09.01.1980
Neðri deild: 15. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í B-deild Alþingistíðinda. (313)

23. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Dómsmrh. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Vegna fsp. hv. 1. þm. Norðurl. e. er því til að svara, að í frv., sem lagt var fyrir 99. löggjafarþingið árið 1977, var með sama hætti gert ráð fyrir 25% þátttöku Reykjavíkur og nágrannabyggðarlaganna þar í kring. Á þeim tíma var samkomulag um þetta, og nefndin, sem skipuð var til að endurskoða frv. í ágúst 1978, leit svo á að þátttaka nefndra sveitarfélaga hefði verið ákveðin. Eins og ljóst varð í sambandi við umr. um þetta mál á síðasta ári, hafa a.m.k. tiltekin sveitarfélög ekki fallist á þá málsmeðferð. Við töldum engu að síður rétt að leggja frv. fram í núverandi mynd og freista þess að lausn fyndist í þn. þegar málið kæmi til hennar. Menntmrn. er fyrir sitt leyti vitaskuld reiðubúið að taka þátt í að kynna slíka lausn ef það má til góðs horfa. En ég vil taka undir það með hv. þm., að hér er um ákaflega viðkvæma hluti að ræða og ég mundi auðvitað harma ef þetta yrði til þess að málið dagaði eina ferðina enn uppi; því að eins og komið hefur fram hjá öllum þeim, sem um málið hafa fjallað, er hér um nauðsynjamál að ræða. Ég treysti því, að hv. menntmn. í samvinnu við sveitarfélög og í samvinnu við rn., ef á þarf að halda, muni finna þá lausn á þessu sem viðunandi er fyrir alla aðila.