29.05.1980
Sameinað þing: 69. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3235 í B-deild Alþingistíðinda. (3210)

Kosning sjö manna og jafnmargra vara í stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Þetta þinghald ætlar að verða í fullu samræmi við fæðingu þeirrar ríkisstj. sem núna situr, og það fer að mörgu leyti vel á því, að ekki sé brugðið út af drengskapnum frá byrjun til enda. Ég var ekki á þingflokksfundi þegar ákveðið var hverjum ætti að stilla upp við kjör í húsnæðismálastjórn, en ég tel mér skylt sem sjálfstæðismanni að hlíta þeim ákvörðunum sem lögmætur þingflokksfundur tekur í sambandi við uppstillingu þar. Þar var gerð sú samþykkt, að stillt er upp sömu mönnum og setið hafa í húsnæðismálastjórn fyrir Sjálfstfl. Það er ekki fyrr en fyrir örskammri stundu að drengskaparmaðurinn í sæti forsrh. Íslands — (StJ: Varaformaður Sjálfstfl.) Ég sleppi því — hann kemur til formanns þingflokks Sjálfstfl. og setur einu sinni enn stólinn fyrir dyrnar og segir: Það er ég sem ætla að ráða, því ég á góða bakhjarla. Ég get hlaupið undir pilsfald Framsóknar þegar mér sýnist og ég hef kommana með, því að þeir eru alltaf til í að gera bölvun. — Þetta er auðvitað það sem þessi maður hugsar á öllum sviðum.

Hér er ekki um að ræða vantraust á þann mann sem er formaður í málefnanefnd Sjálfstfl., sem Ólafur Ragnar Grímsson, formaður „gáfumannafélags“ Alþb., minntist á. Það er búið að taka þessa ákvörðun og þá á að standa við hana af öllum siðuðum mönnum, en ekki svíkjast undan merkjum og reka alltaf hnífinn í bakið á þeim sem þeir teljast vera í flokki með.