28.05.1980
Neðri deild: 87. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3190 í B-deild Alþingistíðinda. (3118)

154. mál, Bjargráðasjóður

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Út af fsp. hv. 7. landsk. þm. vil ég taka það fram, að vandamál kartöflubænda verða tekin til meðferðar ásamt öðrum vandamálum sem fyrir liggja. Ein af ástæðunum til þess, að mál þessi hafa dregist, eins og ég gat um áðan, er sú, að stjórn Bjargráðasjóðs hefur verið nokkur vandi á höndum að afgreiða þessi mál frá sér og gera ákveðnar tillögur um lánakjör fyrr en endurskoðun hefur farið fram á tekjustofnum sjóðsins, m. ö. o. þangað til það frv. hefur náð fram að ganga sem hér liggur nú fyrir til umr. Um leið og það er orðið að lögum ætti ekkert að verða því til fyrirstöðu að ganga í að reyna að afgreiða þessi mál sem lengi hafa dregist.