28.05.1980
Neðri deild: 87. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3181 í B-deild Alþingistíðinda. (3113)

154. mál, Bjargráðasjóður

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég óskaði eftir því 19. þ. m. að taka til máls utan dagskrár til að ræða málefni Bjargráðasjóðs og í því sambandi að minna á fyrirheit stjórnmálaforingjanna er þeir gáfu 19. maí 1979 vegna harðindanna sem gengu þá yfir stóran hluta landsins og talin hafa verið mestu harðindi sem herjað hafa á landið, a. m. k. á þessari öld. Þegar ljóst varð að það mál, sem nú er til umr., sem er um breyt. á lögum um Bjargráðasjóð, kæmi aftur til umr. í hv. deild vegna breytinga sem Ed. gerði á frv. féllst ég á að fresta máli mínu þar til umr. þessi færi fram.

Þetta er a. m. k. í fjórða skiptið er ég ræði um þetta málefni á þessu ári hér í hv. deild án teljandi árangurs. Þar sem ég tel ekki sæmandi að gera upp á milli stétta og einstaklinga sem verða fyrir tjóni eða tekjumissi af völdum náttúruhamfara, eins og við blasir ef ekkert frekar verður að gert, get ég ekki hjá því komist að ræða þetta málefni fyrir þingslit og bera fram spurningar, fyrst og fremst til hæstv. forsrh. og einnig til hæstv. fjmrh.

Áður en ég ber fram spurningarnar vil ég rifja það upp sem sagt var í Sþ. 19. maí fyrir rúmu ári, með leyfi forseta. Það var Lúðvík Jósepsson, sem þá var 1. þm. Austurl., sem hóf umr, og sagði:

„Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár þó að mér sé ljóst að nú sé mjög gengið á tíma þingsins og ekki mikill tími til þess að eyða í umr. utan dagskrár. En ég vænti þess, að það mál, sem ég vil ræða, sé ekki neitt deilumál og það eigi ekki að þurfa að leiða af sér langar eða miklar umr.

Eins og öllum hv. þm. er kunnugt hafa steðjað að ýmsum landsmönnum á þessum vetri margvíslegir erfiðleikar sem leitt hefur af því að hafís hefur lokað hafnarsvæðunum og gert mörgum aðilum ókleift að stunda atvinnu sína. Við það hafa síðan bæst einstök vorharðindi sem bitna með miklum þunga ekki síst á bændum landsins, en einnig ýmsum öðrum. Ég held að það sé enginn vafi á því, að þessir erfiðleikar koma þannig við ýmsa staði á landinu og ýmsa aðila að þeir hafa orðið fyrir miklu áfalli. Mér finnst það eiga vel við, áður en Alþ. lýkur nú störfum sínum, að það heyrist nokkuð héðan frá Alþ. um það, að við alþm. ætlumst til að vandamál þeirra aðila, sem hér eiga hlut að máli, verði athuguð sérstaklega og sérstök athugun verði gerð á því tjóni sem menn hafa orðið fyrir, því tekjutapi sem ýmsir hafa orðið fyrir í sambandi við þessa náttúruerfiðleika. Ég er á þeirri skoðun, að nú sé eins og jafnan áður, þegar slíkt kemur fyrir, mjög auðvelt að fá sterka samstöðu allra stjórnmálaflokka og manna úr öllum flokkum til þess að standa að því að reyna að draga úr þeim mestu erfiðleikum og því tjóni sem einstök byggðarlög og einstakir aðilar verða fyrir þegar slíkir atburðir gerast eins og þessir, sem ég þarf ekki að fara um mörgum orðum við hv. þm. Um það er ekkert að villast, að t. d. einstakir sjómenn og smáútvegsmenn hafa tapað stórum hluta af tekjum sínum á árinu vegna hafíss, og ég held að ekki sé minnsti vafi á því, að bændur landsins hafa orðið fyrir miklu tekjutapi og muni verða vegna þessara erfiðleika allra.

Ég vil því beina því til hæstv. forsrh., hvort hann vilji ekki gefa yfirlýsingu á Alþ. um að hann muni beita sér fyrir því, að látin verði fara fram sérstök athugun á vandamálum þeirra aðila, sem hér er um að ræða, með það fyrir augum að þjóðfélagsheildin komi þeim til aðstoðar á svipaðan hátt og gert hefur verið í öðrum tilfellum þar sem um tjón af náttúrunnar völdum hefur verið að ræða. Hér hefur áður orðið hin besta samstaða um aðstoð þegar slíkt hefur verið tekið hér upp.

Ég vil vænta þess, að hæstv. forsrh. geti tekið undir þá skoðun er ég túlka hér, vilji beita sér fyrir því, að athugun af þessu tagi fari fram, og síðan verði að því stefnt að bæta mönnum það tjón sem ætti að vera hægt að bæta þeim af hálfu þjóðfélagsheildarinnar. Mér þykir einnig full ástæða til að vænta þess, að stjórnarandstaðan hér á þingi, eins og jafnan áður, standi með öðrum að því að grípa inn í þegar slíka atburði ber að höndum. Fari svo sem ég vænti, að hér sé samstaða um að lýsa yfir vilja Alþ. í þessum efnum og taka á þessu vandamáli, þá finnst mér sjálfsagt að það komist til þeirra, sem standa enn í miðjum erfiðleikunum, sem boðskapur héðan frá Alþ., án þess að gerð sé sérstök þingsamþykkt, heldur liggi aðeins fyrir almenn yfirlýsing flokkanna um að það sé ætlun manna að bæta mönnum, eftir því sem við verður komið, það tjón sem menn hafa orðið fyrir vegna þessara miklu áfalla.

Ég vil svo vænta þess, að undir þetta mál mitt verði tekið fyrst og fremst af hæstv. forsrh., en einnig af hálfu stjórnarandstöðunnar.“

Þannig hljóðaði ræða Lúðvíks Jósepssonar 19. maí 1979.

Síðan tók forsrh., sem þá var Ólafur Jóhannesson, til máls og sagði, með leyfi forseta:

„Í tilefni af orðum hv. 1. þm. Austurl. er mér ljúft að lýsa yfir, að ég mun beita mér fyrir því innan ríkisstj. að fram fari rækileg könnun á þeim vandamálum sem hann gerði að umtalsefni. Það er öllum ljóst, að þar er um þungar búsifjar að ræða sem menn hafa orðið fyrir, bæði til lands og sjávar, af völdum hafíss og algjörlega einstæðra harðinda sem gengið hafa yfir landið að undanförnu. Ég tek algjörlega undir orð hans um það og tel að eigi að líta á málið frá því sjónarmiði, að hér sé um hliðstæður að tefla við þá atburði sem stundum hafa gerst af völdum náttúruhamfara og valdið stórtjóni.

Það má segja, að raunar hafi ríkisstj. þegar markað stefnu að þessu leyti að nokkru, þar sem á sínum tíma átti sér stað skipun sérstakrar nefndar, hafísnefndar, sem hefur kannað það mál og mun gera tillögur í þeim efnum. En það er ekki aðeins að hafísinn hafi valdið hét tjóni, heldur er, eins og ég sagði áðan og eins og menn vita, um algjörlega einstæð harðindi að ræða, um mjög langt árabil a. m. k., í tilteknum hlutum landsins.

Ég efast ekki um að hv. stjórnarandstæðingar muni veita þessu máli lið eftir því sem rannsókn og athugun og skynsamlegar tillögur hníga að.“

Þannig svaraði forsrh. Lúðvík Jósepssyni 19. maí fyrir ári. En næstur tók svo til máls hæstv. núv. forsrh., Gunnar Thoroddsen, og sagði, með leyfi forseta:

„Þau harðindi, sem gengið hafa yfir þetta land nú á þessu vori og standa enn þótt liðinn sé mánuður af sumri, eru sem betur fer fátíð, en víða um land er nú vá fyrir dyrum. Það er brýn nauðsyn að kanna þann skaða, sem hlýst af þessum harðindum, og leita leiða til að ráða fram úr þeim vanda.

Ég tek undir óskir og uppástungur 1. þm. Austurl. og undirtektir hæstv. forsrh. og vænti þess, að víðtækt samstarf megi takast milli þingflokkanna um ráð til að liðsinna þeim byggðarlögum og íbúum þeirra sem orðið hafa fyrir þungum búsifjum.“

Þannig mælti núv. forsrh., Gunnar Thoroddsen. En loks ætla ég aðeins að koma inn á lítinn kafla úr ræðu sem hv. þm. Árni Gunnarsson flutti þennan sama dag, með leyfi forseta:

„Ég vil þakka hv. þm. Lúðvík Jósepssyni fyrir að vekja máls á því ástandi, sem nú hefur skapast, í þeim tilgangi að koma á samstöðu meðal stjórnmálaflokkanna um aðgerðir sem gera þarf til að leysa þann brýna vanda sem nú blasir við á hinum svonefndu hafíssvæðum og raunar víðar á landinu.“

Hv, þm. Geir Hallgrímsson sagði m. a. í umr. hér í hv. deild 25. maí 1979, með leyfi forseta:

„Við þm. viljum áreiðanlega veita liðsinni okkar til að leysa þau vandamál sem nú blasa við bændum landsins.“ Í stjórnarsáttmála ríkisstj: Gunnars Thoroddsens stendur þetta m. a., með leyfi forseta:

„Bjargráðasjóði verði útvegað lán vegna harðindanna 1979. Tekjustofnar sjóðsins verði teknir til endurskoðunar í þeim tilgangi, að hann geti gegnt hlutverki sínu.“

Og hver er þá tilgangur sjóðsins? Það fer ekki milli mála. Í 9. gr. laganna um Bjargráðasjóð kemur það glöggt fram, en hún er þannig, með leyfi forseta:

„Hlutverk búnaðardeildar er að veita einstaklingum eða sveitarfélögum fjárhagsaðstoð til a. að bæta meiri háttar tjón vegna búfjárdauða af völdum sjúkdóma eða af slysum, þegar gáleysi eiganda verður eigi um kennt; b. fóðurkaupa vegna grasbrests af völdum kuldakals eða óþurrka til að afstýra óeðlilega mikilli förgun búfjár; c. að bæta uppskerubrest á garðávöxtum; d. að veita fjárhagsaðstoð vegna verulegs afurðatjóns á sauðfé og nautgripum. — Um fjárhagsaðstoð samkv. grein þessari fer samkv. reglum, er sjóðsstjórn setur.“

Þetta er 9. gr. laganna um Bjargráðasjóð. Hér fer því ekki milli mála hvað löggjafinn á við, þ. e. að bæta meiri háttar tjón.

Hvernig var aflatjón þeirra, er stunda grásleppuveiðar og urðu fyrir aflatjóni á síðasta ári, bætt? Það kemur fram í bréfi frá Aflatryggingasjóði, sem Þórarinn Árnason undirritar og er þannig, með leyfi forseta:

„Vegna fyrirspurnar hv. alþm. Stefáns Valgeirssonar set ég hér á blað nokkrar upplýsingar varðandi greiðslur til grásleppusjómanna sem urðu fyrir aflatjóni vorið 1979.

Með bréfi, dags. 31. júlí 1979, tilkynnti félmrn. að ríkisstj. hefði á fundi 19. júlí fjallað um tillögur hafísnefndar til lausnar á vandamálum hafíssvæðanna norðan- og vestanlands, einnig að samþykkt hefði verið að bæta aflatjón grásleppusjómanna samkv. reglum Aflatryggingasjóðs. Þá var Aflatryggingasjóði falið að annast útreikninga og bótagreiðslur í samráði við samtök grásleppuhrognaframleiðenda.

Strax í upphafi var ákveðið að miða bótaskyldu og þá væntanlega bótagreiðslur við skýrslur sem grásleppuveiðimenn hafa gert og sent hingað s. l. ár. Við athugun kom í ljós að skýrslurnar frá árunum 1977 og 1978 voru aðgengilegar, enda talið að þau ár gæfu góða mynd af meðalafla þegar um normalárferði væri að ræða. Því næst skiptum við hafíssvæðinu í 21 bótahólf og reiknuðum út meðalafla fyrir hvert svæði fyrir sig og bárum þann meðalafla saman við afla 1979. Samkv. lögum um Aflatryggingasjóð er ekki um bótaskyldu að ræða ef afli viðkomandi árs er 75% eða meira af meðalafla. M. ö. o. í þessu tilviki, að ef afli 1979 var 75% eða meira miðað við meðalafla 1977 og 1978, þá var svæðið ekki bótaskylt.

Næsta skref var það að athuga svæðin 21. Kom þá í ljós að aðeins 4 voru bótaskyld samkv. framangreindum reglum.“

Þá er komið að framkvæmdinni:

Hinn 24. sept. 1979 skipaði þáv. landbrh., Steingrímur Hermannsson, þriggja manna nefnd til þess að kanna ástandið á harðindasvæðunum og gera tillögur til úrbóta. Nefndin skilaði áliti og tillögum til ráðh. þingsetningardaginn 10. okt. Nefndin lagði til að Bjargráðasjóði yrði útvegað fé til að lána bændum á harðindasvæðunum til að kaupa fóður þar sem heymagn væri minna en 80% af heymagni 1978. Einnig lagði nefndin til að bændur yrðu aðstoðaðir vegna uppskerubrests á garðávöxtum, en til þess að Bjargráðasjóði yrði gert þetta mögulegt lagði nefndin til að lögum sjóðsins yrði breytt á þann veg að tekjur hans yrðu auknar verulega svo að hann gæti gegnt hlutverki sínu. — Tillögur nefndarinnar voru þessar: a) Framlag sveitarfélaganna hækki úr 150 kr. á íbúa í 300 kr. b) Framlag bænda hækki úr 0.35% af búvöruverði í 0.60%. c) Framlag ríkisins hækki tilsvarandi og jafnhátt greiðslum samkv. a- og b-lið.

Ríkisstj. afgreiddi málið strax til stjórnar Bjargráðasjóðs með ósk um að hún veitti bændum lán samkv. tillögum harðærisnefndar án verðtryggingar og með 10% vöxtum eins og lög sjóðsins heimila. Stjórn Bjargráðasjóðs tilkynnti félmrh. að hún mundi verða við þessum tilmælum, enda yrði sjóðnum séð fyrir fé og lögum hans breytt í samræmi við tillögur harðærisnefndar.

En þegar hér var komið sögu var sest að völdum í landinu ný stjórn, minnihlutastjórn Alþfl. Þessi stjórn gaf út brbl., ekki um að auka tekjur Bjargráðasjóðs, eins og harðindanefnd lagði til, heldur um að sjóðnum væri heimilt að lána út með fullri verðtryggingu. En það furðulega hefur gerst, að þær þingnefndir, sem hafa fjallað um málið í báðum deildum, hafa ekki fellt út þetta ákvæði brbl. um heimild til að lána með verðtryggingu. Það er engu líkara en að hv, þingnefndum hafi ekki verið ljóst að þetta er slysa- og neyðarsjóður, enda þótt í 8. og 9. gr. laganna segi hver tilgangur sjóðsins er svo það ætti ekki að fara á milli mála.

Til að skýra fyrir hv. þm. hvernig að málinu hefur verið staðið og hvernig það stendur nú er nauðsynlegt að lesa bréf sem er skrifað hv. fjvn., undirskrifað af framkvæmdastjóra sjóðsins, Magnúsi E. Guðjónssyni, dags. 5. febr. s. l., og er þannig, með leyfi forseta:

„Á síðasta stjórnarfundi Bjargráðasjóðs, 23. f. m., var mér undirrituðum framkvæmdastjóra sjóðsins falið að rita hv, fjvn. varðandi framlag til sjóðsins á fjárlögum fyrir árið 1980. Fer stjórn sjóðsins þess á leit, að framlag til Bjargráðasjóðs á fjárlögum fyrir árið 1980, verði ákveðið 392 millj. kr.

Samkv. lögum um Bjargráðasjóð nr. 51 frá 1972, 5. gr. c-lið, sbr. lög nr. 110 frá 1976, um breyt. á þeim lögum, skal árlegt framlag ríkissjóðs til Bjargráðasjóðs nema samanlögðum framlögum til sjóðsins frá sveitarfélögum og af söluvörum landbúnaðarins, hlutdeild í svonefndu búnaðarmálasjóðsgjaldi.

Í tillögum, sem Bjargráðasjóður gerði vegna undirbúnings fjárlaga 1980, var gert ráð fyrir að framlag ríkisins 1980 þyrfti að vera 187.1 millj. kr. og var þá byggt á rauntölu 1978 framreiknaðri á þeirri forsendu að hækkunin milli áranna 1978 og 1979 yrði 45% og milli áranna 1979 og 1980 40%. Ljóst er að þessar forsendur eru brostnar. Þrátt fyrir það var tillaga sjóðsins skorin niður um tæpar 30 millj. kr., þar sem í framlögðu fjárlagafrv. er áætlað að framlag til sjóðsins á þessu ári verði 158 millj. kr.

Árið 1979 var óafturkræft framlag til sjóðsins frá sveitarfélögum og af búvörugjaldi svo sem hér segir: Framlög sveitarfélaga, um 150 kr. á hvern íbúa, 33.7 millj., hlutdeild í búvörugjaldi 110.6 millj., eða 144.3 millj. Framlag ríkissjóðs samkv. fjárlögum 1979 var 83.7 millj. og var það fast bundið við þá fjárhæð samkv. lögum nr. 20 frá 1979, 19, gr. Það er 60 millj. kr. lægri fjárhæð en vera ætti samkv. lögum sjóðsins.

Vegna gífurlegrar fjárþarfar Bjargráðasjóðs sökum harðinda á Norður- og Norðausturlandi s. l. sumar aðallega hefur stjórn Bjargráðasjóðs samþykkt að óska eftir því, að lögum sjóðsins verði breytt til að efla hann og auka tekjur hans. Nái það mál fram að ganga áætlar stjórnin óafturkræft framlag til sjóðsins á árinu 1980: framlag sveitarfélaga, 300 kr. á íbúa, 67 millj., hluta af búvörugjaldi 0.6% 250 millj., þ. e. 9 mánaða greiðsla, eða 317 millj. kr. mótframlag.

Til viðbótar framangreindu áætluðu mótframlagi ríkissjóðs til Bjargráðasjóðs 1980 er áætlað að nettóútgjöld sjóðsins vegna vaxta- og verðbreytingamismunar af veittum lánum vegna veiðarfæratjóna af völdum hafíss vorið 1979 verði á þessu ári 15 millj., en samkv. bréfi félmrh., dags. 24. júlí 1979, er því yfir lýst, að þessi mismunur verði tekinn inn á fjárlög og greiddur sjóðnum úr ríkissjóði.

Þá hefur stjórn Bjargráðasjóðs samþykkt að óska eftir því, að sjóðnum verði bætt með greiðslu úr ríkissjóði framangreind skerðing, 60 millj. kr. samkv. 19. gr. laganna 1979.

Framlag til Bjargráðasjóðs á fjárlögum fyrir árið 1980, sem óskað er eftir í upphafi þessa bréfs, sundurliðast þannig: Áætlað mótframlag ríkissjóðs eftir lagabreytinguna 317 millj., vaxtamunur vegna hafíslána 15 millj. og greiðsluskerðing ríkisframlags 1979 60 millj., eða 392 millj. Mismunur er þarna upp á 267 millj.

Sótt hefur verið um fyrirgreiðslu til sjóðsins vegna uppskerubrests á kartöflum á s. l. ári, aðallega í Eyjafirði, Nesjum, Hofshreppi, Austur-Skaftafellssýslu, Þykkvabæ og vegna lítils heyfengs á svæðinu frá Vestfjörðum norðanlands og allt til Borgarfjarðar eystri og enn fremur vegna kostnaðar við hey- og graskögglaflutninga á téðu svæði. Enn fremur veitti sjóðurinn alls 130 millj. kr. lán vegna veiðarfæratjóns af völdum hafíss s. l. vor og lán hans að fjárhæð 70 millj. vegna vorharðindanna 1979.“

Meira ætla ég ekki að lesa upp úr þessu bréfi. Samkv. því óskaði stjórn Bjargráðasjóðs að framlag til sjóðsins samkv. fjárlögum yrði 392 millj., en fjárlagatalan nú er 125 millj. kr. eða mismunur sem nemur 267 millj. kr. Samkv. gildandi lögum vantar, eins og áður segir, 60 millj. frá 1979, það vantar samkv. lögunum, eins og þau eru, 73.7 millj. á yfirstandandi ári plús 15 millj. samkv. bréfi félmrh. frá 24. júlí 1979, eða samtals 148.7 millj. kr.

Þannig hefur í reynd verið staðið að þessum málum. Byggðasjóður hefur látið sem óafturkræft framlag 120 millj. 60 þús. kr., sem Búnaðarfélag Íslands hefur úthlutað, og ber að þakka þá aðstoð, en eins og málin hafa verið þar nær það skammt. Engar greiðslur hafa komið enn til bænda vegna fóðurkaupa á s. l. hausti. Lán ættu að mati sjóðsins að vera 1 milljarður 100 millj. kr. Styrkur vegna fóðurflutninga á s. l. hausti hafa þeir metið að þyrfti að vera 225 millj. miðað við reglur sjóðsins. Ef tjón garðyrkjubænda væri metið hlutfallslega eins og þegar um aflatjón er að ræða þyrftu að koma til afgreiðslu úr sjóðnum til þessara framleiðenda a. m. k. 450–500 millj. Eftir er að afgreiða vegna búfjártjóna frá s. l. ári verulegar upphæðir. Greiðslur sjóðsins vegna þessa munu því vera einhvers staðar í kringum 2 milljarða, og þá er ótalið allt það afurðatjón sem sérstaklega sauðfjárbændur urðu fyrir vegna verulega minni fallþunga á síðasta hausti en er í meðalári, en engir tilburðir hafa verið uppi hjá ríkisstj. enn sem komið er, að ég veit, til að láta meta það tjón hliðstætt því þegar um aflatjón er að ræða, hvað þá að bæta það, þrátt fyrir þær yfirlýsingar sem ég vitnaði til í upphafi máls míns.

Ég spyr hæstv. forsrh. að því, hvort honum finnist að staðið hafi verið við þær yfirlýsingar sem gefnar voru á hinu háa Alþingi fyrir ári og vitnað er til hér að framan. Ég vil enn fremur spyrja hæstv. forsrh. að því, hvort hann muni ekki beita sér fyrir því, og það án frekari tafar, að bændum verði bætt það tjón, sem þeir urðu fyrir, eftir svipuðum reglum t. d. og gert var í sambandi við sjóð þeirra sem atvinnu hafa af grásleppuveiðum.

Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. að því, hvort réttlætiskennd hans sé ekki þannig varið að allar stéttir eigi að sitja við svipaðan hlut að því leyti, að þegar þær verða fyrir tjóni vegna harðinda eða annarra náttúruhamfara eigi að bæta öll slík tjón með líkum hætti. Ég vil ekki trúa því að hæstv. ráðh. eða hv. þm. vilji gera upp á milli stétta eða einstaklinga í slíkum tilvikum. Það liggur þó fyrir að fyrrv. félmrh., hv. þm. Magnús H. Magnússon, skrifaði Aflatryggingasjóði bréf um að bæta grásleppubændum tjón eftir reglum Atvinnuleysistryggingasjóðs. Það er ekki lán, heldur framlag. Hins vegar gaf sami ráðh. út brbl. um að Bjargráðasjóði væri heimilt að lána með fullri verðtryggingu t. d. til þeirra bænda sem framleiða garðávexti, en tekjutap þeirra mun hafa orðið langmest á síðasta ári. Ég vil ekki trúa því, að fyrrv. ráðh. hafi ekki gert sér grein fyrir hvað hann var að gera, þegar hann gaf út þessi brbl., eða til hvers það mundi leiða. Engar ráðstafanir voru gerðar til að útvega sjóðnum fjármagn til þess að hann væri þess umkominn að gegna hlutverki sínu.

Ég vil enn fremur spyrja hæstv. fjmrh. að því, hvort hann muni ekki gera ráðstafanir til að framfylgja þeim yfirlýsingum, sem ég vitnaði til í upphafi máls míns, og gera nú þegar ráðstafanir til að útvega það fjármagn sem til þarf til að bæta það tjón sem varð af völdum harðærisins á s. l. ári. Öllum hv. þm. ætti að vera ljóst að það er ekki sama hvenær aðstoðin er veitt. Fjármagnskostnaðurinn er ekki svo lítill í landi okkar. Hvort sem um er að ræða launamenn, er missa atvinnuna, eða ef bregst afli hjá sjómönnum eða bregst uppskera hjá bændum eða þeir missa tekjur vegna minni afurða, þá er það jafntilfinnanlegt fyrir hvern sem fyrir slíku verður. Ef launamenn missa atvinnu fá þeir bætt úr Atvinnuleysistryggingasjóði 80% af launatekjum. En það er framlag, ekki lán. Ef afli bregst á tilteknu svæði fá útgerðarmenn bætt úr Aflatryggingasjóði eftir vissum reglum 75% af meðalafla s. l. ára, og ef um togskip er að ræða, þá upp í 85%. Það er framlag, en ekki lán. En þegar kemur að bændum er annað uppi á teningnum. T. d. varð afurðatjón hjá sauðfjárbændum í mörgum sveitum á Norðurlandi að meðaltali um 2 millj. á hvern framleiðanda vegna minni fallþunga dilka, en hjá einstaka bónda verulega miklu meira. Þegar tilkostnaður allur verður miklu meiri í slíku árferði, sem gefur auga leið, verða nettótekjur þessara bænda ekki beysnar. Þó er ekkert farið að athuga þennan þátt. Hvað veldur? Það eina, sem gert hefur verið, er að samþykkja ríkisábyrgð upp á 1500 millj. kr. og skera niður lögboðin framlög til Bjargráðasjóðs, eins og fram hefur komið í máli mínu hér að framan.

Margir bændur, ekki síst þeir sem urðu fyrir mestu tjóninu, hafa spurt mig að því síðustu vikurnar, hvort yfirlýsingar forustumanna stjórnmálaflokkanna séu marklausar. Ég hef svarað öllum slíkum spurningum neitandi og bent á að óvenjulegt stjórnmálaástand hafi verið í landinu síðan á haustnóttum. Hinu er ekki að leyna, að ef slíkar spurningar verða upp bornar eftir að þinghaldi lýkur nú og engin hreyfing verður komin á þessi mál frekar en orðið er, þá er hætt við að lítið verðu um svör og ekki þægilegt að standa frammi fyrir þeirri staðreynd að ekki er lengur hægt að svara slíkum spurningum neitandi. Í slíkum sporum vil ég a. m. k. ekki þurfa að standa. M. a. þess vegna hef ég gert þessi mál hér og nú að umræðuefni og lagt spurningar fyrir hæstv. forsrh. og fyrir hæstv. fjmrh. er ég óska að fá svör við.