29.05.1980
Neðri deild: 91. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3221 í B-deild Alþingistíðinda. (3177)

17. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Það hefði verið ástæða til að ræða þetta frv. ítarlega og efnislega, þó að margt sé búið að segja um efni þess. Ég skal þó ekki verða til þess að tefja um of þessar umr. En ég vil benda á eitt, sem er grundvallaratriði, að þegar Alþ. samþykkir ný og aukin útgjöld á þjóðina á einnig að liggja fyrir á hvern hátt eigi að fjármagna það sem verið er að samþykkja. Ég held að það, sem skiptir mestu máli nú í þessu þjóðfélagi, sé að berjast við verðbólguna, en ekki að auka á verðbólguna með öllu hugsanlegu móti.

Stefna flokks félmrh., Alþb., birtist í skrautlegri útgáfu fyrir kosningarnar 1978. Hún mun vera fyrir löngu uppurin í herbúðum flokksins, því að henni mun hafa verið komið rækilega fyrir kattarnef þannig að fleiri gætu ekki eignast þetta ágæta plagg. En ég hef haldið því til haga. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Árlegar afborganir, vextir og vísitöluálag af lánum Byggingarsjóðs til hverrar íbúðar fari aldrei yfir 20% af daglaunum verkamanns“.

Þetta er falleg hugsjón. Formaður Verkamannasambands Íslands, sem því miður situr nú ekki hér inni, viðurkenndi fúslega hér í vetur að þetta væri þá komið yfir 80% eða sennilega nálægt 90%. En verðbólga ríkisstj. heldur áfram á fullri ferð. Fjmrh. telur ekki vera möguleika fyrir grunnkaupshækkun og sumir aðrir hafa tekið undir það. Nú spyr ég og ég ætlast ekki til þess að því sé svarað hér á þingi, en það væri mjög gaman að fá svar við því t. d. í málgagni Alþb.: Hefur þetta bil ekki aukist nú og kemur það ekki til með að aukast? Hrökkva daglaunatekjur verkamanns, sem kaupir meðalíbúð, fyrir afborgunum, vöxtum og vísitöluálagi? Hvað á þá vesalings maðurinn að gera til að lifa þegar hann fær ekki staðið undir afborgunum, vöxtum og vísitöluálagi af lánum af íbúð sinni?

Nú segja þessir hv. fulltrúar öreiganna, að ekki sé grundvöllur fyrir grunnkaupshækkunum, og neita að tala við launþegasamtökin mánuð eftir mánuð. Og nú bíða þeir í ofvæni eftir að losna við þingið svo þeir geti haldið áfram að flykkjast til útlanda. Einn er farinn og annar á leiðinni, sennilega á leiðinni til Keflavíkur, og allt er í óvissu á öllum sviðum.

Í stefnuskrá Alþb. segir: „Verðbólgan hefur um árabil verið helsta gróðamyndunaraðferð íslenskra fjáraflamanna og flytur stöðugt fjármuni frá allri alþýðu til verðbólgubraskara.“ — Hverjir hafa staðið betur að því, frá því að kosningar fóru fram 1978 og hafa setið í ríkisstjórn í 17 mánuði, að flytja fjármuni frá þeim, sem minnst mega sín, til verðbólgubraskaranna heldur en sjálft Alþb. eða forustumenn þess?

„Verðbólgan fer eldi um fjárfestingarsjóði landsmanna og hvers konar tryggingasjóði alþýðu, svo eigið fé þeirra rýrnar verulega á ári hverju,“ segir einnig í þessu skrautritaða stefnuávarpi Alþb. frá 1978. — Hvað gerist síðan? Halda ekki þessir sjóðir áfram að brenna í báli verðbólgunnar? Formaður Alþb. lýsti yfir í sjónvarpinu í gærkvöld að hann vildi vaxtalækkun og hann sá ekkert því til fyrirstöðu að lækka vextina stórkostlega. En ráðh. Alþb. eru nýbúnir að ákveða vaxtahækkun. Svo fallast þeir í faðma og kyssast og faðmast.

„Verðrýrnun peninganna ýtir undir fjárfestingarkapphlaup og stuðlar að óarðbærri fjárfestingu í stórum stíl,“ segir einnig í þessari stefnuskrá Alþb. (Gripið fram í: Er það ekki rétt?) — Hvaða flokkur hefur gjörsamlega svikið stefnu sína ef það er ekki Alþb., að undanskildum einum flokki sem er Framsfl.? En Framsfl. hefur auðvitað enga stefnu að svíkja því hann á enga stefnu nema að viðhalda verðbólgu. Það er sérstakt fyrirbrigði á himni stjórnmála þar sem er Framsfl., ekki hér á landi, heldur um víða veröld, og þar með talin frumstæð ríki í Afríku og víðar. Það furða sig allir menn á að slíkur flokkur skuli hafa náð jafnmiklum tökum á Íslendingum og þetta fyrirbrigði sem kallaði sig og kallar sig enn Framsfl.