28.05.1980
Sameinað þing: 68. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3198 í B-deild Alþingistíðinda. (3140)

Rannsókn kjörbréfs - varamenn taka þingsæti

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Á Íslandi eru nú í fyrsta sinn 10 ráðherrar í stjórnarstólum. Þeir hafa ráðið sér 5 eða 6 aðstoðarmenn, sem eru a. m. k. á þingmannslaunum, svo að ekki sé meira sagt. Í stjórnartíð núv. hæstv. ríkisstj. hafa fleiri varaþm. tekið sæti en nokkru sinni fyrr á jafnlöngu tímabili í sögu lýðveldisins. Hæstv. ráðh. munu ekki fá verðlaun fyrir „bekkpressu“ hér á þingbekkjum síðari hluta vetrar. Enn eru ráðh. að biðja um að fá mál afgreidd. Nú þegar komið er að þinglokum og hótanir liggja fyrir um verkföll fjölmennra starfshópa heilla stétta eru tveir ráðh. a. m. k. að hlaupa úr landi og bændur úr stjórnarliðinu hverfa til síns heima til að hlusta á mófugla. Þegar nú hefur tekist samkomulag um að það séu 24 klukkustundir til þingloka á að fara að taka inn varamenn. Það hefur ekki verið reynt að ná samkomulagi við stjórnarandstöðuna um að víkja frá við atkvgr.

Ég vil nota þetta tækifæri til að mótmæla því harðlega, hvernig núv. hæstv. ríkisstj. misnotar fé skattborgaranna. Ég mun ekki taka þátt í afgreiðslu nýrra kjörbréfa. Ég vil líka taka það fram, að ég er ekki með þessu á neinn hátt að veitast að þeim einstaklingum sem í hlut eiga og eru nú boðaðir til þingstarfa.