29.05.1980
Neðri deild: 91. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3227 í B-deild Alþingistíðinda. (3189)

195. mál, tollheimta og tolleftirlit

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þau þrjú frv., sem hér eru á dagskrá, eru öll nátengd, þ. e. 191., 195. og 196. mál.

Allt frá því ríkisstj. var mynduð hafa tillögur og hugmyndir um greiðslufrest á tollum og einföldun á tollmeðferð vöru verið til athugunar. Ráðuneyti, sem þetta mál snertir, hafa unnið að þessu og viðræður farið fram um málið milli ráðh. Í stjórnarsáttmálanum eru ákvæði þess efnis að greiða fyrir hagkvæmum innkaupum til lækkunar á vöruverði.

Greiðslufrestur á tollum eða tollkrít, eins og það er kallað, gæti haft marga kosti, svo sem minnkun geymslukostnaðar og vaxtakostnaðar. Það ætti að hafa áhrif til lækkunar á vöruverði. Einnig gæti tollkrít örvað hagkvæm innkaup á vöru. Um verulegan sparnað fyrir þjóðarbúið gæti því verið að ræða af slíku fyrirkomulagi. Atriði, sem þarf að kanna rækilega, eru m. a. áhrif tollkrítar á fjárstreymi úr ríkissjóði. Sumir telja, að ríkissjóður yrði fyrir skammtímatapi þegar slíkt kerfi væri innleitt, og einnig, að hugsanleg séu þensluáhrif af völdum greiðslufrests á tolli: Að lokinni nákvæmri athugun á því, hvernig best verði að þessu máli staðið til þess að forðast neikvæðar hliðarverkanir, ætti málið að liggja ljóst fyrir þegar þing kemur saman að nýju í haust.

Ég er því fylgjandi að þessum frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn. og mundi ríkisstj. þá hafa samráð við n. um frekari könnun og meðferð þessa athyglisverða máls.