29.05.1980
Sameinað þing: 69. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3237 í B-deild Alþingistíðinda. (3218)

Kosning sjö manna og jafnmargra vara í stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins

Páll Pétursson:

Herra forseti. Forseti er að nokkru leyti búinn að taka af mér ómakið að skýra frá því, af hverju þessi kosning hefur ekki farið fram fyrr. Þetta mál er búið að vera margoft á dagskrá og ég skil ekkert í því, að menn þurfi að hrökkva við, þó að þeir sjái það á dagskrá núna, og láta eins og þeir hafi étið folald þó að eigi að ganga til kosninga um fulltrúa í húsnæðismálastjórn.

Þetta mál var á dagskrá í vetur. Þá var því frestað vegna þess að einn flokkurinn, Sjálfstfl., var ekki tilbúinn að tilnefna menn í stjórnina. Málið var sýnt fyrir nokkrum dögum á dagskránni til að minna menn á að þessar kosningar væru yfirvofandi. Ég sé ekki ástæðu til að ræða svo sjálfsagt mál á fundum formanna þingflokkanna. Mér finnst að menn geti gengið að því sem gefnu að þessi afgreiðsla fari fram.

Hitt er svo annað mál, að við vissum að vísu ekki, formenn þingflokks Framsfl. eða þingflokks Alþb., að Sjálfstfl. mundi ekki koma saman heilum lista. Forsrh. og hans menn virðast ekki hafa komið sér saman við hinn hluta Sjálfstfl. og í það vil ég ekki blanda mér. — En menn þurfa sem sagt ekkert að láta sér koma það á óvart þó að hér eigi að kjósa stjórn Húsnæðisstofnunar og allra síst af því að við vorum að enda við að samþykkja lög um þá stofnun.