29.05.1980
Neðri deild: 91. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3225 í B-deild Alþingistíðinda. (3186)

191. mál, tollheimta og tolleftirlit

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég er sammála hv. þm. Matthíasi Mathiesen, 1. þm. Reykn., um að hér sé um athyglisvert mál að ræða. Það fyrirkomulag, sem hér er gerð tillaga um, hefur verið til umræðu í rúman hálfan áratug, en af einhverjum ástæðum hefur málið samt aldrei komist af umræðustigi. Nefndarálit, ítarlegt og greinargott, var sent þáv. fjmrh., Matthíasi Á. Mathiesen, nokkru áður en hann lét af því starfi, en annað mun ekki hafa gerst í málinu, enda mun þáv. fjmrh. hafa látið af störfum nokkru síðar. Mér er ekki kunnugt um að þetta nál. hafi verið rætt í þeirri ríkisstj. sem tók við, hvorki á ríkisstjórnarfundum né annars staðar þar sem mál voru rædd, og ég minnist þess ekki, að fram hafi komið nein fsp. hér á Alþ. um þetta nál. eða málið hafi verið rætt hér í þinginu.

Vissulega hlýtur nú sú spurning að vakna, úr því að þetta nál. kom fram á miðju sumri 1978, hvers vegna þetta mál sé ekki flutt fyrr, og vissulega gæti það hvarflað að einhverjum að það væri vond samviska hjá hv. þm. Matthíasi Á. Mathiesen sem hefði ýtt við honum og fengið hann til að flytja málið nú á seinustu dögum þings, því að að öllu eðlilegu hefði verið réttast að málið hefði verið vakið hér í þinginu með einhverjum hætti, t. d. í fyrirspurnarformi, og að frv. um þetta mál hefði þá komið fyrr fram þannig að það hefði getað fengið eðlilega meðferð.

Ég segi það alveg eins og satt er, að ég hafði ekki hugmynd um þetta nál. fyrr en ég kom í fjmrn. Ég hef hins vegar kynnt mér nál. og óskað eftir nánari athugun málsins og tel sjálfsagt að undinn verði bráður bugur að því að kanna til fulls hvort hér er ekki um framfaraspor að ræða.

Það er ljóst, að þetta nýja fyrirkomulag hefur verið gagnrýnt frá tveimur sjónarmiðum. Annars vegar er á það bent, að ríkissjóður verði fyrir allnokkrum tekjumissi af þessum sökum, og hins vegar er ótti um að sá tekjumissir hafi þensluáhrif í efnahagskerfinu og valdi aukningu peningamagns í umferð. Hitt er ljóst, að þetta nýja fyrirkomulag hefur margvíslega kosti og því nauðsynlegt og sjálfsagt að athuga það gaumgæfilega.

Ég tel nokkuð ljóst að þetta nýja kerfi verður tæpast tekið upp í einni svipan. Vafalaust þarf að koma því á hægt og þétt, þannig að ekki verði um að ræða þensluáhrif í efnahagskerfinu og að ríkissjóður verði ekki fyrir verulegum skakkaföllum. Það þarf að velja hentugan tíma á árinu til að tryggja að ríkissjóði komi það ekki mjög illa að verða af tekjum þegar þessi skipan er upp tekin og að ekki sé þá á sama tíma verulegur hallarekstur á ríkissjóði eða skuldaaukning hjá Seðlabankanum. Af þessum ástæðum hef ég dregið þá ályktun, að hyggilegast mundi vera að taka upp nýtt skipulag af þessu tagi fremur á síðari hluta árs en fyrri hluta árs.

En ég sem sagt ítreka það sem ég hef þegar sagt, að ég tel sjálfsagt að þetta mál verði gaumgæfilega athugað á næstu vikum og nú í sumar undirbúið fyrir komandi þing að hausti. Ég tel einnig sjálfsagt að verða við þeim tilmælum, sem komu fram hjá hv. þm. Matthíasi Á. Mathiesen, að þm. verði sent eintak af þessari skýrslu. Það er rétt, sem hann nefndi, að hann orðaði það við mig fyrir fáum dögum að þm. yrði sent þetta nál. Ég hef nú gert ráðstafanir til að hafa uppi á þeim rykföllnu birgðum sem einhvers staðar geymast í fórum fjmrn., og vafalaust eru nægilega mörg eintök fyrir hendi, en það hefur víst lent í undandrætti enn að koma þessu til skila til þingmannanna. Ég vænti þess þá að sú sending geti átt sér stað innan fárra daga.