09.01.1980
Neðri deild: 15. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í B-deild Alþingistíðinda. (320)

41. mál, Skattadómur og rannsókn skattsvikamála

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég missti því miður af framsögu hæstv. dómsrh. í þessu máli, en ég vil þó vekja athygli á því, að í því skattalagafrv., sem lagt hefur verið fyrir Alþ. og er hér til meðferðar, vantar tengingu við þennan þátt mála. Í því skattalagafrv., sem hafði verið samið af fyrrv. fjmrh., var í 38. gr. gerð brtt. við 108. gr. skattalaga nr. 40 frá 1978, en það er grein sem fjallar um málsmeðferð og fyrningu. Þar kemur fram að ríkisskattanefnd skuli úrskurða sektir samkv. 107. gr., en sú grein fjallar um refsingar, en skattsektanefnd hefur áður fjallað um slík mál. Nú er í reynd búið að leggja skattsektanefnd niður og hin nýja ríkisskattanefnd, hvenær sem hún verður skipuð, skal taka við starfi skattsektanefndar, og ríkisskattanefnd er náttúrlega að vissu leyti sérdómstóll í skattamálum. En sú grein, sem hafði verið samin á grundvelli þess starfs sem hér hefur verið vitnað til, hljóðar þannig:

„Ríkisskattanefnd úrskurðar sektir samkv. 107. gr. nema máli sé vísað til opinberrar rannsóknar og dómsmeðferðar samkv. 2. mgr. Við meðferð mála hjá nefndinni skal gæta ákvæða 100. gr. eftir því sem við á, og veita sakborningi færi á að taka til varna. Skattrannsóknarstjóri kemur fram af hálfu hins opinbera fyrir nefndina þegar hún úrskurðar sektir. Úrskurðir nefndarinnar eru fullnaðarúrskurðir.“

Síðan kemur, sem er breyting á gildandi lögum: „Rannsóknarlögregla ríkisins fer með frumrannsókn opinberra mála út af brotum á lögum þessum. Skattrannsóknastjóri getur vísað máli til opinberrar rannsóknar af sjálfsdáðum, svo og eftir ósk sökunauts, ef hann vill eigi hlíta því að mál verði afgreidd af ríkisskattanefnd samkv. 1. mgr. Mál út af brotum þessum gegn skattalöggjöf skulu sæta meðferð opinberra mála og skulu rekin fyrir sakadómi. Skattkröfu má hafa uppi, rannsaka og dæma í slíkum málum, sbr. XVII. kafla laga um meðferð opinberra mála, eftir því sem við á.“

Mismunurinn milli þess, sem lagt er til annars vegar í því frv., sem hér liggur fyrir, og hins vegar þess, sem lagt var til í brtt. sem hafði verið samin á grundvelli álits þessa starfshóps, er fyrst og fremst sá, að settur skal á stofn sérstakur dómari og sérstakur dómstóll í skattamálum. Það getur að vísu verið réttlætanlegt í mörgum tilfellum að gera svo, en okkur verður að vera ljóst hvort fyrst og fremst hefur skort að til væru menn til að dæma í viðkomandi málum. Ég efast um að svo hafi verið. Það hefur verið skattadómari fyrr á Íslandi. Ég skal ekki fullyrða hvenær hann starfaði, en það er eins og mig minni að það hafi verið á árunum 1945–1952. Sá skattadómari fékk tvö mál til meðferðar. Það er ekki mikið gagn að því að setja upp dómstól sem fær 2–3 mál til meðferðar. Aðalatriðið er að sjálfsögðu að málin gangi eðlilegan gang, hljóti rannsókn og í þeim sé ákært eftir því sem tilefni gefst til. Slík mál geta vissulega verið flókin og erfið vegna þess að farið er með þau að hætti opinberra mála, þar sem sönnunarbyrðin er mjög rík í löggjöf okkar. Hins vegar eru flest mál samkv. skattalögum leyst í sambandi við sektir og alls konar viðurlög, og það er nú svo, að viðurlög og sektarheimildir eru mjög ríkar í skattalöggjöf okkar. Það er t.d. 25% álag ef menn telja ekki fram tekjur af vangá, og það eru heimildir til þess að tífalda skatt. Síðan segir í 107. gr.: „Sé brot ítrekað eða sakir miklar að öðru leyti varðar brot auk sektar varðhaldi eða fangelsi allt að 6 árum.“ — Út af fyrir sig vantar því ekki lagagreinar um refsingar að þessu leyti. En það, sem skiptir mestu máli í skattalögum okkar, er að þar sé ríkt og lifandi aðhald og þar sé starfandi mannafli sem hafi slíkt aðhald með höndum, því að aðalatriðið er að koma í veg fyrir að skattsvik geti átt sér stað. Það verður alltaf mesta vandamál í skattalöggjöf okkar og skattamálum okkar að koma á það miklu aðhaldi að skattsvik geti helst ekki átt sér stað. Að sjálfsögðu verða menn að meta hvað hægt er að leggja mikla fjármuni til slíks. Ég er þeirrar skoðunar að slíkt aðhald eigi að vera mjög sterkt og það eigi að vera mikið aðhald og skattalögreglan hafi það aðhaldshlutverk, en að mínu mati á ekki að flytja þangað dómsvald á neinn hátt, og það er ekki heldur gert ráð fyrir því í þessu frv.

Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu vegna þess að fyrir n. liggur frv. til l. um breyt. á lögum um tekjuskatt og eignarskatt sem liggur mjög mikið á og er rekið mjög hart á eftir. Það verður að koma einhver tenging í sambandi við þessi mál, þannig að það geti legið fyrir í okkar n. og þar verði tekin afstaða til þess, hvort n. flytji brtt. svipaða því, sem ég hef hér gert grein fyrir og hefur verið samin, eða hvort skuli bíða eftir því að þessi mál verði leyst með þeim hætti sem hæstv. dómsmrh. leggur hér til, sem er að vísu mjög svipað, en aðeins sá munur að þar er gert ráð fyrir sérstökum dómstól sem kostar töluvert fé. Allt kostar þetta peninga, hvort sem það er gert þannig eða með öðrum hætti. En þar kemur upp ný stofnun sem hlýtur þó að verða dýrari en að hafa sérstakan mann t.d. við sakadóm sem gæti einnig sinnt einhverjum öðrum málum, þannig að hann væri ekki eingöngu bundinn við þessi mál, heldur gæti sinnt þeim fyrst og fremst, en sinnt einnig öðrum málum.