09.01.1980
Neðri deild: 15. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í B-deild Alþingistíðinda. (314)

23. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af þessu máli.

Ég skal ekki draga í efa að menningarauki sé að Sinfóníuhljómsveitinni og flutningi verka hennar, þó að ég sé sjálfur enginn sérstakur aðdáandi slíkra verka. En ég vil aðeins minna menn á að ekki er síður menningarauki að ýmissi annarri starfsemi í landinu og henni þarf jafnframt að sinna og ekki síður að mínu viti en því sem hér um ræðir.

Það er rétt sem hv. þm. Pálmi Jónsson kom inn á áðan, menn eru alltaf að tala um að spara og það megi spara í ríkisútgjöldum. En hvar ætla menn að byrja? Hvar á að byrja á að spara? Er þetta eitt af því sem alls ekki má spara? Er um tómt mál að tala að gæta megi aðhalds í fjármálum í sambandi við Sinfóníuhljómsveitina? Ef svo er, að þetta sé það nauðsynlegasta sem alls ekki megi taka tillit til í sparnaði, segi ég fyrir mitt leyti: Þá er hvergi hægt að spara ef það s jónarmið á að ráða. Ég er ekki með þessum orðum að mæla á móti því að eðlilegt sé að Sinfóníuhljómsveit sé starfandi í landinu.

Það er líka rétt, sem kom fram hjá hv. þm. Pálma Jónssyni, að ekki síðast þegar rætt var um þetta mál, ég þori ekki að segja um það, en þá næstsíðast þegar var rætt um það, þá var ágreiningur um fjölda hljóðfæraleikara, sem var auðvitað ágreiningur um hvað hlutirnir ættu kosta, hvað ætti að borga fyrir þá.

Ég sé að í aths. með þessu frv. er sagt einhvers staðar, að „nefndin varð sammála um að ákvæði 6. gr., sem tiltók fjölda hljóðfæraleikara sem ráða mætti til fastra starfa, væri óeðlilegt, auk þess yrði það þess valdandi að ef til stæði einhvern tíma í framtíðinni," segja þeir, „að bæta þó ekki væri nema einum hljóðfæraleikara við hljómsveitina þyrfti til þess lagabreytingu.“ — Mér er sagt að ekki alls fyrir löngu hafi hljóðfæraleikarar í Sinfóníuhljómsveitinni verið 48. Tiltölulega skömmu síðar voru þeir 59, og mér skilst að nú séu þeir 65. Mér er sagt það. (Gripið fram í: Verðbólgan.) Verðbólgan, segir einhver. Og ég vil spyrja hæstv. ráðh., ég veit að hann veit það, hver sé tala hljóðfæraleikara núna í Sinfóníuhljómsveitinni, og þá er ég auðvitað að tala um fastráðna því að ég geri ráð fyrir að menn séu að tala um það hér.

Verði frv. samþykkt svona er augljóst að á hinn veginn þarf einnig lagabreytingu. Ef mönnum dytti einhvern tíma í hug að fara að spara og fækka hljóðfæraleikurunum úr 65 þyrfti líka lagabreytingu til að fara niður á við. Ég sé ekki að það sé neitt eðlilegra að lagabreytingu þurfi til að spara en til þess að auka kostnaðinn. Mér finnst miklu eðlilegra að lagabreytingu þurfi til að auka kostnað við eitthvert tiltekið fyrirtæki en það þurfi að breyta lögum ef mönnum dytti allt í einu í hug að fara að spara.

Ég ætla sem sagt ekki að mæla gegn frv., en ég vil lýsa þeirri skoðun minni, að ég sé ekkert sérstakt sem mælir með því og ég veit ekki hvaða vísindalegur útreikningur liggur að baki því, að nákvæmlega 65 hljóðfæraleikara þurfi, og hvaða tónlistarverk sé t.d. lagt að baki þeirri tölu. Hér er kannske spurt af fáfræði, ég veit það ekki, en ég sé ekki að það sé alfarið rétta talan sem menn eru hér að tala um.

Fyrrv. menntmrh., Ragnar Arnalds, sagði áðan að um þetta hefði verið alger eining í nefndinni sem útbjó frv. Út af fyrir sig er slíkt ekki óskiljanlegt, því að mér skilst að þá hafi verið búið að útiloka þá aðila sem áttu að sjá um aðhaldið að fjármagninu, þ.e. a. s. hagsýslu- og fjvn.-fulltrúana. Það voru þeir sem fyrst og fremst gerðu aths. í hinni nefndinni, vegna þess að þeir áttu að gæta buddunnar í sambandi við útgjöldin.

Ég endurtek sem sagt, að ef þetta er það málefni sem mönnum sýnist alfarið útilokað að spara tilkostnað við þætti mér gaman að fá að heyra hvaða mál það eru sem sömu einstaklingar telja að megi nú allt í einu fara að spara fé til.