29.05.1980
Neðri deild: 91. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3223 í B-deild Alþingistíðinda. (3185)

191. mál, tollheimta og tolleftirlit

Flm. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Það er öllum kunnugt, sem fylgst hafa með málefnum verslunar, að óskir hafa verið um það um nokkuð langan tíma að hér á landi yrði tekin upp frestun á greiðslu aðflutningsgjalda sem nefnd hefur verið tollkrít. Slíkt fyrirkomulag hefur verið tekið upp víða í löndum í kringum okkur til hagræðis og jafnframt hefur það orðið til þess, að dómi þeirra sem gerst þekkja, að vöruverð hefur lækkað.

Þeir aðilar, sem stunda innflutning hjá okkur, svo og flytjendur innflutningsvara hafa sýnt þessu máli mikinn áhuga. Þar var komið síðari hluta árs 1976 að félag ísl. stórkaupmanna efndi til ráðstefnu um þessi mál og óskaði eftir því við mig, en ég gegndi þá embætti fjmrh., að ég kæmi til þessarar ráðstefnu og fjallaði um þessi mál, gerði grein fyrir skoðunum mínum á efni málsins og í framhaldi af því, ef unnt væri, yrði unnið að athugun á þessu máli sem gæti leitt til þess, ef jákvæð yrði, að hér á landi yrði tekin upp tollkrít.

Niðurstaða þessa máls þá varð sú, að ég skipaði nefnd manna til að vinna að endurskoðun á lögunum um tollheimtu og tolleftirlit í aprílmánuði 1977. Nefndin var skipuð ríkisendurskoðanda, tollstjóra, Júlíusi Sæberg Ólafssyni framkvæmdastjóra, Hjalta Pálssyni framkvæmdastjóra og Ásgeiri Péturssyni þáv. sýslumanni, sem var formaður. Með þessari nefnd starfaði sem ritari skrifstofustjórinn í fjmrn., Þorsteinn Geirsson. Nefnd þessi starfaði í eitt og hálft ár og skilaði til fjmrh. áliti og skýrslu um þessi mál. Það var skömmu áður en ég lét af embætti fjmrh., 15. ágúst, og skýrslan hefur legið þar síðan.

Á því tímabili, sem liðið er síðan, hefur m. a. Verslunarráð Íslands gengist fyrir viðskiptaþingum og gekkst fyrir því, að á viðskiptaþingi 1979 væru tollamál sérstakur liður á dagskránni, og gerði þar samþykktir í þessum efnum. Það hefur verið meginmarkmið þessara aðila að vinna að því að aðskilja vöruskoðun, tollafgreiðslu og meðferð tollskjala annars vegar og flutning vörunnar hins vegar, þannig að vöru megi flytja beint frá skipi í vörugeymslu innflytjanda, og að gera tollyfirvöldum mögulegt að taka upp reikningsviðskipti við innflytjendur að því er varðar innheimtu aðflutningsgjalda. Einnig hefur verið á dagskrá hjá þeim að kostnaður við tollheimtu og tolleftirlit sé alfarið borinn uppi af ríkissjóði eins og við aðra löggæslu, enda nýtur ríkissjóður teknanna, auk þess sem stjórnvöld hafa ákveðið umfang eftirlitsins. Með þessu væri stefnt að aukinni hagræðingu í störfum tollgæslunnar.

Niðurstaða þeirrar nefndar, sem ég skipaði, varð sú, að nefndin varð sammála um að mæla með því við fjmrn. að upp yrði tekin tollkrít, en í grg. þeirri, sem nefndin skilaði, segir svo, með leyfi forseta:

„Með hliðsjón af framangreindum forsendum og vísan til fylgiskjala leggur nefndin því einróma til við fjmrh. að tekin verði upp tollkrít hér á landi í því formi og með þeim takmörkunum sem lýst er í þessu nál. í einstökum atriðum.

Að ósk ráðh. var rökum og forsendum safnað í framangreint nál. Telur nefndin samdóma að á grundvelli þessara upplýsinga sé fljótlegt að setja saman lagafrv. ef hæstv. ráðh. óskar, enda hefur allt meginefnið verið sett hér fram. Er hún jafnframt reiðubúin að vinna það verk fyrir næsta samkomutíma Alþingis.“

Þetta er ritað fyrir miðjan ágúst 1978.

Þegar þessi nefnd var að störfum leitaði hún aðstoðar rekstrarsérfræðinga til að gera sér grein fyrir hvert væri í raun og veru hagræðið varðandi þetta mál. Leitaði hún til þeirra J. Ingimars Hanssonar og samstarfsmanns hans, Gunnars Guðmundssonar, og þeir skiluðu nefndinni yfirgripsmiklu áliti þar sem þeir gera grein fyrir þeirri niðurstöðu sem þeir komust að.

Samkv. verðlagi í dag er álit þessarar nefndar eða skoðun sérfræðinga hennar að lækka megi vöruverð sem nemur á ári um 3 milljörðum kr. Það kemur fram í þessari skýrslu hverjar eru forsendur fyrir slíku. M. a. kemur fram í bréfi frá hafnarstjóranum í Reykjavík hvað sparnaðurinn yrði mikill ef varan stöðvaðist einni viku skemur í hafnarskemmum en er í dag. Þar er kostnaðurinn metinn 1 milljarður 600 millj. til 1 milljarður 700 millj. vegna vaxta og 150 millj. vegna minni tjónaáhættu.

Það er ljóst af þessu, að hér er um mikið hagsmunamál að ræða og ástæða til þess að mínum dómi, að Alþ. taki þetta mál til meðferðar og geri sér grein fyrir hvort það telur rétt að inn á þessar brautir sé farið. Það er hins vegar ljóst, að með gjaldfresti á aðflutningsgjöldum yrði breyting á innstreymi tekna til ríkissjóðs. Í því sambandi var leitað álits Þjóðhagsstofnunar og með þessari skýrslu fylgir álit hennar sem samið er af Ólafi Davíðssyni hagfræðingi.

Hann víkur að því, með hvaða hætti innstreymi í ríkissjóð yrði hægara með þessum hætti, en hann bendir jafnframt á að sumpart yrði það hraðara, einfaldlega vegna þess að tekjur ríkissjóðs eru þarna söluskattur og tolltekjur. Það er líka á það að benda, að vörur stöðvast á hafnarbakkanum nú þegar um 4–5 vikur, sem félli inn í þann frest sem gert er ráð fyrir í því frv. sem hér hefur verið flutt um kjarna þessa máls, tollkrítina, um frestun á aðflutningsgjöldum. Þannig er mjög erfitt að meta að hve miklu leyti innstreymið til ríkissjóðs yrði hægara, og talið jafnvel, eins og ég benti á áðan, að að sumu leyti yrði það hraðara, t. d. með því að söluskattur fengist fyrr innheimtur ef að þessu ráði yrði horfið. Það má enn fremur benda á að í stað þess að fara með vörur í tollvörugeymslu og láta þær liggja þar um langan tíma, eins og nú er gert, yrði hér um hraðari afgreiðslu að ræða sem kæmi ríkissjóði til tekna, eins og á var bent.

Þegar ljóst var að stjórnvöld sýndust ekkert ætla að aðhafast í þessu máli, en ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar gerði að mínum dómi ekkert í framhaldi af því nál. sem lá fyrir þegar hún tók við og eftir því sem mér var kunnugt hugðist ekki flytja þetta mál á Alþ., þá hófst ég handa um undirbúning að því frv. sem ég nú mæli fyrir, þ. e. um breyt. á lögum um tollheimtu og tolleftirlit á þskj. 462, en samhliða var unnið að öðrum breyt. á lögum um tollheimtu og tolleftirlit svo og lögum um tollskrá, með síðari breytingum, en 1. flm. þeirra frv., á þskj. 483 og 484, mun gera grein fyrir þeim málum hér á eftir.

Við töldum rétt — þeir sem standa að þessu máli — að flytja það á Alþ. og fá úr því skorið, hvort Alþ. er reiðubúið til að gera breytingar hér á með þeim rökum sem fram koma í þeirri skýrslu til fjmrh. sem ég rakti áðan. Ég vék að því við hæstv. fjmrh. fyrir nokkru, en sendi frá mér í morgun bréf þess efnis, að alþm. verði send þessi skýrsla til þess að þeir geti skoðað þetta mál. Ég á ekki von á að við getum gert annað á þessu þingi en að vísa þessu máli til nefndar, þ. e. hv. fjh.- og viðskn. þessarar d., en ég óska eftir því við form. n. og nm. að við síðar í dag gætum samþykkt að leita álits þeirra aðila, sem hér hafa hagsmuna að gæta, í sumar þannig að fyrir lægi þegar þing kemur saman í haust skoðun þeirra á þessu máli og hægt væri þá, þegar málið yrði tekið upp aftur af þeim aðilum sem að því standa nú, að vega og meta skoðanir þeirra aðila sem hér um ræðir. ~g er þeirrar skoðunar, að hér sé um að ræða mjög þýðingarmikið mál og ekki aðeins fyrir þá aðila sem standa að og stunda innflutning eða farmflutning til landsins. Ég er þeirrar skoðunar að hér sé um að ræða mál sem að vissu leyti geti haft áhrif í sambandi við það vandamál sem við glímum við í dag, þ. e. verulega lækkun á vöruverði, og vænti þess, að þm. komist að því sama eftir að þeir hafa haft tækifæri til að skoða þá skýrslu sem í rn. liggur. — Ég á ekki von á öðru en að hæstv. ráðh. muni senda þm. skýrsluna þegar hann hefur fengið hina formlegu beiðni frá mér. Við getum því, þegar kemur á þing í haust, haft tækifæri til að afgreiða þetta mál jákvætt.

Ég skal svo ekki, herra forseti, tefja tíma þingsins með lengri ræðuhöldum, en þakka fyrir að fá tækifæri til að mæla fyrir þessu frv. hér og nú og leyfi mér að vonast til þess, að 1. umr. geti lokið og að henni lokinni verði þessu máli vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.