09.01.1980
Neðri deild: 15. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í B-deild Alþingistíðinda. (319)

41. mál, Skattadómur og rannsókn skattsvikamála

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Eins og kom fram í ræðu hæstv. ráðh., en kemur ekki fram í aths. við frv. þetta, var skipaður starfshópur á s.l. sumri til að kanna þetta mikilvæga mál. Það gerði ég ásamt þáv. fjmrh. Sá starfshópur skilaði áliti. Það kom ekki fram í ræðu hæstv. ráðh. Í áliti starfshópsins koma fram ýmsar leiðir til þess að styrkja meðferð skattamála í dómkerfinu, en niðurstaða starfshópsins varð sú að ekki bæri að setja á fót einn sérstakan dómstól. Að vísu var einn maður í starfshópnum heldur á þeirri skoðun að það bæri að gera, en meiri hl. hans taldi það ekki rétt og mælti með því að sérstök deild við Sakadóm Reykjavíkur yrði sett á fót, sérhæfð í meðferð skattamála.

Í framhaldi af ábendingum starfshópsins skipuðum við menn til viðbótar til að undirbúa málið og fyrir lá tilbúið frv. um sérstaka deild við Sakadóm Reykjavíkur. Í því frv., sem nú er flutt, er sú breyting gerð að sérstakur dómstóll er settur á fót, en öðru sýnist mér haldið, eins og t.d. að Rannsóknarlögregla ríkisins hafi meðferð rannsóknar skattsvikamála með höndum.

Þarna er að sjálfsögðu um tvær leiðir að ræða, sem ber að skoða, og þær hafa sína kosti og sína ókosti báðar. Í aths. við þetta frv. kemur m.a. fram sá ókostur við sérstakan dómstól, að iðulega er erfitt að greina á milli skattsvikamála og tengdra mála sem ekki heyra undir skattsvik, eins og t.d. bókhaldsmála og fleira þess háttar. Hér er farin sú leið að fela skattadómstóli að fara með þau mál einnig þegar þau, eins og þar segir, eru talin afleidd mál. Var ein meginástæðan fyrir því, að lagst var gegn sérstökum dómstól. Menn töldu ekki fært að skilja þetta í sundur. Oft er ákaflega erfitt að greina á milli. Ef menn kvarta undan því nú að skattamál fái ekki þá meðferð í dómkerfinu sem vera ber, hlýtur sú spurning að vakna hvort slík mál, eins og bókhaldsmál, sem eru ákaflega viðamikil og oft erfið í meðferð, fái þá meðferð hjá skattadómi sem vera ber. Því var það niðurstaðan að halda þessu saman, en hafa sérhæfða deild við Sakadóm sem færi með skattsvikamál.

Einnig réð nokkru að það er að sjálfsögðu dýrara að setja á fót sérstakan dómstól með öllu því sem er í kringum slíka stofnun. Menn töldu því hagkvæmara til að ná þeim markmiðum, sem að er stefnt, að hafa sérstaka deild.

Ég vil að þetta komi fram hér nú, því að ég tel sjálfsagt að n., sem fær þetta mál, skoði báðar leiðirnar. Reyndar teldi ég eðlilegt — og má vel vera að það verði gert — að flytja hitt málið svo að það fái einnig meðferð á þingi.

Ég vil segja að lokum að iðulega hefur verið að því fundið að skattamál hafi fengið slaka eða hæga meðferð í hinu venjulega dómkerfi. Undir það get ég tekið að ýmsu leyti. Staðreyndin er sú, að aðeins hefur verið vísað til dómstólanna 10 málum á allmörgum árum, ég held á einum 7–8 árum ef ég man rétt. Það hefur að vísu verið sagt að sum þeirra hafi týnst þar, en það er misskilningur, það hafa þau ekki. Sættir hafa náðst í sumum þessara mála. En staðreyndin er vitanlega sú, að yfirgnæfandi hluti skattsvikamála er afgreiddur í skattsektanefnd og fer ekki áfram til dómkerfisins. Skattgreiðenda er vitanlega frjálst að vísa málinu áfram, en menn hafa ekki kosið að gera það, heldur hafa sæst á það sem skattsektanefnd og ríkisskattanefnd hafa ákveðið. Það er yfirleitt skattgreiðendanna að ákveða hvort slíkum úrskurði er vísað áfram eða ekki, og það hafa menn yfirleitt ekki gert. Spurningin er sú, hvort meira verði um að menn vísi málinu til dómstólanna þótt sérstakur dómstóll sé á fót settur. Því verður varla svarað í þessum umr. Vitanlega mundi málið fá skjótari meðferð. En verða þá nægilega mörg mál til að réttlæta sérstakan dómstól? Með sérstakri deild við sakadóm getur sá dómari, sem með skattsvikamál fer, að sjálfsögðu farið með önnur mál, sem fyrir sakadóm koma, og nýtist því betur, en þar er mikil þörf á viðbótarstarfskröftum.

Ég vil láta þetta koma hér fram, eins og ég sagði áðan, og tel nauðsynlegt að þetta mikilvæga mál verði skoðað frá þessum sjónarhornum öllum í þeirri n. sem fær málið til meðferðar.