29.05.1980
Sameinað þing: 69. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3232 í B-deild Alþingistíðinda. (3206)

Kosning sjö manna og jafnmargra vara í stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Undanfarna daga höfum við formenn þingflokka stjórnarandstöðunnar setið á mörgum fundum með formönnum þingflokka ríkisstj., hæstv. forsrh. á stundum og forsetum Alþingis. Við sátum á slíkum fundi síðast kl. 5 í gær. Á þessum fundum hefur verið rætt um samkomulag milli flokka þingsins um þinglausnir og afgreiðslu mála og formenn þingflokka stjórnarliðsins, hæstv. forsrh. og forsetar Alþingis hafa tekið upp öll mál í þessum umræðum sem þeir hafa talið líklegt að ágreiningur gæti orðið um og óskað eftir samráði við okkur stjórnarandstæðinga um þingfundahaldið þessa síðustu daga. Það hefur aldrei neitt staðið í vegi af hálfu okkar þm. Alþfl. fyrir slíku samráði og við höfum verið allir af vilja gerðir að liðka til fyrir hæstv. ríkisstj. eins og hún hefur talið sig við þurfa, eins og ljóslega hefur komið fram bæði í umr. og atkvgr. hér. (Gripið fram í.) Hv. þm. Stefán Jónsson ætti að temja sér að þegja í stól sínum við borð sitt, en tala úr ræðustól og sýna þingbræðrum sínum þá almennu kurteisi að lofa þeim að tala í ræðustól óáreittum. (StJ: Þetta var bara fyrirspurn.) Ég veit að hv. þm. er ekki meðal kunnustu alþm. fyrir kurteisi, en væntanlega getur hann sýnt smáumburðarlyndi síðasta dag þingsins þó svo það leyni sér ekki hvernig innrætið segir honum að tala til manna sem hann er með hér í þinginu. Látum það nú vera. Það et ekki ástæðan fyrir því að ég kvaddi mér hljóðs að ræða innræti hv. þm. Stefáns Jónssonar. Það geri ég ekki úr þessum ræðustól.

Það, sem ég ætlaði aðeins að segja í þessu sambandi, var það, að rétt áðan kom í ljós, að hv. stjórnarsinnar hafa ákveðið síðasta þingdaginn að efna til ágreinings um kosningu í stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins, sem er síðasta kosningin sem hér á að fara fram. Um þetta hafa þeir aldrei rætt á þeim mörgu og löngu fundum sem við formenn þingflokka stjórnarandstöðunnar höfum setið með þeim, og hafa þó öll mál, sem rædd hafa verið hér á Alþ. undanfarna daga og verið á dagskrá þingfunda, komið til umræðu á þessum fundum og það oftar en einu sinni. Ég stóð í þeirri trú og stend í þeirri trú enn, að það hafi verið samkomulag gert á milli stjórnar og stjórnarandstöðu um öll mál sem átti að afgreiða hér á þingi þessa síðustu daga. Öll ágreiningsmál voru þar tekin upp mér vitanlega og þau leyst með samkomulagi, nema þetta.

Ég tók það fram sem skoðun míns flokks þegar við ræddum heldur lengra þinghald en upphaflega hafði verið gert ráð fyrir, að við værum mjög andvígir því, að menn væru að gera sér leik að því að taka inn varaþm. síðustu daga þingsins ofan í allt það varaþingmannaflóð sem hefur verið á Alþ. síðustu vikurnar, en t. d. hefur einn hæstv. ráðh. verið burtu af Alþ. milli 8 og 9 vikur, ef ég man rétt, með varamann inni. Við óskuðum eftir því, að menn reyndu nú að stemma stigu við hinum geysilega varamannaflaumi þessa, síðustu daga, og buðumst til að gera samkomulag við hæstv. ríkisstj. um að þó svo hana skorti atkv. vegna þess að þm. hennar væru fjarverandi þessa síðustu daga mundum við vera reiðubúnir til að veita hæstv. ríkisstj. þann atbeina sem hún þyrfti til að koma málum áfram þannig að hæstv. ríkisstj. þyrfti ekki að taka mn varamenn síðustu 2–3 dagana. Þessum tilmælum okkar hefur ekki verið sinnt. Framsfl. gerði sér t. d. leik að því í gær að taka inn eina tvo nýja varaþm. til að sitja á Alþ. tvo síðustu dagana í stað aðalþm. sem gátu ekki komið því við að vera hér.

Nú er komið í ljós til hvers leikurinn var gerður. Leikurinn er gerður til þess að allt Framsóknarliðið og allt stjórnarliðið sé nú viðstatt þessa kosningu, sem hefur verið haldið leyndu fyrir okkar stjórnarandstæðingum að fram eigi að fara síðasta dag þingsins með þeim hætti sem nú er stefnt að. Ekki vorum við látnir neitt um þetta vita, þm. Alþfl., né heldur ég sem formaður þingflokks Alþfl. Afleiðingin er m. a. sú, að við höfum ekki tekið inn varamenn fyrir okkar menn, sem þurft hafa að bregða sér frá síðustu tvo daga, og eru ekki nema 8 af 10 þm. Alþfl. á þingfundi í dag þar sem tveir þm. eru þegar farnir til útlanda og verða ekki kallaðir inn og við höfum ekki viljað gera það sama og þeir framsóknarmenn að kalla inn varamenn þessa tvo síðustu daga. En nú kemur í ljós, hæstv. forseti, til hvers leikurinn var gerður.

Það mun ekki hafa nein áhrif á það, að við Alþfl. menn munum væntanlega í kosningum hér á eftir halda þeim fulltrúa í stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins sem við höfum haft, þó svo að 1/8 þingmanna okkar sé nú upptekinn í samningaviðræðum og undirbúningi samningaviðræðna, m. a. við hæstv. ríkisstj. En ég vil aðeins láta það koma fram hvers konar vinnubrögðum er nú beitt af stjórnarliðinu, að því er ég vil telja gersamlega að ástæðulausu. Það þarf enginn að segja mér að sú ákvörðun hafi verið tekin fyrir hálftíma eða klukkutíma að bjóða fram eins og boðið hefur verið fram af hæstv. ríkisstj. í þessum kosningum. Það þarf enginn mér að segja að sú ákvörðun hafi verið það seint tekin að formönnum þingflokka stjórnarflokkanna, forsetum þingsins og hæstv. forsrh. hefði ekki gefist tími til að skýra stjórnarandstöðuflokkunum frá því í gær kl. 5 þegar við síðast vorum á fundi. Þetta eru vinnubrögð sem eru í hróplegu ósamræmi við þau vinnubrögð sem við þm. Alþfl. höfum reynt að temja okkur síðustu dagana, þar sem við höfum lagt okkur fram um að reyna að liðka til fyrir hæstv. ríkisstj., svo að ég tali nú ekki um þau vinnubrögð sem Framsfl. tíðkar í þessu máli.