28.05.1980
Sameinað þing: 68. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3200 í B-deild Alþingistíðinda. (3143)

Rannsókn kjörbréfs - varamenn taka þingsæti

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þessar umr.

Eins og alþjóð horfði upp á í sjónvarpi í gærkvöld boðaði formaður Alþfl., að strákur kynni að hressast, og átti þar við hv. þm. Vilmund Gylfason. Ég sé á ræðu hans áðan að hv. þm. er foringjahollur maður og tekur strax til við sínar gömlu ræður, eins og við heyrðum áðan.

En í alvöru sagt er það rétt, að til greina gæti komið að samkomulag væri gert við stjórnarandstöðuna um slík skipti á gagnkvæmri fjarveru. En vandinn er sá, að hér þarf samkv. þingsköpum ákveðinn fjölda manna til að taka þátt í atkvgr. til þess að gildar séu. Slíkt samkomulag um gagnkvæma fjarveru dugir því ekki til að koma málum áfram. Ef það væri hins vegar hægt að innleiða hér í Nd. það ágæta samkomulag, sem hefur tíðkast nokkuð oft í Ed., að ef á þarf að halda greiði einn eða tveir stjórnarandstæðingar atkv. á móti einstökum greinum lagafrv., þá væri e. t. v. hægt að minnka þörfina á því að taka varamenn inn. Það skal ekki standa á mér, og ég veit að það stendur ekki á öðrum í stjórnarliðinu, að gera slíkt samkomulag við stjórnarandstöðuna, ef hún er reiðubúin til þess, og við getum þá athugað það á næsta þingi.

Til viðbótar vildi ég segja að mér skilst að þær siðvenjur tíðkist að þeir varamenn, sem koma hér inn síðustu daga þings, fái eingöngu borgað fyrir þá daga sem þeir sitja á þinginu, í þessu tilfelli einn eða tvo daga. En aðalatriðið er að menn átti sig á því, að það dugir ekki að gera svona samkomulag sem hv. þm. Vilmundur Gylfason var að benda á, heldur þurfa einnig að vera til staðar nægilega margir þm. við atkvgr.