09.01.1980
Neðri deild: 15. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í B-deild Alþingistíðinda. (322)

41. mál, Skattadómur og rannsókn skattsvikamála

Dómsmrh. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Að því er varðar það, hvort settir skuli upp sérdómstólar eða stuðst við hið almenna dómstólakerfi, þá er auðvitað vitað að um þetta allt eru mjög skiptar skoðanir. Þó hygg ég að rétt sé að leggja áherslu á og undirstrika að einn sérdómstóll hér, sem settur var upp vegna sérstakra aðstæðna og breyttra þ jóðfélagshátta, þá á ég við fíkniefnadómstólinn, hafi skilað bæði góðu verki og að sá dómstóll út af fyrir sig sé nokkur undirstrikun þess, að við vissar kringumstæður geti verið rétt að fara þá leið, þó svo það skuli jafnframt sagt og viðurkennt að hér á auðvitað að vera um undantekningarmál að ræða. En ég endurtek, að ég hygg að fíkniefnadómstóllinn og hvernig við þann dómstól hefur verið unnið sé nokkur sönnun þess að sérdómstólar geti átt rétt á sér.

Í annan stað, að því er varðar skattbrotamál, sem hér hafa verið allnokkur, er eftirtektarvert að það gengur fram af munni hvers einasta ræðumanns hér að þeir viðurkenna að þau séu mikið vandamál í samfélaginu: Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, að einhvern veginn hafi það verið svo á undanförnum árum, að þegar á hafi reynt hafi ekki verið pólitískur vilji fyrir því að snúast gegn skattsvikum. Menn hafa farið um það almennum orðum, ég hygg að margar ríkisstj. hafi haft það í stjórnarsáttmálum sínum, að nú skuli snúist gegn skattalagabrotum og eitthvað gert í því skyni. En samt hefur ekkert gerst. Þetta ástand hefur verið óbreytt árum saman. Það er rétt að skattsektamál hafa farið til skattsektanefndar, en hún á vitanlega ekkert skylt við dómstól m.a. af þeim ástæðum að hún starfar alfarið fyrir luktum dyrum. Þar erum við kannske komnir að einum viðkvæmasta þætti þessa máls. Það eru ákaflega lítil tengsl á milli þeirrar starfsemi og borgaranna. Mér er ljóst að það er viðkvæmt mál, hversu opið þetta á að vera, en engu að síður er vert að vekja athygli á þessu.

Hér var á það minnst af hv. þm. Steingrími Hermannssyni, að á 10 árum hefðu ekki nema tæplega 10 mál af þessu tagi gengið til dómstólakerfisins. Og samkv. skýrslu, sem skattrannsóknastjóri tók saman í ágúst, upplýsti hann að nokkur þessara mála, þ. á m. mál frá 1972, fundust ekki, mál frá 1973 fannst ekki, annað mál frá 1973 fannst ekki. Auðvitað er hér ekki um nein stórmál að ræða, það skal undirstrikað og því bætt við, að í þessari sömu skýrslu kemur fram að af þessum tæplega 10 málum á 10 árum hefur dómur gengið aðeins í einu einasta þeirra. Þetta hygg ég að gefi nokkra lýsingu á því, hverjum vettlingatökum hefur verið á þessum málum tekið hér og hversu veikgeðja afstaða hefur verið tekin til mála af þessu tagi. Ég held að það sé meiri háttar réttlætismál að afstöðubreyting verði í þessum efnum og menn komist ekki upp með að skammta sér tekjur, að ráða tekjum sínum án þess að með því sé haft eftirlit.

Ég vil eindregið taka undir það með hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni að það er auðvitað fyrst og fremst spurning um vilja og með hvaða hætti við viljum koma þessum málum fyrir. Ég held að í reynd sé ekkert ósamkomulag um að það á að ganga eðlilega frá þessum málum. Þau eiga að ganga eðlilega fram. Fyrir brot á að koma refsing. Það gildir um þennan málaflokk eins og alla aðra. Ég veit og viðurkenni að það geta verið skiptar skoðanir um aðferðina, þó að það sé orðið löngu tímabært að raunverulega sé tekið af skarið í þessum efnum og fyrir því skapist raunverulegur pólitískur vilji, því að skattbrot eru röng, þau á ekki að líða og fyrir þau á að refsa eins og ákveðið er ef þau eiga sér stað.

Ég undirstrika að lokum, að ég tel að það sé sjálfur kjarni málsins að slíkan vilja hafi raunverulega skort. Ég held að það eigi að breytast. Því frv., sem hér er til umr., er ætlað að stuðla að slíkri breytingu.