29.05.1980
Neðri deild: 91. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3217 í B-deild Alþingistíðinda. (3175)

17. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Frsm. 1. minni hl. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég get verið stuttorð því við 2. umr. gerði ég ítarlega grein fyrir þeim þætti sem ég gagnrýni mest, þ. e. fjármagnsþættinum, og tel reyndar að ekkert hafi komið fram við þessa umr. um mál þetta sem bendir til að vísbendingar þær um fjármagnsvöntun, sem fram komu á nál. mínu á þskj. 608, séu ekki réttar.

Í framhaldsnefndaráliti á þskj. 641 kemur fram afstaða þm. Alþfl. til þessa máls og vil ég, með leyfi hæstv. forseta, fá að lesa upp það nál.:

„Í nál. 1. minni hl. á þskj. 608 var gefin vísbending um þá miklu lánsfjárþörf sem staðið er frammi fyrir miðað við þá tekjustofna sem frv. byggir á, — ef Alþ. samþykkti frv. með þeim breytingum sem Ed. hefur gert.

Auk þess var sýnt fram á að ekki er um að ræða aukningu á heildarfjármagni inn í félagslega kerfið frá því sem upphaflegt frv. gerði ráð fyrir. Þvert á móti stendur fjárhagsgrundvöllur félagslegra íbúðabygginga ekki eins traustum fótum — vegna aukningar sem skapast á lánsfjárþörf. Þrýstingurinn mun einnig aukast geysilega yfir á félagslega kerfið, — ef fjármagn er dregið frá Byggingarsjóði ríkisins til Byggingarsjóðs verkamanna. Í því sambandi ber að hafa í huga að um 2/3 af félögum innan ASÍ hafa tekjur umfram það mark að geta fengið keyptar íbúðir í verkamannabústöðum.

Brtt. Ed. stefna því fjárhagsgrundvelli húsnæðiskerfisins í heild í mikla tvísýnu, jafnt félagslegum íbúðabyggingum sem í almenna íbúðalánakerfinu, auk þess sem draga verður í efa ávinning almenna lánakerfisins til íbúðabygginga frá því sem er, — sem nú stendur í mikilli óvissu fjárhagslega eftir breytingar Ed.

Nú liggja fyrir viðbótarupplýsingar frá Þjóðhagsstofnun, sem eru hluti af umbeðnum upplýsingum frá félmn., og eru birtar á sérstöku þskj. Þær upplýsingar staðfesta enn frekar vísbendingar 1. minni hl. á þskj. 608 um að fjárhagsgrundvelli íbúðabyggingakerfisins í heild er stefnt í mikla tvísýnu.

Þó æskilegt hefði verið að bíða eftir frekari útreikningum Þjóðhagsstofnunar áður en frv. verður samþykkt — og gagnrýna megi málsmeðferð frv. á Alþ. varðandi fjármögnunarþáttinn sérstaklega, þá mun Alþfl. styðja framgang húsnæðismálalöggjafarinnar í trausti þess að fjármögnunarþáttur frv. verði endurskoðaður af ríkisstj. þegar allir útreikningar liggja fyrir, á þann hátt að hægt sé að standa við skuldbindingar frv.

Þm. Alþfl. eru þeirrar skoðunar, að með breytingum þeim, sem Ed. hefur samþykkt á frv. fyrir tilmæli ríkisstj., standi fjáröflun hins opinbera húsnæðislánakerfis í algjöru uppnámi, eins og allar talnalegar upplýsingar, sem fram hafa verið lagðar, benda til, og sé svo er ávinningur launafólks við samþykkt frv. léttvægur, því mestöll baráttan er þá eftir. Staðfesti reynslan þessa skoðun Alþfl. áskilja þm. flokksins sér rétt til þess að taka fjármögnunarþátt lánakerfisins sérstaklega upp aftur á Alþingi.“