29.05.1980
Neðri deild: 91. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3216 í B-deild Alþingistíðinda. (3174)

17. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Frsm. meiri hl. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Eins og ég skýrði frá í framsöguræðu minni fyrir áliti meiri hl. félmn. við 2. umr. leitaði nefndin til Þjóðhagsstofnunar, nánar tiltekið Hallgríms Snorrasonar, um upplýsingar í sambandi við fjármögnun húsnæðismála, þar með talið tekjustofna, að því er varðar frv. Nefndin fékk ýmsar upplýsingar, en jafnframt taldi fulltrúi Þjóðhagsstofnunar að lengri tíma þyrfti til að gefa fyllri upplýsingar. Í framhaldi af því skrifaði ég Þjóðhagsstofnun í umboði nefndarinnar 23. maí s. l. og óskaði eftir að gerðir yrðu frekari útreikningar. Þessir útreikningar, sem eru þó aðeins fyrstihluti, bárust n. í gær, 28. maí, og ákvað félmn. á fundi sínum í morgun að leggja þessa útreikninga fram sem framhaldsnefndarálit á þskj. 637 til upplýsingar í málinu. Jafnframt hef ég fyrir hönd n. óskað eftir því við Þjóðhagsstofnun að hún ljúki frekari útreikningum um málið, sem síðan yrðu sendir Húsnæðisstofnun ríkisins. Geta þessir væntanlegu útreikningar hugsanlega komið að notum við undirbúning fjárlaga og lánsfjáráætlunar að því er varðar fjármögnun húsnæðismálakerfisins fyrir árið 1981.

Eins og kemur fram í þessu áliti frá Þjóðhagsstofnun er hér um hluta af þessu verkefni að ræða, og til þess að lengja ekki umr. hér á svo skömmum tíma sem við höfum yfir að ráða vil ég geta þess, eins og hv. alþm. geta lesið sér til í því áliti sem dreift hefur verið, að þetta er byggt á ýmsum forsendum, sem geta að vísu verið umdeilanlegar. Í aths. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Tekið skal fram, að reikningum þessum er fyrst og fremst ætlað að gefa grófa mynd af mögulegri þróun yfir langt árabil, miklu fremur en að sýna nákvæmar breytingar frá einu ári til annars. Dæmi sem þessi verður að reisa á safni tilbúinna forsendna sem margar ráða afar miklu um niðurstöður, auk þess sem þær eru umdeilanlegar og hljóta að breytast með tímanum.“

Þetta tel ég ástæðu til að undirstrika hér, því að vissulega eru svona útreikningar nauðsynlegir til að átta sig á þeirri líklegu þróun sem stefnt er að. Eins og ég tók fram í framsöguræðu fyrir álit meiri hl. við 2. umr. er hægt að byggja útreikninga á svo ólíkum forsendum að það er ekki þar með sagt að þeir séu blákaldar staðreyndir. Hins vegar er nauðsynlegt í svo viðamiklu máli sem húsnæðislöggjöfin er og hlýtur að verða, að það liggi fyrir eins miklar tölulegar upplýsingar og mögulegt er að ráða yfir við þær aðstæður sem við búum við. Þess vegna dreg ég ekki úr gildi þess að slík vinna sé lögð fram og sé tekið mið af slíku við ákvörðun um þessi mál.

Eins og kom fram í áliti meiri hl. teljum við, og það er ljóst, að æskilegt hefði verið að fjármögnunarþáttur frv. væri fyrir fram ákveðinn til að ná þeim markmiðum sem frv. gerir ráð fyrir. En í sambandi við þessa löggjöf er sú almenna ákvörðun að um er að ræða stefnumarkandi löggjöf fyrst og fremst, en ætlast er til að ríkisstj. og Alþ. taki ákvörðun við fjárlagagerð og lánsfjáráætlun um hvað hratt verður farið í sambandi við þessi mál.

Það er óumdeilanlegt, að hér er um þýðingarmikla löggjöf að ræða, og það hefur ekkert komið fram í umr. um þetta mál, hvorki í Ed.Nd., sem vefengir það. Það er einnig staðreynd, að um árabil hefur þessi löggjöf verið í endurskoðun og mótun hjá mörgum nefndum skipuðum færustu mönnum á því sviði. Miðað við allar þær umsagnir, sem fyrir liggja, er ljóst að þetta frv., ef að lögum verður, markar tímamót í húsnæðismálum hér á landi. Með tilvísun í þetta leggjum við til, og það er óbreytt álit okkar frá því að það kom fram við 2. umr., þ. e. meiri hl. n., að frv. verði samþykkt óbreytt eins og það liggur fyrir.

Ummæli hafa komið oftar en einu sinni fram frá hv. 5. þm. Suðurl. þar sem hann hefur vitnað í stefnuyfirlýsingu fyrrv, ríkisstj. undir forustu Ólafs Jóhannessonar um stefnuna í húsnæðismálum, sem var að hans mati grundvöllur fyrir því frv. sem hér var lagt fram og var kennt við fyrrv. ríkisstj. Mér finnst ástæða til að láta það koma fram hér, að í stefnuskrá þeirrar ríkisstj., sem var mynduð 1978, segir svo um húsnæðismálin, með leyfi hæstv. forseta:

„Áhersla verði lögð á félagsleg sjónarmið í húsnæðismálum. Sett verði löggjöf um réttindi leigjenda. Löggjöf um verkamannabústaði verði endurskoðuð. Stefnt verði að því að hækka húsnæðislán og létta fjármagnsbyrði með lengingu lánstíma.“

Þetta var kjarninn í stefnu þeirrar ríkisstj. sem lagði húsnæðismálafrv. fram og það var ástæðan fyrir því, að ég og fleiri lögðum áherslu á að reynt yrði að standa við þessi markmið með því að lengja lánstímann og setja hærra það markmið sem að er stefnt í sambandi við húsnæðismálin. Það er í samræmi við stefnu Framsfl.

Ég ætla ekki, herra forseti, að tefja þessar umr. Mér þótti rétt að gera aðeins grein fyrir viðbótarnál. Það er fyrst og fremst innlegg í þetta mál, en framhaldið, eins og ég tók fram áðan, verður væntanlega til að auðvelda ákvörðun við fjárlagagerð og lánsfjáráætlunargerð fyrir árið 1981.

Ég vil svo að lokum þakka meðnm. mínum í félmn. Nd. fyrir gott starf og ágætt samstarf um að greiða fyrir framgangi málsins.