29.05.1980
Neðri deild: 91. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3229 í B-deild Alþingistíðinda. (3194)

196. mál, tollskrá

Flm. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Athugasemdin skal vera stutt.

Hæstv. fjmrh. kom hér í ræðustólinn, þegar umr. fór fram áðan, og ég gat ekki heyrt á máli hans annað en hann tæki undir að nú skyldi þetta mál skoðað og — eins og hann orðaði það — skýrslan tekin fram og rykið dustað af henni. En hann spurði sjálfan sig hér í ræðustól. Hvers vegna skyldi flm. ekki hafa komið með málið hér fyrr inn í þingið? Og hann spurði, hvort það gæti verið hans vonda samviska. Ég skal svara því strax og segja að vonda samvisku á ég ekki til. En hvers vegna málið er ekki komið fyrr inn í sali Alþingis er einfalt. Ég ráðlagði þeim mönnum, sem hér hafa hagsmuna að gæta, á s. l. ári að hafa samband við hæstv. fjmrh. í þáv. ríkisstj. og spyrjast fyrir um hvort rn. mundi ekki taka þetta mál til úrvinnslu eftir að skýrslan hafði legið þar fyrir. Svarið var neikvætt. Hugsun mín var því að koma fram með þetta mál á þessu þingi. En ég vildi umfram allt gefa rn. tækifæri til að sýna hug sinn í því.

Hæstv. forsrh. flutti stutta ræðu um þriðja dagskrármálið og gerði grein fyrir sínum sjónarmiðum. Hann sagði, að umræður hefðu farið fram milli ráðh. og rn. varðandi þetta mál, og tók mjög jákvætt undir það og lýsti því yfir, að hann væri sammála því að umr. hér lyki og málið færi til n. og að ríkisstj. mundi í sumar vinna að þessu máli í samráði við fjh.- og viðskn. þessarar deildar.

Þær tafir, sem hafa orðið þessar síðustu mínútur, stafa svo af því, að það hafði verið gengið frá samkomulagi um það áðan að kosning færi fram kl. 4 í dag. Því var svo breytt vegna þess að á daginn kemur að einn ráðh. ríkisstj. til viðbótar þarf að fara úr landi í dag og það verður auðvitað að ganga fyrir að hann geti notað atkv. sitt þannig að stjórnarliðar séu með fullskipaða bekki. Þessar tafir hafa orðið vegna þess að a. m. k: tveir úr liði Sjálfstfl. höfðu þurft að víkja héðan úr þinghúsinu vegna annarra starfa. Þetta eru sem sagt ástæðurnar fyrir því að dráttur hefur orðið á störfum þingsins núna.

Ég er þakklátur fyrir þær undirtektir sem þetta mál hefur fengið hér á Alþingi. Enda þótt örlítilla missagna hafi gætt í því sem hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. sögðu um viðræður tel ég að eftir þær umr., sem hér hafa farið fram, eigi að vera tækifæri nú til að vinna að framgangi þessa máls. Ég veit að fulltrúar ríkisstj. og fulltrúar Alþingis munu vinna það rösklega að þessu máli að hægt sé að koma með málið á þing á hausti komanda.