28.05.1980
Sameinað þing: 68. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3201 í B-deild Alþingistíðinda. (3144)

Rannsókn kjörbréfs - varamenn taka þingsæti

Matthías Á Mathiesen:

Herra forseti. Ég vil taka undir þá gagnrýni sem hér hefur komið fram vegna þess varamannaflóðs sem verið hefur á. þessu þingi og sýnist ekki minna þótt aðeins 24 klukkustundir séu til þinglausna.

Hv. 11. þm. Reykv. vék að fyrirmynd þeirra í hv. Ed. Ég veit að honum er vel kunnugt um að oft og tíðum hafa mál ríkisstj. farið í gegnum Nd. með mótatkv. stjórnarandstöðunnar til að flýta fyrir afgreiðslu mála á þingi. Ágæti þeirra í Ed. hefur því líka verið til í Nd. Auk þess vil ég vekja athygli hans á því, að enda þótt hér sætu ekki á þingi nema — (ÓRG: Menn þroskast nú betur í Ed. en Nd.) Ég held einhvern veginn að hv. þm. hafi setið í Ed. alla tíð — er það ekki rétt? — og ætti samkv. því að vera vanþroskaður ef menn komast ekki í Ed. öðruvísi en vera þroskaðir úr Nd. — En hér hefur sá háttur verið hafður á, a. m. k. þann tíma sem ég hef verið hér að þegar þm. hafa þurft að bregða sér frá í örstuttan tíma hefur slíkt samkomulag verið gert sem hér hefur verið að vikið, og til þess að mál næðu fram að ganga, enda þótt menn væru ekki viðbúnir að fylgja málum, greiddu þeir ýmist atkv. á móti eða tryggðu það með öðrum hætti, t. d. við nafnakall, að vera viðstaddir með hjásetu, en þá er hægt að koma málum áfram.

Þetta vildi ég láta kom fram, ef hv. 11. þm. Reykv. hefur ekki gert sér grein fyrir því, að hvað eftir annað hafa mál ríkisstj. farið í gegnum Nd. með aðstoð stjórnarandstöðunnar með nákvæmlega sama hætti og ég veit að verið hefur í Ed.