28.05.1980
Neðri deild: 87. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3192 í B-deild Alþingistíðinda. (3121)

154. mál, Bjargráðasjóður

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég ætla að fara örfáum orðum um það mál, sem hér til umræðu, og segja að ég tek undir margt af því sem hv. 2. þm. Norðurl. e.,

Stefán Valgeirsson, sagði við upphaf málsins í dag. Ég vil þó bæta við nokkrum setningum.

Hér erum við að fjalla um það að bæta bændum á einhvern skikkanlegan hátt það tjón sem þeir hafa orðið fyrir af völdum harðinda. Við tölum um kartöfluræktarbændur, við tölum um að bæta bændum tjón sem þeir verða fyrir vegna rýrari dilka, vegna fóðurbætisflutninga, aukinnar fóðurbætisgjafar og fleira af því tagi. En nú vil ég bæta við — og vænti þess fastlega að það sé ekki mikill munur á Jóni og séra Jóni: Væri ekki hugsanlegt, á sama tíma og við erum að fjalla um bætur eða aðstoð til handa bændum vegna harðinda og vegna sjúkdóma, að bæta við fiskræktarbændum? Geta þeir ekki flokkast í þennan sama flokk? Ég vænti þess, að hv. þm. viti hvað ég er að tala um þegar ég nefni þetta. Ég sé engan mun á þeim málum, sem hér eru til umræðu nú og ég mun styðja, og því máli, sem ég er að vitna til og öllum þingheimi er kunnugt um hvað er. Og ég vænti þess, að þeir þm., sem fara fram á stuðning við mál af því tagi sem hér er til umræðu, veiti stuðning máli sem er af örlítið öðrum toga spunnið, en flokkast undir nákvæmlega það sama. Ég vænti þess, að þeir menn, sem leita eftir stuðningi stjórnarandstöðuþingmanna í þessu tilviki, veiti líka stuðning öðru máli sem er af mjög svipuðum toga spunnið og kemur væntanlega til umræðu hér á hv. þingi á morgun.

Þetta vildi ég láta verða mitt innlegg í þessa umræðu og vænti þess fastlega, að það verði ekki af einhverjum sérstökum ástæðum, sem ég ætla ekki að rekja að þessu sinni hverjar kynnu að vera, að þeir geri greinarmun á mönnum, sem svo mjög hefur verið talað um hér á þingi í dag að gerður væri á sjómönnum og bændum. Ég vænti þess, að sömu þm. sem þannig tala geri ekki greinarmun á bændum, hvort sem þeir eru með sauðfjárhald, kýr eða stunda fiskrækt.