28.05.1980
Sameinað þing: 68. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3202 í B-deild Alþingistíðinda. (3148)

Rannsókn kjörbréfs - varamenn taka þingsæti

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Aðeins örfáar aths.

Það er furðuleg árátta hjá formanni þingflokks Framsfl., Páli Péturssyni, að svara gagnrýni, sem fram kemur á hinu háa Alþingi, með dylgjum um ónafngreinda menn eða með tilraunum til að vera fyndinn, sem bókstaflega koma þessu máli ekkert við. Hér er um það að ræða að verið er að leggja til að samþykkja tvo nýja varamenn á Alþ. á næstsíðasta degi þings, þegar 24 klukkustundir eru eftir þangað til þingi á að ljúka. Talsmenn bæði flokksins og flokksbrotsins, sem eru í stjórnarandstöðu, hafa lýst því yfir, að þeir hefðu fyrir sitt leyti verið til þess búnir að gera samninga svo að fjarvera þm. þyrfti ekki að koma að sök. Við vitum báðir mætavel, ég og hv. þm. Páll Pétursson, um hvað verið er að tala. En að svara með dylgjum um ónefnda þm. á næstliðnu þingi er eiginlega óforskammað og út í hött og dónalegt vegna þess að þetta mál snýst ekki um þá. Það snýst ekki heldur um persónu mína, hvernig ég standi að samningagerð, eða persónu nokkurs annars hv. þm. hér í salnum. Þetta mál snýst um þetta eitt, að verið er að gagnrýna að á næstsíðasta degi þingsins er verið að kalla inn tvo varamenn. Það er kannske ástandslýsing sem á varla við stjórnmálafræðinga og er varla til úrlausnar fyrir þá, eins og hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson, heldur fyrir sálfræðinga, að það er formaður og hv. þm. þessa sama þingflokks sem er að kalla inn varamenn sem svarar fyrir sig með dónaskap, útúrsnúningi og dylgjum.

Þm. hafa af því áhyggjur og þeir vilja að reisn Alþingis sé mikil bæði inn á við og út á við. Það er áhyggjuefni að reisn Alþingis er skaði gerður með þeim ákvörðunum sem nú á að fara að biðja hv. Alþ. að taka. Það er um það sem þetta mál fjallar. Það er út á það sem þessi gagnrýni gengur. Dylgjur, útúrsnúningar og fimmaurabrandarar hv. þm. Páls Péturssonar koma þessu máli nákvæmlega ekkert við. Þessi gagnrýni hefur komið fram og hún stendur. Það er þessari virðulegu stofnun með virðulega sögu til skammar að hún skuli vera beðin um að afgreiða svona mál á þessum tíma, og það er enn fremur þessari virðulegu stofnun til skammar með hvaða hætti hv. þm. Páll Pétursson telur sæma að svara fyrir sig. Faglegar útskýringar á því, hvað hér er um að ræða, eiga við, en þessi svör, þessar dylgjur, sem vafalaust eru ósannar eins og dylgjur eru oftast um ónafngreinda menn sem kunna að vera farnir út af þinginu, enginn veit, eru fyrir neðan virðingu meira að segja þessa hv. þm.