28.05.1980
Neðri deild: 87. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3189 í B-deild Alþingistíðinda. (3117)

154. mál, Bjargráðasjóður

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það eru örfá orð. Ég ætla ekki að verða til þess að það hefjist hér umr. um landbúnaðarmál á þessum degi, það er ýmislegt annað að gera, en það, sem mín ætlan var að drepa á, er að mestu leyti komið fram.

Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svör hans og ég veit að við þau verður staðið, en ég vil benda ráðh. á að ef framkvæmdin á að verða hliðstæð því, sem áður hefur verið, og hliðstæð því, sem var í sambandi við t. d. grásleppuveiðimenn, þá verður að meta afurðatjónið sem varð á s. l. ári á Norður- og Austurlandi og e. t. v. víðar. Ég vil ekki fullyrða neitt um hvað út úr því mati kemur, víl ekki gera það á þessari stundu, en miðað við yfirlýsingarnar, sem voru gefnar fyrir ári, og yfirlýsingu forsrh. nú þarf að athuga þessi mál.

Ég vil líka minna á það, sem hv. 5. þm. Suðurl., Magnús H. Magnússon, kom inn á, að grásleppusjómenn fengu framlag, en ekki lán. Ég vil minna fyrrv. félmrh. á að þessir menn höfðu ekki borgað neitt neins staðar í tryggingasjóði, ekki í Aflatryggingasjóð. (Gripið fram í: Í gamla daga.) Í gamla daga? Ja, fyrir 1970. En samt var þetta gert þannig. Ef ráðh. hefði haft skilning á málum og viljað gera eins við bændur ekki síst miðað við þær yfirlýsingar sem ég vitnaði til, er það náttúrlega að fara þveröfugt að hlutunum að setja þessi brbl.

En ég vil ekki verða til þess að það verði miklar umr. um þetta. Ég vænti þess og veit, að hæstv. forsrh. mun sjá til þess að þessi mál verði athuguð og að bændur fái svipaða fyrirgreiðslu og aðrir hafa fengið.