29.05.1980
Sameinað þing: 69. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3236 í B-deild Alþingistíðinda. (3214)

Kosning sjö manna og jafnmargra vara í stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Til þess að menn séu ekki að rugla saman tvennu óskyldu vil ég taka það fram, að mér kemur ekkert við hvaða afstöðu menn taka í þingflokki Sjálfstfl. eða hvernig einstakir félagar í þingflokki Sjálfstfl. kæra sig um að standa að ákvörðunum sem þar eru teknar. Það eru mál sem varða mig ekki nokkurn skapaðan hlut, og mér liggur algerlega í léttu rúmi hvort hæstv. forsrh. vill fara eftir samþykktum síns flokks eða ekki. Það er hans mál og þeirra manna sem með honum starfa.

Ég vil ítreka það sem ég sagði áðan, að mér finnst það ódrengilegt og óheiðarlegt, eftir að búið er að sitja á tíðum og löngum fundum með málsvörum ríkisstj. til að reyna að leysa öll ágreiningsmál í sambandi við þinghaldið svo að hún geti komið málum sínum fram, að láta ekki svo lítið að tilkynna okkur stjórnarandstæðingum um að stjórnin hyggist efna til ágreinings í atkvgr. síðasta dag þingsins. Það er óheiðarlegt og ódrengilegt og þeim mönnum, sem að því standa, ósæmandi.