09.01.1980
Neðri deild: 15. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í B-deild Alþingistíðinda. (318)

41. mál, Skattadómur og rannsókn skattsvikamála

Dómsmrh. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um Skattadóm og rannsókn skattsvikamála.

Í 1. gr. þessa frv. segir að setja skuli á stofn sérstakan sakadóm fyrir landið allt og nefnist hann Skattadómur. Aðsetur dómsins skal vera í Reykjavík eða næsta nágrenni.

Í 2. gr. þessa frv. segir:

„Hlutverk Skattadóms er að rannsaka fyrir dómi og dæma í málum sem höfðuð eru af ríkissaksóknara til refsingar vegna brota á skattalögum og brota, sem tengjast skattsvikum, svo sem brotum gegn bókhaldslögum og gjaldeyrislögum.

Leiki vafi á hvort aðalþáttur brots teljist skattsvik eða annars konar brot ákveður ríkissaksóknari hvort mál skuli höfðað fyrir Skattadómi eða öðrum dómstólum.“ Í 6. gr. frv. segir:

„Hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins skal setja á stofn sérstaka deild, er annist hvarvetna á landinu rannsókn á brotum þeim, sem getið er í 2. gr. laga þessara. Fela skal forstöðu deildarinnar sérstökum deildarstjóra, sem lokið hefur lögfræðiprófi og aflað sér sérþekkingar á sviði skatta- og bókhaldsmála. Rannsóknarlögreglustjóra ríkisins er heimilt að fela deild þessari rannsókn annarra mála á skyldum sviðum eftir því sem aðstæður leyfa.“

Í þessum greinum er rakið meginefni þessa frv. En í aths. við lagafrv. þetta segir:

„Frv. þetta er samið í dómsmrn. Með frv. er ætlunin að ná þeim markmiðum að gera alla meðferð skattsvikamála fljótvirkari og skilvirkari, svo og að kveða skýrt á um það hver skuli fara með rannsókn slíkra mála.

Sú leið hefur verið valin að láta óbreytt standa það hlutverk skattrannsóknastjóra að annast almennt skatteftirlit og rannsókn á skattkröfuþætti mála. Komið verði hins vegar á sérstakri deild hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins, sem annist rannsókn skattsvika og brota, sem þeim tengjast. Embætti ríkissaksóknara fari sem áður með ákæruvald í slíkum málum. Setja skal á stofn sérstakan sakadóm í skattamálum — skattadóm — sem dæmi í þeim refsimálum, sem ríkissaksóknari höfðar vegna brota á skattalögum og brota, sem þeim tengjast, svo sem brotum gegn bókhaldslögum og lögum um meðferð erlends gjaldeyris. Umdæmi skattadóms skal vera allt landið samkv. frv.“

Þá er það rakið, að meðal ókosta sérstaks sakadóms á sviði skattamála megi telja að valdmörk geti orðið óskýr ef sami maður er grunaður um mörg mismunandi brot, bæði skyld og óskyld skattsvikabrotum. Reynt er að ráða bót á þessu með því að fela Skattadómi dómsmeðferð þeirra brota sem telja má afleidd, svo sem skjalafals, brot gegn bókhaldslögum og gjaldeyrislögum. Aðaláhersla verði lögð á skattalagabrotið, enda geta viðurlög við broti gegn lögum nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, varðað allt að 6 ára fangelsi samkv. 107. gr. laganna. Telji ríkissaksóknari aðalþátt brotastarfsemi vera annan en skattlagabrot, getur hann höfðað mál fyrir hinum almenna sakadómi.

Þá segir í aths. með lagafrv. þessu: „Óhjákvæmilegt er að leggja sem allra fyrst fram frv. til l. um breyt. á lögum um tekjuskatt og eignarskatt til samræmingar við ákvæði þessa frv.“

Þá eru á þskj. raktar aths. við einstakar greinar frv. og vísa ég til þeirra.

Þá vil ég segja að lokum að umræður um þennan málaflokk hafa verið allverulegar að undanförnu. Það er sennilega óþarfi að tíunda eða rek ja þær, en þó er vert að undirstrika enn einu sinni að á þessum áratug, þegar verðbólga hefur verið svo mikil sem raun ber vitni og allir auðvitað þekkja, er það talið í öðrum samfélögum, og á þá væntanlega einnig við hér, að brot af því tagi, sem þessu frv. er ætlað að ná til, hafi eflaust aukist mjög verulega og sett mark sitt á samfélagið. Ég hygg að löngu sé orðið tímabært að snúast gegn slíku þannig, að með þau brot sé eins farið og önnur brot og að hér séu verulega lagfærðar veigamiklar skekkjur í samfélagi okkar.

Það skal svo sagt að lokum, að sumarið 1978 urðu allverulegar umr. um þessi mál og hvort rétt væri að fara svo að setja upp slíka sérdómstóla. Um það eru skiptar skoðanir meðal löglærðra manna. Á síðasta þingi var flutt frv. um sérstakan skattadómstól, sem sniðið var eftir lögum um fíkniefnadómstól, sem er sá sérdómstóll hér sem afkastamikill hefur verið. Það frv. náði ekki fram að ganga, en hins vegar var á vegum fjmrn. og dómsmrn. settur upp starfshópur sem vann mjög vel að grundvallartillögugerð um þessi efni. Við stjórnarskiptin s.l. haust var því verki haldið áfram og það frv., sem hér liggur fyrir, er niðurstaðan af þeirri þróun.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, leyfa mér að leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og allshn.