérstaklega í sambandi við lög um tónlistarskóla, sem tiltölulega stutt er síðan sett voru, hefur slík starfsemi aukist um landið. Ég þori að fullyrða, að sá þáttur í starfsemi Sinfóníuhljómsveitarinnar, sem hefur farið vaxandi ár frá ári, að fara tónleikaferðir út um landið hefur ákaflega mikið menningarlegt gildi. Ég vil undirstrika það, að ákaflega mikilvægt er að sú starfsemi, sem ég nefndi hér áður umfram það sem er fastur liður í starfsemi hljómsveitarinnar, fari frekar vaxandi en hitt.

Ég vil svo að lokum taka undir það sem hér hefur komið fram, að ég tel að sjálfsagt sé að Alþ. afgreiði þetta mál og samþykki lög um Sinfóníuhljómsveitina eins og hér hefur verið lagt til.