29.05.1980
Neðri deild: 91. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3226 í B-deild Alþingistíðinda. (3188)

195. mál, tollheimta og tolleftirlit

Flm. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég kýs að ræða þau tvö frv., sem eru á dagskrá þessa fundar, saman. Það eru frv. á þskj. 483 og 484, sem eru 195. og 196. mál þingsins. Þessi mál eru samofin, ef svo má að orði komast, því frv. sem hv. þm. Matthías Á. Mathiesen hefur gert ágætlega grein fyrir í sinni framsöguræðu, en það er frv. á þskj. 462. Hann flytur það frv. ásamt fjórum öðrum hv. þm. og hinir sömu hv. þm. standa að flutningi þeirra tveggja mála sem ég hef framsögu fyrir nú.

Það hefur lengi verið áhugamál verslunarinnar að gera verslun greiðari og ódýrari. Má í því sambandi benda á að á viðskiptaþingi árið 1979 var samþykkt ákveðin stefnuyfirlýsing í þessum málum. Í fyrsta lagi var óskað eftir að vöruskoðun yrði aðskilin, tollafgreiðsla og meðferð tollskjala annars vegar og flutningur vörunnar hins vegar, þannig að vöru mætti flytja beint frá skipi í vörugeymslu innflytjenda. Í öðru lagi var þess óskað að gera tollyfirvöldum mögulegt að taka upp reikningsviðskipti við innflytjendur að því er varðaði innheimtu aðflutningsgjalda. Og í þriðja lagi var þess óskað, að kostnaður við tollheimtu og tolleftirlit væri borinn af ríkissjóði eins og gert er við aðra löggæslu, enda nýtur hann teknanna, auk þess sem stjórnvöld ákveða umfang eftirlitsins. Með því væri stefnt að aukinni hagræðingu í störfum tollgæslunnar. Þetta var meginefni stefnuyfirlýsingar frá viðskiptaþingi árið 1979.

Segja má að tollkrítarfrv., sem hv. þm. Matthías Á. Mathiesen, 1. flm. málsins, gerði grein fyrir fyrr á þessum fundi, svari til annars liðar ályktunarinnar, þar sem frá því er greint að æskilegt væri að tollyfirvöld mættu taka upp reikningsviðskipti við innflytjendur vegna innheimtu aðflutningsgjalda. Hins vegar er með þessum tveimur frv., sem ég mæli hér fyrir, verið í fyrsta lagi að greiða fyrir innflutningi með fjölgun tollhafna og liprari reglum fyrir farmflytjendur, en í öðru lagi að framlengja innflutningsleiðina, ef svo má að orði komast, alla leið til innflytjandans og láta reglur, m. a. um tolla og fleira, ná alla leið til geymslusvæðis innflytjandans. Í þessu sambandi má minna á t. d. afslátt vegna skemmdar eða vöntunar sem verður í flutningi. Þær reglur ættu að gilda eins á flutningsleiðinni frá skipi og til geymslusvæðis innflytjandans, sem kemur nánast í staðinn fyrir geymslusvæði farmflytjanda, í dag. — Í þriðja lagi er lagt til að lagfærðar verði samskiptareglur tollyfirvalda annars vegar og farmflytjenda og innflytjenda hins vegar. — Í fjórða lagi er reynt að auðvelda flutningsmiðlurum störf, en flutningsmiðlarar eru þeir sem taka að sér flutning á vöru fyrir marga innflytjendur í senn og geta þannig séð fyrir ódýrari flutningi með slíkri samvinnu fleiri innflutningsaðila. — Í fimmta lagi er með þessum frv., og þá sérstaklega breytingunni á tollskrárlögunum, gert ráð fyrir að framhaldsflutningur sé tollfrjáls. Getur það gefið Íslendingum möguleika á innflutningi t. d. til nágrannaþjóða, eins og þeirra sem búa í Færeyjum eða á Grænlandi, þannig að flutningur gengi til landsins og síðan héðan til þeirra. Í þessu sambandi er rétt að minna á þátill., sem liggur fyrir þinginu í n., frá Karli Steinari Guðnasyni o. fl., um tollfrjálst iðnaðarsvæði á Keflavíkurflugvelli. En þessi mál eru náskyld. — Í sjötta lagi eru gerðar ýmsar smærri brtt. á tollskrárlögum, en þó ein nokkru stærri, sem er um afnám bankastimplunar á tollskjölum. Ísland mun vera eitt af örfáum löndum, ef ekki eina landið í heiminum, þar sem bankastimplun er skilyrði fyrir því, að farmbréf hafi lögmætt gildi.

Tilgangurinn með flutningi þessara tveggja frv. er að sýna í tillöguformi nokkrar breytingar sem eru til bóta að áliti flm. og til einföldunar eða eru beinar afleiðingar tollkrítarinnar.

Eins og ég gat um hljóðaði þriðji liður stefnuyfirlýsingar viðskiptaþings 1979 á þá leið, að kostnaður við tollheimtu og tolleftirlit yrði borinn af ríkissjóði. Í þeirri vinnu, sem fram fór við að útbúa þessi frv., töldu flm. rétt að skilja þetta atriði frá öðrum atriðum sem fram koma í frv., m. a, vegna þess, að ekki liggja fyrir nægilega góðar upplýsingar um hvernig þessum málum er háttað í öðrum löndum, og eins vegna hins, að ekki er heldur ljóst hvort eitthvert tekjutap ríkissjóðs verður af þeirri breytingu. Það er þó eðlilegt að menn velti fyrir sér hvort ástæða sé til að viss hluti kostnaðarins við tollheimtuna sé innifalinn í vöruverðinu eða hvort sá kostnaður eigi að koma sérstaklega fram í fjárlögum sem beinn kostnaður ríkisins á sama hátt og annar löggæslukostnaður. Við kusum að fara þá leið að geyma þetta atriði, en tökum fram í grg. að þetta þyrfti að kanna, ekki síst þegar umræður um tollkrít eiga sér stað.

Vegna þess tímaskorts, sem stafar af þinglausnum í dag, tel ég mér ekki fært að fjalla miklu frekar um þessi tvö frv. Það hefur verið bent rækilega á að tollkrítarmálið sé afar nauðsynlegt mál. Ég vona og veit að þær hugmyndir, sem koma fram í þessum þremur frv., eiga skilning og stuðning í flestum, ef ekki öllum stjórnmálaflokkum og þá ekki síður hjá hæstv. ríkisstj.