28.05.1980
Neðri deild: 87. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3190 í B-deild Alþingistíðinda. (3119)

154. mál, Bjargráðasjóður

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Ég vil segja örfá orð um þetta mál. Enda þótt fsp. hafi verið beint til hæstv. forsrh. og málefni Bjargráðasjóðs heyri undir félmrn. snerta þau einnig verulega það rn. sem ég hef með höndum.

Ég tek undir það með hv. 2. þm. Norðurl. e., að það er mjög miður hversu hefur dregist að afgreiða málefni Bjargráðasjóðs og gera mögulega þá aðstoð sem er nauðsynlegt að veita af hans hálfu vegna harðindanna á s. l. vori. Ég ætla ekki að skýra frekar en hér hefur komið fram hvernig í þeim drætti liggur. En eins og nú er komið þarf að afgreiða það frv., sem hér er væntanlega til lokaafgreiðslu á þessum fundi, og enn fremur lánsheimildir sjóðsins með frv. að lánsfjárlögum. Ég vænti þess, að sú aðstoð, sem veitt verður eftir að afgreiðsla þessara frv. hefur farið fram á hinu háa Alþingi, geti orðið með næsta skjótum hætti eða eins skjótt og mögulegt er, en það hefur sannarlega dregist allt of lengi, eins og ég hef þegar lýst.

Ég vil segja út af orðum hv. 2. þm. Norðurl. e., að það tjón, sem orðið hefur í landbúnaðinum af völdum harðærisins á síðasta ári, er auðvitað mjög mikið. Það verður reynt að mæta því tjóni sem orðið hefur varðandi fóðurskort og þar af leiðandi kaup og flutninga á fóðri, uppskerubrest á garðávöxtum, það, sem hann hefur hér nefnt tjón á bústofni, og tjón á afurðum sem orðið hefur vegna sérstakra áfalla. Enn hefur ekki verið farið út í það að meta tjón eða tekjutap bænda sem verður vegna minni afurða eða rýrðar á dilkum eða minni mjólkur úr mjólkurkúm. Það hefur ekki verið gert til þessa, og ég hygg að það sé skilningur fyrir því, að bændur sjálfir verði að taka á sig að mæta sveiflum í þeim sökum. Stundum koma góð ár hvað fallþunga dilka snertir, en stundum koma mögur ár. Slíkum sveiflum verða bændur að vera viðbúnir að mæta. Ég hef þess vegna ekki tekið undir það, að þessi þáttur væri metinn til bóta eða aðstoð Bjargráðasjóðs næði til hans, enda þótt það sé hárrétt, sem hv. þm. sagði, að tekjutap einstakra bænda hvað þennan lið einan snertir hefur í sumum tilvikum leikið á milljónum kr. — En hina þætti málsins þarf að taka til athugunar. Þeim þarf að mæta með þeirri aðstoð sem eðlileg er á grundvelli þessa sjóðs.

Um þau tryggingamál, sem hv. 7. landsk. þm. gerði að umtalsefni varðandi nýjar búgreinar, hef ég látið í ljós að ég telji mikla nauðsyn að þar verði komið á tryggingakerfi, t. a. m. í sambandi við fiskeldi, til þess að hægt sé að mæta áföllum, sem nýleg dæmi og fyrri dæmi sýna að geta komið hvenær sem er, að því er virðist, og með óvæntum hætti, með aðstoð frá tryggingafélögum eða tryggingasjóðum þannig að ekki þurfi hverju sinni að verða um sérstakt mat á því að ræða hvernig slíku tjóni skuli mætt af almannafé. En ég tel eðlilegt að slíkt mat fari fram og aðstoð með almannafé komi til að einhverju leyti þangað til tryggingar eru komnar á það stig að ná yfir þessar búgreinar. Þetta atriði í máli hv. þm. vil ég þess vegna taka undir og hef reyndar áður látið það í ljós og er feginn því að heyra slíkar skoðanir hjá hv. þm. Halldóri Blöndal. — [Fundarhlé.]