29.05.1980
Neðri deild: 91. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3215 í B-deild Alþingistíðinda. (3173)

17. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls var m. a. minnst á lántökugjald það sem gert er ráð fyrir í frv. þessu. Þeim spurningum, sem komið hafa fram um það efni, ber þannig að svara, að lántökugjald hefur verið 1% af lánum hjá Húsnæðismálastofnun ríkisins og engar ráðagerðir eru uppi um breytingar á því. Sama er að segja um þóknun þá sem tekin er samkv. lögum og gert er ráð fyrir í frv. þessu.

Eins og nú háttar tekur veðdeild Landsbankans 0.25% í sinn kostnað við þá fyrirgreiðslu sem hún veitir lántakendum Byggingarsjóðs ríkisins. Þessi þóknun veðdeildarinnar hefur gengið til þess að borga kostnað hennar, en í frv. þessu er nú gert ráð fyrir að ekki einasta verði þessi þjónusta bundin við veðdeild Landsbankans, heldur verði einnig heimilt að semja við aðrar bankastofnanir.

Það af lántökugjaldinu eða þóknuninni, sem kynni að verða umfram þann kostnað sem þarf að leggja í vegna samninga við bankastofnanir um þjónustu, rennur síðan í Byggingarsjóð ríkisins svo sem verið hefur.

Þetta vildi ég taka fram, herra forseti, vegna spurninga sem fram komu hér við 2. umr. málsins.